Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:50:04 (5750)

2002-03-07 14:50:04# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Guð láti gott á vita. Vonandi leiðir frv. til þeirrar niðurstöðu sem hér var lýst. Ég vek hins vegar athygli hv. þm. á því að í gildandi lögum hefur verið heimild til að fella niður tolla --- með öllu, 100% niðurfellingar. Svigrúmið er jafnmikið og áður, frá 0 upp í 100%. Hins vegar eru flokkarnir fleiri. Þeir eru tíu í staðinn fyrir fjóra.

Herra forseti. Það er ekkert handfast í frv. Ég bið hv. þm. og hæstv. ráðherra að sýna mér fram á hvar það stendur í frv. að þessi ákvörðun Alþingis, þessi breyting á lögum, leiði sjálfkrafa til lækkunar á grænmetisverði. Það er ákvörðunarefni ráðherrans hins vegar og hann er að axla þá ábyrgð enn og aftur að lofa því að hér verði varanlega lækkað verð á grænmeti. Hæstv. ráðherra bendir á hv. 1. þm. Suðurl. og segir: Ég er ekki að lofa neinu. Það er hinn stjórnarflokkurinn.

Herra forseti. Þetta er auðvitað veruleiki málsins og við bíðum og sjáum hvað setur. Þessi fyrirvari er alltaf látinn fylgja og kannski ekki að ástæðulausu. Það getur hins vegar vel verið að það skili sér ekki alveg því verslunin getur samt sem áður aukið álagninguna. Á sínum tíma, þegar birgjarnir og heildsalarnir fóru í samráðið, var það þeim að kenna?

Vissulega eru ýmsir þættir sem við ráðum ekki við í samkeppnisþjóðfélagi okkar og ber að hafa fullan fyrirvara á því. En, herra forseti, hér erum við að setja lagaramma um þessa grein, um þessa vöru sem við viljum svo gjarnan að íslenska þjóðin neyti. Við erum að fjalla um það en ekki samninga sem gerðir eru uppi í ráðuneyti, ekki eitthvað sem gerist einhvers staðar annars staðar. Hvernig á lagaramminn að líta út og til hvers leiðir hann? Því miður er allt óljóst í þeim efnum. Þetta frv. svara því miður engum þeirra stóru spurninga sem leitað er svara við.