Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 15:20:02 (5758)

2002-03-07 15:20:02# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um landgræðslu. Frv. er flutt á þskj. 913 og er mál nr. 584 á þessu þingi.

Núverandi landgræðslulög eru að stofni til frá árinu 1965 og löngu er orðið tímabært að endurskoða landgræðslulöggjöfina. Síðan hún var sett hér á hinu háa Alþingi hafa orðið gríðarlegar breytingar á öllum sviðum starfseminnar og miklar viðhorfsbreytingar í þjóðfélaginu til verndunar auðlinda landsins. Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða sem gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að löggjafinn fjallaði um verndun auðlinda sem felast í gróðri og jarðvegi. Upphaf landgræðslulöggjafar hér á landi má rekja allt aftur til ársins 1907, en þá áttu enn eftir að líða áratugir þar til aðrar þjóðir tóku að setja sér slíka löggjöf. Landgræðsla ríkisins er talin elsta stofnun í heiminum sem starfað hefur óslitið á þessum vettvangi.

Landgræðsla er samheiti yfir aðgerðir til að vernda og bæta gróður og jarðveg með ákveðið markmið að leiðarljósi. Tilgangur landgræðslu getur verið mismunandi. Sums staðar hefur þurft að stöðva öra landeyðingu, sem hefur ógnað forsendum byggðar. Annars staðar er markmið landgræðslu að gróður verði öflugri en hann er nú, en víða er framleiðsla vistkerfa langtum minni en náttúrufar gefur tilefni til. Enn annar tilgangur landgræðslu er að stefna að tilteknu gróðurfari á landsvæðum, allt eftir því til hvers á að nota þau. Þar getur verið um að ræða tún eða beitiland til landbúnaðar, útivistarsvæði ýmiss konar eða varðveislu fágæts náttúrufars.

Landgræðsla undanfarinna áratuga hefur tvímælalaust skilað miklum árangri. Stórar landspildur sem áður voru örfoka eru nú þaktar gróðri. Fjölmargir vinna að því að bæta landkosti. Enn er þó langt í að náðst hafi markmið gildandi landgræðslulaga um að stöðva jarðvegseyðingu og koma í veg fyrir að gróður eyðist. Til að þau megi nást er m.a. nauðsynlegt að efla rannsóknir á landgræðslu, virkja betur landnotendur og umráðahafa lands og koma á skilvirkara eftirliti með landnýtingu. Landeyðing og uppblástur verður enn þá víða um land og það allt of víða. Þrátt fyrir árangursríka landgræðslu og mikinn áhuga landsmanna á henni eru gríðarleg vandamál tengd jarðvegsrofi og gróðureyðingu. Ofbeit er enn vandamál að hluta til og skort hefur úrræði til að bregðast við þessari alvarlegu orsök gróður- og jarðvegseyðingar. Þau úrræði sem hafa verið fyrir hendi hafa verið meingölluð og af þeim sökum óvirk. Þetta hefur m.a. mjög neikvæð áhrif á möguleika á fæðuframleiðslu. Mikilvægt er að lagaramminn um landgræðsluna og fjárlög miðist við að tryggja enn betri árangur í landgræðslustarfinu og taki mið af breyttum vinnubrögðum í stjórnsýslunni á síðustu árum.

Ýmsar þjóðir hafa á síðustu árum stigið stór skref í þá átt að bæta árangur af landgræðslu og endurskoða löggjöf um hana. Þar má t.d. nefna Bandaríkin, Ástralíu og Nýja-Sjáland. Hér á landi hefur þróunin á sviði umhverfismála og bættrar landnýtingar m.a. leitt af sér ný lög um náttúruvernd, nýja skipulagslöggjöf og lög um mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki síður mikilvægt að endurskoða landgræðslulöggjöfina. Mikilvægt er að koma í framkvæmd nýjum viðhorfum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem felast í jarðvegi og gróðri. Enda þótt starf Landgræðslunnar hafi haft sjálfbæra nýtingu landsins að leiðarljósi frá upphafi var það hugtak ekki til þegar núgildandi lög um þennan málaflokk voru samin. Í dag eru flestir sammála um að þennan hugsunarhátt eigi að taka upp í allri umgengni við landið og auðlindir jarðar.

Meðfylgjandi frumvarp er að stofni til samið af nefnd sem Guðmundur Bjarnason, þáverandi landbúnaðarráðherra, skipaði síðla árs 1998 til að gera tillögur um langtímastefnu í landgræðslu og gróðurvernd. Nefndin skilaði skýrslu sinni til landbúnaðarráðherra í október 1999 og hefur ráðuneytið gefið hana út undir nafninu ,,Í sátt við landið``. Frumvarpið hefur þó tekið þónokkrum breytingum í meðförum ráðuneytisins samkvæmt tillögum Landgræðslunnar og athugasemdum sem hafa komið fram víða að.

Enda þótt frumvarpið sé að verulegu leyti í anda gildandi landgræðslulaga er ýmis nýmæli að finna í því. Þar má nefna að skýrar er kveðið á um verkaskiptingu en nú og samkvæmt frv. á að vera alveg ljóst hver ber ábyrgð á landi. Frumvarpið mun leiða til skýrari stefnumótunar í landgræðslu og felur í sér úrræðaferli sem á að stuðla betur að sjálfbærri landnýtingu en núverandi lög gera. Því er ætlað að endurspegla þá þróun sem orðið hefur í umhverfismálum á síðustu áratugum og efla landgræðslu á Íslandi. Leitast var við að hafa frumvarpið stutt, hnitmiðað og auðskiljanlegt. Það er samtals 33 greinar auk bráðabirgðaákvæða og er skipt niður í fjóra kafla:

Í I. kafla, 1.--3. gr., er fjallað um tilgang laganna og helstu hugtök skilgreind sem notuð eru í frumvarpinu og talin er ástæða til að skýra sérstaklega. Þar er einnig mælt fyrir um skipulag landgræðslumála innan stjórnsýslunnar.

Í II. kafla, 4.--15. gr., er fjallað um landgræðsluverkefni. Þar er að finna yfirlit yfir verkefni Landgræðslunnar og nánari lýsingu á þeim helstu. Einnig er fjallað um hlutverk sveitarfélaga í landgræðslu og hvernig einkaaðilar geta komið að landgræðsluverkefnum í samstarfi við hið opinbera.

Í III. kafla, 16.--25. gr., er fjallað um ábyrgð á landnýtingu og því lýst hvernig unnt sé að bregðast við illri meðferð á landi. Einn helsti gallinn við núgildandi lög um landgræðslu, nr. 17/1965, er að í þeim eru ekki nægjanlega skýr lagaleg úrræði til að hægt sé að bregðast við þegar land hefur verið ofbeitt og umráðahafi landsins hefur ekki viljað draga úr beitarálaginu. Lögin hafa heldur ekki veitt viðunandi úrræði til að bregðast við þegar búfé hefur ítrekað verið sleppt inn á afgirt landgræðslusvæði með tilheyrandi tjóni. Þó svo að umrædd tilvik séu ekki mjög mörg eru þau engu að síður alvarleg. Skortur á úrræðum hefur m.a. leitt til þess að Landgræðsla ríkisins hefur ekki getað sinnt gróðurverndarhlutverki sínu sem skyldi. Einnig er bagalegt að þeir landnotendur sem leggja metnað í bætta landnýtingu, en staðhættir valda því að erfitt er að setja upp gripheldar girðingar, hafa orðið fyrir miklum ágangi búfjár af ofbeittu landi yfir á þeirra eigið land. Eðlilega leitar búfénaður af ofbeittu landi yfir á grösugri svæði. Við þessum vandamálum, þ.e. ofbeitinni eða ósjálfbærri landnýtingu, er brugðist í III. kafla frumvarpsins. Höfundar frv. hefðu þegið að hafa þennan kafla fyrirferðarminni og einfaldari í sniðum, enda er þess vænst að það muni nánast heyra til undantekninga að beita þurfi úrræðaákvæðunum. En þau þurfa engu að síður að vera fyrir hendi og kveða á um ferli sem er eins skýrt og mögulegt er til þess að leysa megi þau vandamál sem upp kunna að koma vegna ofbeitar eða annarrar slæmrar meðferðar á landi. Ástæða kann að vera til að huga að endurskoðun lagaákvæða um ágang búfjár í lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., en um það er ekki fjallað í þessu frumvarpi. Ekki er heldur í þessu frumvarpi hróflað við vörsluákvæðum laga um búfjárhald, forðagæslu o.fl., nr. 46/1991.

Í IV. kafla, 26.--33. gr., eru tekin saman ýmis ákvæði. Þar er m.a. að finna ákvæði um gildistöku og þar segir að með brot á lögunum fari að hætti opinberra mála. Einnig er þarna að finna ákvæði um kostnað við framkvæmd laganna, um útgáfu reglugerða og um stjórnsýslukæru til landbrh. Síðast en ekki síst er í IV. kafla að finna heimildir fyrir Landgræðsluna til að leggja á dagsektir og til eignarnáms. Þetta eru úrræði sem nauðsynlegt er að kveða á um í lögunum, þó svo þess sé að vænta að mjög sjaldan þurfi að grípa til þeirra.

Að lokum eru bráðabirgðaákvæði vegna samninga sem Landgræðsla ríkisins og áður Sandgræðsla Íslands hafa gert og ákvæði vegna ákvarðana um ítölu sem kunna að vera í gildi.

Frv. það sem hér er lagt fram miðar að því að gera Landgræðsluna að þekkingar-, framkvæmda- og þjónustustofnun á sviði landgræðslu til hagsbóta fyrir land og þjóð. Ég held að engum blandist hugur um að Landgræðslan hefur á síðustu öld unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir Íslendinga og flestir eru nú meðvitaðir um að mikilvægt er að hún hafi samstarf við t.d. bændur landsins og að hún geti stöðvað, eins og kemur fram í þessu frv., að níðst sé á landi. Sem betur fer erum við í mjög fáum tilfellum nú að ofbeita land. Kannski ber meira á því þar sem hrossum hefur verið ofbeitt en sauðfé í seinni tíð. Yfir þessu öllu verðum við að vaka. Það er ljótur svipur á því að fara illa með land.

Hæstv. forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um frv. við 1. umr. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. landbn.