Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 15:32:35 (5759)

2002-03-07 15:32:35# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er sannarlega lagt fram mál sem tímabært var orðið að leggja fram, frv. til laga um landgræðslu. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra höfum við búið við landgræðslulöggjöf sem sett var 1965 og er auðvitað orðin úrelt og hefur verið kallað eftir nýrri löggjöf um landgræðsluna og er það sannarlega fagnaðarefni að hún skuli nú hafa litið dagsins ljós. Þetta er eitt af stórmálum þessa þings og kannski hægt að segja að það hefði mátt koma fram fyrr. Nú er það hér og við hv. þm. höfum svo sem haft ágætan tíma til að kynna okkur það því málið var lagt fram á síðasta þingi en ekki náðist að fjalla um það.

Varðandi hina formlegu afgreiðslu, þá tel ég þetta mál vera þeirrar ættar að ekki væri óeðlilegt að umhvn. Alþingis fengi það til yfirlestrar og yrði kannski fengin til að gefa hv. landbn. einhvers konar umsögn um málið því hér er vissulega um málaflokk að ræða sem heyrir undir bæði ráðuneytin, þ.e. ráðuneyti landbúnaðarmála og ráðuneyti umhverfismála.

Borið hefur á góma í hv. umhvn. að hún hafi lýst yfir fullum vilja til að fjalla um gróðurverndina og jarðvegsverndina og sömuleiðis viljað hafa þekkingu á málefnum skógræktarinnar og þar sem þetta mál kemur inn á öll þessi atriði tel ég ekki óeðlilegt að landbn. óski eftir því að umhvn. fari yfir málið og það verði því rækilega kynnt í þeirri nefnd.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að víða hefur pottur verið brotinn hingað til og auðvitað hafa markmið landgræðslulaganna, sem við þó höfum búið við, ekki náðst nægilega vel. Okkur hefur gengið mjög illa að halda utan um þennan málaflokk og skýringarnar sjálfsagt ótal margar. Hins vegar hefur umhverfið í þessum málaflokki breyst gífurlega mikið og nægir þar að nefna að við búum núna við mjög marga öfluga alþjóðlega samninga sem getið er um í greinargerð frv. sem auðvitað leggja okkur skyldur á herðar. Með gömlu löggjöfinni hefur okkur verið allsendis ómögulegt að framfylgja þeim ákvæðum sem þessir alþjóðasamningar hafa lagt okkur á herðar. Þess vegna er ný löggjöf, eins og ég sagði áðan, orðin sannarlega tímabær.

Nauðsynlegt er að lesa frv. rækilega saman við lög um náttúruvernd og skipulags- og byggingarlögin því auðvitað er þetta nýja frv. það skylt þeirri löggjöf að eðlilegt er að rýnt sé í það í nefndastarfinu, að náttúruverndarlögin séu þannig höfð til hliðsjónar að ljóst sé að þeim verði framfylgt út í æsar og þau harmóneri og milli þessara tveggja laga, þriggja laga reyndar sem ég nefndi, sé fullkominn samhljómur.

Varðandi það hvernig skörun málaflokksins er, þá hefur því verið hreyft á þessum vettvangi oftar en einu sinni að kannski þurfi að skoða með hvaða hætti umhvrn. fjalli um gróður- og jarðvegsvernd. Það kemur fram í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld að umhvrn. ætlar á nýrri öld að láta til sín taka í þessum efnum.

Fyrsti kafli í stefnumörkuninni, sem reyndar hefur nú ekki litið dagsins ljós og er enn þá í vinnslu í umhvrn., fjallar um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Sá kafli kemur beint inn á mjög veigamikil atriði í frv. Þar er getið þeirra alþjóðlegu samninga sem eru helstu stjórntækin í þessum málaflokki, þ.e. samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, náttúruverndarlöggjöfin okkar, lögin um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og náttúruverndaráætlun sem hæstv. umhvrh. hefur sagt okkur að komi til með að líta dagsins ljós og verða kynnt fyrir Alþingi á hausti komanda. Af því náttúruverndaráætlunin heyrir undir umhvn. og umhvrn. er það eitt af lykilatriðunum sem þarf að hafa í huga þegar við skoðum undir hvaða ráðuneyti og undir hvaða nefndir þessi málaflokkur fellur.

Annar kafli í stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun á nýrri öld varðar þann málaflokk sem hér er til umfjöllunar, þ.e. landgræðsluna. Það er 8. kafli í áætluninni og ber heitið ,,Sjálfbær gróðurnýting og endurheimt landgæða``.

Ljóst er að Ísland hefur misst stóran hluta gróðurþekju sinnar og kannski allt upp í 95% síns upphaflega skóglendis og þjóðin hefur verið sammála um að við verðum að snúa þeirri óheillaþróun við. Til þess hefur verið kallað eftir nýrri löggjöf sem nú liggur hér á borðum þingmanna.

Enn einn kaflinn í stefnumörkun stjórnvalda á nýrri öld, sem umhvrn. hefur verið að móta, fjallar um vernd og endurheimt votlendis sem sömuleiðis má segja að falli undir frv. sem við fjöllum um, frv. um landgræðslu.

Langtímamarkmiðin sem frv. gerir ráð fyrir að séu sett þyrftu kannski að vera skýrari. Það er alveg ljóst að langtímamarkmið í landgræðsluáætlun þurfa að vera mjög skýr. Þau þurfa að vera tímasett og þau þurfa að vera raunhæf. Ég mundi segja að í nefndastarfinu kæmi til með að verða litið nánar á hvernig landgræðsluáætlun ætti að líta út, þ.e. hvernig markmið hennar verða sett þannig að tryggja megi að t.d. gróður og allur jarðvegur í úthaga fái að þróast eftir umhverfisskilyrðum í landinu, til þess sömuleiðis að tryggja að tekið verði á málefnum hins villta gróðurríkis, að beitarstjórn verði skilvirk og sett séu markmið sem við getum á hverjum tíma skoðað hvernig okkur gengur að standa við. Sömuleiðis að endurnýjunarhæfni gróðurríkisins verði skoðuð á hverjum tíma.

Auðvitað verður líka að hafa í huga að í allri ræktun utan húss verði tekið tillit til hinnar líffræðilegu fjölbreytni sem við erum skuldbundin samkvæmt ákvæðum alþjóðasamninga og sérstakt tillit þarf auðvitað að taka til íslenskra aðstæðna og það þarf að byggja á okkar íslensku rannsóknum og íslensku þekkingu.

Ekki er hægt að forðast það í þessari umfjöllun að fjalla um innfluttar tegundir og þátt þeirra í landgræðslunni. Það er eðlilegt að þær nefndir sem um málið fjalla fari vel ofan í saumana á því hvað samningurinn um líffræðilega fjölbreytni leggur okkur á herðar og hvaða afstöðu við eigum að taka varðandi ræktun innfluttra tegunda.

Eins og menn þekkja hafa staðið um það talsverðar deilur með hvaða hætti erlendar lífverur hafa verið fluttar inn í lífríkið og þá ekki síst hvað varðar gróðurríkið. Nægir þar að nefna hinn alkunna slag um lúpínuna. Það er eðlilegt, þegar Alþingi fjallar um þessi mál á yfirgripsmikinn hátt og hér er um stefnumörkun til framtíðar að ræða, að við förum vel ofan í saumana á þessum atriðum, enda ber okkur skylda til þess samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni.

Sömuleiðis þarf að gæta vel að því að skipulag allra aðgerða, rannsóknir, stjórnun og vöktun, fari fram svæðisbundið og gera þarf áætlanir um slíkt til þess að tryggja lýðræðislega aðild hlutaðeigandi og það er mjög mikilvægur þáttur í þessum málum, þ.e. lýðræðisleg aðild íbúa landsins að þeim. Og af því að við höfum verið að rækta skóg og jafnvel græða upp land á vegum frjálsra félagasamtaka, þá er þetta enn eitt málið sem gerir okkur skylt að fara að lögfesta Árósasamninginn sem fjallar um aðkomu og réttláta málsmeðferð frjálsra félagasamtaka í sambandi við umhverfismál. Hér er um umhverfismál að ræða og þess vegna er mjög mikilvægt að tryggð sé lýðræðisleg aðkoma íbúa á hverju svæði þegar gerðar eru svæðisbundnar áætlanir. Má þar til dæmis nefna landshlutabundnar áætlanir um skógræktarverkefni.

Sömuleiðis má hugsa sér að framkvæmdaáætlun yrði sett þar sem markmið næstu fimm ára yrðu skilgreind mjög svo náið, ítarlega tímasett og á raunhæfan hátt þannig að við séum að tryggja það að hér fari af stað öflug áætlun um gróður- og jarðvegsvernd. Marka þarf skýra markmiðssetningu varðandi beitarstýringu og alla vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs og nauðsynlegt að áætlun verði gerð í víðtækri samvinnu hlutaðeigandi hagsmunasamtaka, áhugafélaga, opinberra stofnana og rannsóknaraðila á sviði gróður- og jarðvegsverndar, um aðferðir til að stilla saman nýtingu og verndun á þessu sviði með tilliti til markmiða um sjálfbæra þróun.

Auðvitað er það gleðiefni, herra forseti, að í frv. til laga um landgræðslu skuli það nú gert að meginmarkmiði að stuðla eigi að sjálfbærri nýtingu þessara auðlinda. Þá skulum við vera okkur alveg meðvituð um það, herra forseti, að íslenska þjóðin þarf að skilgreina það algjörlega fyrir sjálfri sér hvað við eigum við með því þegar við setjum svonalagað inn í lagatexta, eins og segir í 1. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Tilgangur laga þessara er að vernda, endurheimta og auka þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í jarðvegi og gróðri landsins og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra.``

Ljóst er að ríkjandi stjórnvöldum hefur reynst harla örðugt að skilgreina þetta hugtak fyrir þjóðinni svo sómi sé að og það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra oftar en einu sinni að þeir bera lítið skynbragð á þá hugmyndafræði sem liggur að baki þessari hugtakanotkun. Það er algerlega ljóst að hv. íslenskir alþingismenn og hæstv. ríkisstjórn verða að ná að botna í þeirri hugmyndafræði sem segir í frumvarpstextanum að eigi að fylgja.

Af því ég nefndi fyrr í máli mínu, herra forseti, stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld vil ég gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það og kannski hæstv. umhvrn. ekki hvað síst að ekki skuli hafa gengið hraðar að hrinda þessari stefnumörkun af stað því eins og menn vita er núgildandi framkvæmdaáætlun, sjálfbær þróun í íslensku samfélagi til aldamóta, útrunnin. Eftir henni ætluðu stjórnvöld sér að vinna til aldamóta. Þeim gekk það mismunandi vel. Það er til mikil og góð skýrsla sem unnin var af starfshópi eða nefnd um endurskoðun þessarar framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun. Sú skýrsla heitir ,,Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi -- mat á stöðu framkvæmdaáætlunar`` og hún sýnir glögglega að stjórnvöldum gekk ekki allt of vel að standa við markmið sín sem þau settu sér með framkvæmdaáætlun til aldamóta. Og það hversu við höfum þurft að bíða eftir hinni nýju stefnumörkun er auðvitað ekki til fyrirmyndar og segir meira en mörg orð um vilja stjórnvalda í þessum efnum, hversu sannfærð þau stjórnvöld sem nú ríkja eru um að innleiða þurfi hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

[15:45]

Ég held að ekki sé seinna vænna fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. umhvrh. að fara að slá í hesta sína til að stefnumörkun um sjálfbæra þróun á nýrri öld verði tilbúin sem allra fyrst. Meðan sú áætlun er eingöngu til í drögum er auðvitað eðlilegt að hv. landbn. og vonandi að öllum líkindum hv. umhvn. lesi þetta frv. saman við þó þau atriði sem felast í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld því þar er vegvísirinn.

Herra forseti. Vegvísirinn til sjálfbærrar þróunar er í stefnumörkuninni sem er unnin hjá umhvrn. Í frv. til laga um landgræðslu eru ákveðnir þættir sem ætla má að geti stangast á við markmiðin í stefnumörkun um sjálfbæra þróun þannig að mjög nauðsynlegt er að lesa þetta allt rækilega saman. Enn fremur er nauðsynlegt að fylgja því eftir að við framkvæmd þessara laga sé byggt á vistfræðilegri þekkingu sem við eigum mikið af í þessu landi. Í því sambandi má reka enn einu sinni á eftir því að náttúruverndaráætlun líti dagsins ljós, og ekki síður skráning Náttúrufræðistofnunar á búsvæðagerðum á landinu því gífurlega umfangsmiklar áætlanir og kortlagningar eru í gangi hjá stofnunum sem hafa veg og vanda af því starfi, þ.e. Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands, og allir sem í þessum sal eru vita að ríkisstjórnin hefur ekki sett þá fjármuni í þau verkefni sem þau hafa í raun og veru kallað á. Það segir líka sitt um áherslur ríkjandi stjórnvalda í þessum málaflokki.

Það má gagnrýna að varúðarreglunnar skuli í engu vera getið í frv. til laga um landgræðslu en við framkvæmd laga af þessu tagi þarf að taka mið af varúðarreglunni. Hún leit dagsins ljós í Ríó-yfirlýsingunni, í Ríó-ferlinu, og er hluti af undirstöðunni fyrir samninginn um líffræðilega fjölbreytni og Dagskrá 21 sem Íslendingar hafa samþykkt að fara eftir. Við erum þannig skuldbundin til að miða við að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í gróðurríki landsins og hinum náttúrulega gróðri.

Í þessum drögum sem fjalla um sjálfbæra þróun á nýrri öld eru markmiðin enn þá harla óljós og nauðsynlegt að laga betur að okkar veruleika. En sú vinna er í gangi eins og ég segi og ástæða er til að hvetja hv. alþm. til að kynna sér hana og taka í henni beinan þátt því umhvrn. hefur boðið almenningi og þeim sem vilja koma að því máli þátttöku í þessari vinnu.

Kannski er ekki tilefni til að fara í smáatriðum ofan í einstakar greinar frv., herra forseti, en maður verður einungis að láta í ljósi þá von að hér verði tekið þannig á málum að þegar löggjöfin kemur til með að verða samþykkt taki hún mið af annarri löggjöf sem við höfum sett upp á síðkastið, ég nefni náttúruverndarlögin og skipulags- og byggingarlög, og algerlega nauðsynlegt að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld verði höfð að leiðarljósi því hún er nauðsynlegt vinnuplagg. Kannski ætti maður að segja betrumbætt stefnumörkun því hún er ekki tilbúin eins og ég hef ítrekað sagt. Ég held að hér sé gífurlega mikið verk að vinna, eitt af stærstu málum þessa þings, og ég treysti því að það fái mikið svigrúm í nefndum og að um það komi til með að verða öflug málefnavinna á þeim vettvangi.