Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 13:53:45 (5740)

2002-03-07 13:53:45# 127. lþ. 91.10 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, KÓ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða um frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Það sem fyrst og fremst er um að ræða er að verið er að breyta prósentuhlutfalli sem lagt hefur verið á innfluttar garðyrkjuafurðir aðrar en þær sem koma inn í aðlögunarsamning sem landbrh. er að undirbúa núna, og fara niður í 0% tolla. Þeir tollar sem getið er um samkvæmt b-lið hafa verið með þeim hætti að þeir hafa einungis verið í fjórum stigum, verið hafa fjögur þrep tolla og fimmta þrepið er núlltollur. Nú er verið að breyta hlutföllunum þannig að ekki er um að ræða fjögur mismunandi stig heldur verða stigin tíu.

Þetta þýðir að hægt er að stýra betur saman verðlagi og vernd á viðkomandi greinar, sem eru útiræktaðar grænmetistegundir, hægt er að stýra því frekar en áður var þannig að munur á innflutningsverði og tollum verður ekki eins mikill og gat orðið. Það má því segja að með breytingunni á tollalöggjöfinni verði hún meira straumlínulaga, ef ég má nota það orð, við þau verð sem framleiðendur eru að keppa við. Ég tel að þetta komi bæði neytendum og framleiðendum í raun að gagni, vegna þess að gríðarlega mikil óánægja hefur verið eins og við þekkjum á vorin, í kringum 15. mars, þegar þessir tollar hafa verið að leggjast á. Þeir hafa oft lagst óhóflega á, m.a. vegna þess að heimildirnar voru með þeim hætti að þær voru í svo háum þrepum. Nú er verið að auðvelda þetta.

Þar að auki er verið að taka af 30% toll af þeim vörum sem eru í samkeppni við innflutning og í framhaldi af þeim aðlögunarsamningi sem nú er verið að ljúka við falla niður magntollar af tilteknum tegundum, sem eru tómatar, gúrkur og paprikur. Þessu vildi ég koma á framfæri.