Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:33:29 (5744)

2002-03-07 14:33:29# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta sem hv. þm. Karl V. Matthíasson hefur sagt hér um þessi mál. Hann fór mjög ítarlega yfir svið þeirra og þá tillögu sem liggur fyrir enda er það frv. til laga sem við ræðum hér kannski minna að efni og umfangi en maður hefði ætlað og vonast til í aðdraganda þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um grænmetismál, verðlag á grænmeti, stöðu grænmetisbænda, samráð birgja og heildsala og allt það sem á hefur gengið. Í raun og sanni er eingöngu verið að leggja til með þessu frv. eftir allt það sem á undan hefur gengið að ráðherra hafi heimild til að lækka eða hækka í 10 prósentum í einu í staðinn fyrir 25, 50, 75, 100% eða 0. Það er öll breytingin í raun og sanni.

Með fullri virðingu, herra forseti, fæ ég ekki séð að Alþingi Íslendinga setji með mjög myndarlegum hætti mark sitt á þróun þessara mála með samþykkt frv. Eftir sem áður er það þannig og það er auðvitað galli málsins og hefur verið lengi, með fullri virðingu fyrir þeim einstaklingi sem situr í sæti landbrh. hverju sinni, að landbrh. þjóðarinnar er verðlagsstjóri og ræður raunverulega verðlagi á grænmeti á disk neytenda, a.m.k. til heildsala skulum við segja, á degi hverjum. Það er fyrirkomulag --- og ég bið hæstv. ráðherra að leggja við eyrun af því ég á orðastað við hann --- sem við sjáum í hendi okkar að getur ekki verið við lýði til langframa. Við getum ekki lagt það á hæstv. landbrh. hverju nafni sem hann nefnist að hann sé verðlagsstjóri í þessum efnum og að hann eigi að hafa tæki og tól til að finna hinn gullna meðalveg þegar kemur að því að finna línuna milli sanngjarns verðlagsaðhalds og möguleika á samkeppni. Um það hefur deilan snúist hvenær verndinni á innlendri framleiðslu sleppir og hvenær gáttin fyrir samkeppni erlendis frá opnist sem aftur á að leiða til þess að verðið til neytenda sé sem allra lægst til að þessir ólíku hagsmunir geti farið saman.

Í þessu eru alltaf og ævinlega, herra forseti, þverstæður og það eru þær þverstæður sem birtast í þeirri niðurstöðu sem við höfum fylgst með. Við sem neytendur höfum auðvitað þurft að horfast í augu við að stundum hefur verðlag á þessum mikilvæga varningi verið algjörlega út úr fasa. Því miður er það þannig, herra forseti, og það verður að segja þá sögu eins og hún er, að þessi tillaga ein og sér leysir ekki vandamálið. Hún leysir það hreint og klárt ekki neitt.

Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að hæstv. ráðherra leggi við eyrun í þessum efnum því að hann hefur svo sannarlega þörf fyrir að heyra viðhorf í þá veru sem ég er að lýsa. Ég bíð þess að hæstv. ráðherra ljúki samtalinu við aðstoðarmann sinn enda á ég nógan tíma eftir.

Herra forseti. Ég sagði að ekki væri lítið á hæstv. ráðherra lagt í þessum efnum. Ég hafði satt að segja reiknað með því að samfara tillögum til breytinga, og ég vil segja lækkunar á tollum á grænmeti þar sem skýrt kæmi fram í anda þessa frv. að hér væri sú vegferð hafin að lækka verndartollana gagnvart innlendum grænmetisframleiðendum, yrði fyrirliggjandi samkomulag við greinina, sem er svo mikilvæg sem hún er, um niðurgreiðslur og aðlögunartíma. --- Er hvað? Hvað sagði hæstv. ráðherra? Var hæstv. ráðherra að segja eitthvað, herra forseti? Ég veit það ekki. Hann muldraði eitthvað í gaupnir sér enda ekki skrýtið.

Það er þetta, herra forseti, sem þarf auðvitað að fara saman því það er ekki á vetur setjandi, eins og reynslan hefur verið, að gera hæstv. landbrh. að verðlagsstjóra grænmetis, að hann þurfi að standa fyrir svörum og ákvörðunum í viku hverri eða mánuði og finna hinn gullna meðalveg milli þess að íslenskir framleiðendur geti fengið rétt verð, verð sem þeir geta búið við, og að neytendum sé gert að greiða viðunandi verð og eðlilegt --- nú er hægt að toga það og teygja hvað er rétt og hvað er eðlilegt --- og í þriðja lagi að það verði einhvers konar samkeppni til staðar í greininni. Þetta eru afskaplega erfið viðfangsefni.

Ég segi það enn og aftur, herra forseti, og ég spyr hæstv. ráðherra: Treystir hann sér til þess að gegna störfum verðlagsstjóra í þessum efnum og undirgangast það sem er gerð krafa um í grg. með hans eigin frv., að hann finni þennan eina rétta tón?

Ég hef af því dálitlar áhyggjur, herra forseti, og ég hef svo sem ekki, frekar en nokkur annar e.t.v., hrein og klár svör við því hvernig við getum leyst úr þeim erfiðu þverstæðum sem til staðar eru. En því miður verð ég að segja eins og er að ég held að sú nálgun viðfangsefnisins sem hér er lögð til geri í raun það eitt að auka svigrúm ráðherrans til að hækka eða lækka minna í hvert skipti. Það er í rauninni eina efnisatriði frv. Það leysir ekki þann vanda sem við neytendum blasir. Það leysir ekki vanda garðyrkjubænda. Það býr ekki til þá samkeppni sem eftir hefur verið kallað.

Herra forseti. Það vantar talsvert mikið upp á að þessum málum sé komið í viðunandi horf fyrir alla þá aðila sem hlut eiga að máli. Hér er enn og aftur farið með hraða snigilsins. Hélt ég, herra forseti, að hæstv. landbrh. hefði þegar verið búinn að setja í gírinn eftir mjög hægfara byrjun sem ráðherra og að hér fæddist eitthvað eilítið meira á þessu stigi máls en er á borðum þingmanna.