Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 16:10:14 (5765)

2002-03-07 16:10:14# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur um landgræðslu og skógrækt. Ég tel alveg hárrétt að þessar tvær stofnanir eigi að vera í einni stofnun og ef til vill verður það einhvern tímann.

En hvað varðar lúpínuna er það ekki aðeins á Mýrdalssandi sem hún hefur reynst vel heldur og í kringum Þorlákshöfn og alla Rangárvelli. Mig langar að geta þess að þegar Landgræðslan hóf starf í Gunnarsholti á sínum tíma var þar aðeins einn hektari af grónu landi. Landið var einn eyðisandur. Það eru miklar sögur um marga bæi á Rangárvöllum sem hopuðu undan sandinum. Á þeirri jörð sem ég bý á var mikil og hörð barátta við sandfokið. Það var svo slæmt að oft sást ekki til sólar dögum og vikum saman.

Ég fagna því mjög að í þessu frv. er fastsett að höfuðstöðvar Landgræðslunnar skuli verða í Gunnarsholti á Rangárvöllum og þeirri staðsetningu verði ekki breytt nema með lögum.

Ef við lítum hins vegar til þess hvað eru upprunalegar jurtir þá er það spurning sem við getum velt fyrir okkur. Hvaða jurtir voru hér þegar numið var land á Íslandi og hvaða jurtir hafa tapast? Eins er mjög gaman að fylgjast með því hvaða jurtir nema land í Surtsey, sem kom upp í gosinu 1963, en þar hafa æðimargar tegundir numið land síðan sú eyja myndaðist. (Gripið fram í.)