Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 15:55:34 (5764)

2002-03-07 15:55:34# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Við ræðum frv. til laga um landgræðslu sem hefur komið fyrir hv. Alþingi áður, á síðasta þingi ef ég man rétt, en varð ekki útrætt og hefur ekki tekið miklum breytingum. En ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta frv.

Fyrst langar mig að taka fram að það eru ákveðin vonbrigði fyrir mig að frv. um landgræðslu skuli vera lagt fram í þessu formi vegna þess að ég bind vonir við að í framtíðinni verði landgræðslan og skógræktin sameinuð og ein löggjöf látin gilda fyrir landgræðsluna og skógræktina í landinu. Mér finnast þessi verkefni of skyld til að yfir þeim gnæfi tvær ríkisstofnanir með tilheyrandi pýramídum. Ég held að þetta væri hægt að sameina og það yrði til mikillar farsældar.

Gildandi landgræðslulög eru frá 1965. Áður voru hér í gildi lög um landgræðslu frá 1907 sem er í sjálfu sér mjög merkilegt vegna þess að slíkt mun ekki hafa gerst annars staðar í heiminum, að svo lengi hafi verið lög um að græða upp landið og reyna að endurheimta land sem hafði orðið uppblæstri að bráð. Sandgræðslulög voru þau kölluð til ársins 1965 en frá og með þeirri lagasetningu hafa þau verið kölluð landgræðslulög.

Landgræðslan er auðvitað til þess að bæta gróður og jarðveg, stöðva landeyðingu eins og ég nefndi áður og jafnframt gera gróður öflugri. Víða hér á landi er gróður alls ekki í samræmi við náttúrufar viðkomandi staða, einkum og sér í lagi vegna þess að stór landsvæði hafa eyðst, t.d. vegna öskufalls eða jökulhlaupa og náttúran hefur ekki náð að bæta það sjálf hjálparlaust.

Það er líka tilgangur landgræðslu að stefna að tilteknu gróðurfari á landsvæðum, t.d. eru landsvæði skilgreind sem beitarlönd og önnur landsvæði skilgreind sem útivistarsvæði og þá er gert ráð fyrir annars konar landgræðslu þar. Einnig eru enn önnur landsvæði þar sem kappsmálið er að halda öllum gróðri í sem upprunalegustu horfi. (Gripið fram í.) Ja, það er nú það, hv. þm. Að okkur hefur hefur nefnilega á undanförnum áratugum steðjað hætta mikil sem er samfara innfluttum tegundum jurta sem geta verið afskaplega góðar til síns brúks eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir minntist á vegna landgræðslu á Mýrdalssandi. Þar hefur t.d. sú innflutta tegund, lúpínan, gefist vel en á öðrum stöðum er hún vægast sagt til vansa. Ég verð að segja að það stingur mjög í augu að sjá lúpínu innan um mjög sterkan upprunalegan gróður eins og í ákveðnum þjóðgörðum sem við erum mjög stolt af. Þótt ég telji að lúpína, svo ég nefni þá tegund af því hún var til umræðu, eða Alaskaösp eigi rétt á sér við ákveðnar aðstæður þar sem ekki er hætta á að þær breiði úr sér og skaði það plöntusamfélag sem fyrir er tel ég að við eigum að fara mjög varlega í að nota slíkar tegundir.

[16:00]

Það eru vissulega mikið gleðiefni, eins og hér var minnt á, að sjá stórar landspildur þaktar gróðri sem áður voru örfoka. Það er t.d. ánægjulegt og ég vísa til Mýrdalssands og annarra sanda á Suðurlandi í því sambandi. Fyrir kannski 10--15 árum, þegar ég keyrði sem oftar austur á Kirkjubæjarklaustur, lenti ég þar mjög skyndilega í sandstormi sem ekki hafði verið varað við. Ég lenti í því að lakkið fór algerlega af bílnum mínum og rúðurnar urðu gjörsamlega mattar. Ég tel að það sé ekki mikil hætta á að slíkt gerist í dag því einmitt á þessu svæði hefur Landgræðslan staðið sig afskaplega vel. Þegar maður keyrir núna um Mýrdalssand er fátt sem minnir á það umhverfi sem þar var fyrir mjög stuttu og ortar hafa verið um frægar ballöður sem mikið hafa verið sungnar og spilaðar.

Þó margt hafi tekist vel er þó afskaplega langt í land með að markmið gildandi landgræðslulaga, þ.e. laganna frá árinu 1965 um að stöðva jarðvegseyðingu í landinu, hafi náð fram að ganga. Við eigum þar mjög langt í land og þurfum mjög að herða okkur. Við þurfum t.d., eins og stendur í þessu frv., að efla rannsóknir á þessu sviði og virkja betur landnotendur og umráðahafa lands sem nú hefur samt að nokkru leyti verið gert. Áðan var vísað til samstarfssamninga við bændur sem hafa gefið afskaplega góða raun og er sjálfsagt og æskilegt að halda áfram á þeirri braut. Það þarf líka að koma á mun skilvirkara eftirliti með landnýtingu en hingað til hefur verið viðhaft.

Enn er uppblástur víða um land og verður sjálfsagt um mörg ókomin ár. Því miður búum við í þannig landi að við þurfum stöðugt að vera á verði í þessu sambandi. Verkefnið er kannski endalaust vegna þess að það verða alltaf einhver þau áföll í náttúrunni, svo sem eldgos eða gríðarlegar hamfarir jökla sem auka jarðvegseyðingu.

Ofbeit er einnig mikið vandamál. Sérstaklega vil ég tiltaka ofbeit hrossa og tek þar undir orð hæstv. landbrh., sem hann lét falla áðan. Ég veit ekki hvað á þar að taka til bragðs. Lengi hefur verið talað um þetta en ég sé ekki annað en vandamálið fari alltaf vaxandi og jafnvel á viðkvæmum svæðum sem eru í hættu gangi hundruð útigangshrossa sem einhverjir telja sig eiga. Ég hef aldrei skilið hvers vegna haldið er við stofnum sem ég get ekki séð að gagnist nokkrum manni eða neinn hafi tekjur eða framfærslu af. Ég held að það verði að setja einhver lög í landinu sem takmarki þetta, taki mun fastar á þessum hrossamálum en hingað til hefur verið gert. (Gripið fram í: Er þetta villtur stofn?) Ja, það má segja að þetta séu villtir stofnar, gríðarstórir og kannski mun stærri nokkur maður gerir sér grein fyrir vegna þess að sjaldnast eru gefnar upp réttar tölur í þessu sambandi. Eigendur gera gjarnan lítið úr, segjast eiga nokkur hross í stóði. Hins vegar getur það hlaupið á hundruðum sem þarna er um að ræða.

Það hefur verið minnst á samning Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn eyðimerkurmyndun sem við erum aðilar að. Þetta verkefni snertir það auðvitað sérstaklega. Það hefur líka verið minnst á lög um náttúruvernd, skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum sem einnig snerta þetta mál. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég styð eindregið að þetta mál fari til athugunar og umsagnar umhvn. Auðvitað eru hér atriði sem varða sjálfbæra nýtingu, sem heyra undir umhvn. og löggjöf sem bæði hefur verið samin þar og íhuguð mjög gaumgæfilega. Þetta snertir og lög sem þar eru í vinnslu eða eru væntanleg til vinnslu. Ég tel mjög brýnt að þetta frv. fái meðferð hjá hv. umhvn.

Í athugasemdum með frv. er minnst á að það eigi uppruna sinn í niðurstöðum nefndastarfs sem var skilað til landbrh. 1999 og gefnar voru út undir heitinu ,,Í sátt við landið``. Þó er sagt að frv. hafi tekið nokkrum breytingum.

Í frv. er einkum gert ráð fyrir þeim breytingum að kveða skýrar á um verkaskiptingu en áður og það eigi að vera alveg ljóst samkvæmt frv. hver beri ábyrgð á landi. Þetta frv. hefur verið sagt leiða til skýrari stefnumótunar í landgræðslu og fela í sér úrræðaferli sem stuðli að sjálfbærri landnýtingu, sem er auðvitað hugtak sem á eftir að skilgreina betur og vonandi fáum við góða leiðsögn í því máli frá hv. umhvn.

Ég minni hins vegar á ákvæði til bráðabirgða með þessu frv., um að allir samningar sem Landgræðsla ríkisins og áður Sandgræðsla Íslands hafa gert haldi gildi sínu þó þessi lagabreyting verði. Ég tel að í raun sé það sjálfsagt mál. Einnig vil ég ítreka að ég tel mikilvægt að umhvn. fjalli um frv. jafnframt því sem hv. landbn. fjallar um það. Ég tel að ýmislegt eigi eftir að skýrast þegar nefndirnar fara dýpra í þetta mál.

Að lokum vil ég segja að ég tel að farsælla hefði verið að þessi lagasetning hefði beðið og hér sett samræmd löggjöf um landgræðslu þar sem skógræktin væri tekin með í reikninginn.