Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:13:17 (5743)

2002-03-07 14:13:17# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er rætt um frv. til laga um breyting á tollalögum, með síðari breytingum, sem lýtur að því að fjölga tollaflokkum á grænmeti.

Mikið hefur verið fjallað um grænmeti í samfélaginu á undanförnum árum, einkum og sér í lagi með tilliti til þess hvaða áhrif það hefur haft á annað verðlag, á svokallaða vísitölu og lánskjaravísitölu. Því hærra sem grænmetið verður í verði, því hærri verða lán manna. Því hærri sem tollar eru á grænmeti, þeim mun meira hækkar verð á grænmeti, og hefur það þau áhrif að skuldir manna hækka. Það er ánægjulegt til þess að vita ef þetta verður til þess að lækka verð á grænmeti vegna þeirra sem kaupa og neyta grænmetis. Líka hefur verið talað mikið um hollustu, um góðan mat og heilbrigðan, og hefur verið rætt mikið um það í þessum sölum, t.d. hversu góðar vörur hefðbundnar landbúnaðarafurðir okkar eru. Þá er ég að vísa til vara sem eru mun eldri en grænmetisframleiðslan, lambakjöt, nautakjöt og mjólkurafurðir ýmiss konar. Við getum verið mjög hreykin af og ánægð með hvað íslenskar landbúnaðarvörur eru góðar, og því hefur m.a.s. verið haldið fram að það sé gæðum íslenskrar mjólkur að þakka að sykursýki í börnum er miklum mun minni hér á landi en í nálægum löndum. Það er mikið gleðiefni að svo sé. Þess vegna tel ég að við og manneldisráð eigum að reyna að ýta undir neyslu íslenskra landbúnaðarafurða, þá ekki síst mjólkur með tilliti til þess sem ég sagði áðan, til að efla heilbrigði og hreysti Íslendinga.

[14:15]

Um daginn var hér umræða um grænmeti og íslenskar landbúnaðarafurðir. Ég man þá ekki betur en að hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson kæmist svo að orði að hann sæi fyrir sér í einhvers konar draumsýn, að ég held að hafi verið, að hægt væri jafnvel að flytja út íslenskt grænmeti vegna þess hversu gott það væri og heilnæmt. Það hefur verið rætt mikið um útflutning á öðrum íslenskum landbúnaðarafurðum, t.d. lambakjöti, og ef svo fer fram sem horfir að sögn þeirra manna sem staðið hafa að markaðsmálum þar sýnist geta verið mun bjartari tími fram undan í því að menn kaupi meira íslenskar landbúnaðarafurðir. Ef hægt væri að binda þetta saman við íslenskt grænmeti, þó að dýrt sé að margra mati, og hægt væri að selja það sem sérstaka gæðavöru þá er alls ekkert fráleitt að hugsa sér að við gætum jafnvel undir vissum kringumstæðum flutt út grænmeti.

En auðvitað skiptir mestu máli að verð á matvörum sé lágt hér á landi. Það skiptir líka máli hvernig það er verðlagt. Það er náttúrlega hluti af verðlaginu sjálfu eins og hv. 9. þm. Reykn., Sigríður Jóhannesdóttir, sagði áðan. Ég held að það sé gott og ávallt tilefni að minna menn sem versla með grænmeti, selja grænmeti og aðra matvöru, á að reyna að hafa vöruna á eins lágu verði og hægt er. Það hlýtur að skipta miklu máli fyrir barnafjölskyldur, fyrir fólk sem er með mörg börn, að geta keypt grænmeti á góðu verði. Ég tel þess vegna ágætt að hægt sé að lækka tollana á því eins og fram kemur í frv. sem við erum nú að ræða.

Þetta tengist líka niðurgreiðslum. Rætt er um að að greiða eigi niður, taka þátt í að greiða niður. Það er dýrt að framleiða grænmeti undir vissum kringumstæðum. Ef menn skoða tómataframleiðslu hér og kannski í Hollandi, þá er tómataframleiðslan í Hollandi náttúrlega nánast verksmiðjubúskapur í mun ríkara mæli en hér. Það er auðveldara og ódýrara að framleiða þar auk þess sem ýmis önnur skilyrði koma inn sjálfsagt, t.d. birta í mörgum tilvikum, sólarljósið og annað. Mér finnst koma til greina, herra forseti, að menn fari alvarlega að hugsa um að grænmetisbændur geti fengið raforku mun ódýrar en þeir fá í dag til þess að geta framleitt grænmeti á ódýrari hátt og það vakna upp spurningar um hvort hægt hefði verið að gera starfsskilyrði garðyrkjubænda auðveldari með einhverjum öðrum aðgerðum en beinum niðurgreiðslum, hvort hægt hefði verið að skapa þau skilyrði fyrir þessa atvinnugrein. Slíkar spurningar hafa reyndar vaknað í sambandi við fleiri atvinnugreinar, þ.e. hver skilyrði og hverjar aðstæður þar eru.

Í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar, þ.e. í uppkastinu sem við sáum á netinu frá iðnrh. og ríkisstjórnin hafði samþykkt, kemur fram að til álita komi að lækka tryggingagjald á fyrirtækjum úti á landi. Það vakna spurningar um hversu hátt tryggingagjald garðyrkjubændur greiða vegna starfsemi sinnar, hvort ekki hafi verið farið of geyst í þessu máli og hvort það hafi ekki verið mikil mistök hjá ríkisstjórninni, herra forseti, að samþykkja lög um að hækka tryggingagjaldið til mikillar mæðu fyrir þá sem greiða það. Ég held að bændur séu í þeim hópi, herra forseti. Ég reikna með því að hæstv. landbrh. muni taka þátt í þeirri baráttu bænda og margra annarra fyrir því að lækka tryggingagjald og vona ég að hann muni í umfjöllun sinni um frv. í lokin lýsa því yfir að hann muni berjast fyrir því að tryggingagjald á fyrirtæki verði lækkað á landsbyggðinni, sem bæði lýtur þá að garðyrkjubændum og öðrum bændum. (Gripið fram í.)

Það sem skiptir máli er að þessi atvinnugrein fái að dafna, eflast og vaxa og það er jákvætt að þessi grein vaxi. Þetta skapar náttúrlega mikla atvinnu. Eins og ég var að tala um áðan er varan sem íslenskir garðyrkjubændur framleiða mjög góð. Ég leyfi mér, herra forseti, að segja frá því að ég var á ferð á Reykhólum þar sem einn bóndi er með ylrækt. Hann ræktar tómata og hann notar, svo ég segi það til upplýsingar, mjöl úr verksmiðjunni á Reykhólum sem vinnur úr þangi. Þeir tómatar eru sérstaklega sætir og góðir og þeir albestu sem ég hef smakkað. (Gripið fram í: Er saltbragð af þeim?) Þeir eru sætir, ekki saltir, herra forseti. Það vakti furðu mína. Þeir eru mjög vinsælir af þeim sem komast í þá. (SJóh: Það eru nú ekki allir.) Það vildi ég segja hér, herra forseti, að full ástæða er til að styðja við íslenska garðyrkjubændur.

Á ákveðnum tímum ársins eru bændur í samkeppni við erlenda framleiðslu og horfa framan í það hvernig aukin samskipti eru á milli þjóða og hvað viðskipti eru að aukast. Menn reyna að minnka viðskiptahindranir með því að fella niður tolla þó að við sjáum oft í umhverfi okkar allt annað gerast, eins og núna í Bandaríkjunum þegar settir eru háir tollar á stálinnflutning frá Evrópu. En hver vill verja sitt og að vinna sé hjá sér. Það vilja ráðamenn hvers lands.

Herra forseti. Spurning hefur vaknað hjá sumum þingmönnum í sambandi við niðurgreiðsluna --- sérstaklega einum hv. þm. --- þ.e. um hvort niðurgreiðslur til grænmetisbænda séu réttlætanlegar og hvort stöðugt sé hægt að bæta við. Jafnvel hefur verið spurt hvort ef menn fara að rækta banana eða vínber í stórum gróðurhúsum, þá komi sjálfkrafa niðurgreiðslur á þá framleiðslu. Ég tel ekki líkur á því, herra forseti, að menn fari að snúa sér mikið að vínberjarækt hér á landi.

Herra forseti. Ég vona að ef frv. verður að lögum þá verði það til þess að fólk sjái sér fært að neyta meira grænmetis, bæði innlends og erlends. Ég vona líka að fólk fái jákvæðari mynd af allri umsýslunni í kringum þetta því að þau mál sem komu upp í sambandi við grænmetissöluna, verðsamráð og annað, sköpuðu ekki góðan orðstír og sumir fengu jafnvel vegna einhvers misskilnings ranga mynd af grænmetisbændum, héldu að þeir ættu einhvern þátt í einhvers konar samráði í verðlagningu á grænmeti. Ég á von að grænmetisneysla og grænmetisnotkun í matvælagerð eflist hér og verði meiri en nú.

Þegar við tölum um matvælaframleiðslu á Íslandi almennt hljóta hins vegar þessar spurningar að vakna: Hvernig getum við aukið framleiðsluna og þá þannig að við komum henni á markað þannig að fólk sé að vinna við atvinnugreinar sem efla því dug, gleði og ánægju og að það finni að sú atvinna sem það starfar við sé nýt og góð? Í umræðu um daginn um bændur kom einmitt fram að staða sauðfjárbænda væri ekki góð og margt var sagt í þeirri umræðu.

[14:30]

Mig langar til að nota tækifærið, herra forseti, til að geta þess í sambandi við sauðfjárræktina, sem ég sagði og sumir misskildu, héldu að ég væri að mæla alfarið með heimaslátrun, en það sem ég átti við var að bændur á sumum svæðum tækju sig saman og slátruðu fé sínu sjálfir, kæmu meira að vinnslunni og væru nær markaðnum. (Gripið fram í: Er verið að ræða búvörusamninginn?) Hér er verið að ræða um tolla á grænmeti og tengist sú umræða landbúnaði á Íslandi. Verið er að tala um atvinnugrein sem er mjög mikilvæg hjá grænmetisbændum og tel ég að hana ætti að efla. Í því sambandi benti ég, herra forseti, á að í landbúnaði væri önnur atvinnugrein, þ.e. sauðfjárrækt, og hana bæri að efla líka. Það er mín skoðun og var ég að segja að smámisskilnings hefði gætt vegna orða sem ég viðhafði um daginn, herra forseti. Sumir skildu orð mín þannig að ég væri að mæla sérstaklega með heimaslátrun án eftirlits en það sem ég sagði var að bændur ættu að koma meira að slátrun á fé sínu, náttúrlegu undir eftirliti og eftir öllum góðum heilbrigðisreglum til að þeir gætu nálgast og verið nær markaðnum sjálfir. Það hefur kannski verið vandi hjá grænmetisbændum, sem og sauðfjárbændum og öðrum bændum, að á milli bændanna og þeirra sem neyta vörunnar hafa verið mörg hundruð herbergi eða salir eða skrifborð. Það held ég að sé staðreyndin og þess vegna hafa sláturhúsamál jafnvel farið í hinn versta fasa eins og við höfum séð.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta frv. um breytingar á tollalögum. Það gefur tilefni til vangaveltna um íslenskan landbúnað. Ég held, herra forseti, að það væri gott ef menn hugsuðu á jákvæðari nótum um landbúnaðinn í stað þess að hugsa um að þetta sé allt vonlaust. Horfum heldur á það sem hefur verið að gerast í sambandi við markaðssetningu á íslenskum landbúnaðarafurðum, í lambakjöti, ostum og ýmsu öðru. Hver veit nema að við gætum jafnvel farið að hugsa okkur það að koma íslensku grænmeti á erlendan markað vegna þess hversu góð varan er, vegna lífrænnar ræktunar og ýmissa annarra góðra kosta. Ég tala nú ekki um ef við erum með, eins og ég var að segja frá áðan, t.d. þangmjölið sem gæti orðið okkur til framdráttar í því að markaðssetja svo góða vöru sem íslenskt grænmeti er.