Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 16:13:56 (5767)

2002-03-07 16:13:56# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til nýrra laga um landgræðslu. Ég fagna því að frv. skuli koma fram. Það eru nýir og breyttir tímar og full ástæða til að leggja Landgræðslunni til ný lög, það er ljóst.

Það eru örfá atriði sem ég vil tiltaka sérstaklega varðandi frv. sjálft, einmitt varðandi þá nýju tíma sem blasa við okkur. Þjóðfélagið leggur sífellt meiri fjármuni til landgræðslu- og skógræktarmála. Ég vil leyfa mér að tengja þau mál saman. Þetta er sami málaflokkur að meginhluta.

Skógræktarmálin hafa þróast þannig að Skógrækt ríkisins hefur dregið saman framkvæmdir sínar. Það hafa orðið til landshlutabundin verkefni í skógrækt undir sjálfstæðum stjórnum. Þær eru nokkrar á landsvísu. Ég hefði viljað sjá lög sem hefðu náð yfir alla þessa starfsemi þannig að þeir fjármunir sem Alþingi samþykkir að veita til þessara málaflokka séu undir einni stjórn. Ég tel að með þeim hætti nýtist fjármunir betur og að meiri samhæfing náist meðal þess starfsfólks sem vinnur að þessum greinum. Þekkingaröflun yrði markvissari og rannsóknastarfið og framkvæmdirnar sömuleiðis.

[16:15]

Ég vil koma að 3. gr. frv. þar sem talað er um yfirstjórn landgræðslu. Auk þess að taka yfir skógrækt og landshlutabundnu verkefnin ætti a.m.k. að vera stjórn yfir þeirri landgræðslu og þeim lögum sem hér er getið um.

Það mun hafa verið niðurstaða þeirrar nefndar sem vann fyrstu drög að frv. um landgræðslu og var skipuð 1998 af þáv. landbrh., Guðmundi Bjarnasyni. Sú nefnd lagði til að það yrði stjórn yfir þessari stofnun. Það er skoðun mín að við eigum að halda okkur við það. Jafnframt kemur fram í 3. gr. að landgræðslustjóri skuli hafa háskólamenntun í landgræðslu. Maður getur spurt: Er það eðlilegt í lögum sem þessum, þegar um er að ræða stofnanir eins og Landgræðsluna, Skógrækt ríkisins og fleiri viðlíka stofnanir, að forstöðumenn þurfi endilega að hafa sérmenntun á því sviði sem viðkomandi stofnun vinnur á? Ég held að ekki sé ástæða til að binda slíkt í lögum. Það er til að mynda ekki gert í hinum opinbera geira. Mér er ekki kunnugt um að forstjóri Flugleiða sé flugmaður og nefna má ýmis dæmi úr þjóðfélaginu.

Ég heyrði og veit reyndar að skógræktarstjóri sænsku skógræktarinnar er lögfræðimenntaður og svo má lengi telja. Þó að menn vilji hafa það sem meginreglu að ráða í slíkar stöður eftir menntun, þá held ég að ekki sé rétt að hafa það bundið í lögum, menn eigi að hafa þar opið rými fyrir aðra sambærilega menntun, jafnvel viðskiptamenntun. Þarna er um að ræða mikið stjórnunarstarf og þess vegna þarf að leita inn á það svið.

Mikið hefur verið unnið, eins og ég sagði í upphafi, í þessum málaflokki og því ber að fagna. Hér hefur svolítið verið rætt um einstakar aðferðir í uppgræðslu og örlítið hefur verið rætt um lúpínuna. Ég ætla aðeins að koma inn á þau mál. Ég vil nefna að það var fyrrum skógræktarstjóri, Hákon heitinn Bjarnason, sem flutti Alaska-lúpínuna til landsins og hóf uppgræðslu víða á landinu. Sennilega hefur Haukadalurinn í Árnessýslu verið sá staður sem fyrst var ræktuð lúpína á og síðan í Þjórsárdal og svo hafa þeir sandar komið sem hér hafa verið nefndir áður. Þetta er undurfögur planta. Hún hefur þá eiginleika að hún fer í ógróið land sem er snautt og hún sest þar að, breiðir úr sér og framleiðir köfnunarefni. Hún framleiðir áburð fyrir þær jurtir sem á eftir koma. Þegar lúpínan hefur verið lengi í slíku landi hopar hún fyrir öðrum jurtum. Hvort sem um er að ræða gras eða skóg hörfar hún frá og er búin að gera sitt gagn. Þetta er stórmerkileg planta og við eigum að hlúa að henni eins og við mögulega getum. Þetta er ódýr kostur í landgræðslu, fyrir utan þann fallega bláa lit sem hún setur á þekjuna. Það er til bóta líka. Það eru fánalitirnir okkar sem koma þar fram og það er fallegt.

Taldar hafa verið upp fleiri tegundir eins og Alaska-öspin. Við þurfum ekkert að hræðast hana eða aðrar jurtir frá Alaska, sitkagreni eða hvað það nú er. Þetta eru allt saman tegundir sem hæfa vel okkar veðurfari og landi og við eigum að nýta þær okkur til hagsbóta.