Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 16:23:42 (5770)

2002-03-07 16:23:42# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hér í landinu nú þegar mjög yfirgripsmikla rannsókn um lúpínuna og hvernig hún dreifir sér. Það er Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem hefur gefið út rit þriggja vísindamanna sem heitir ,,Gróðurframvinda í lúpínubreiðum``. Þetta er fjölrit RALA nr. 207 og ég hvet hv. þm. til að kynna sér niðurstöður sem þar koma fram, en þar eru dregnar saman niðurstöður úr tólf ára rannsóknum sem staðfesta í meginatriðum má segja þau varnaðarorð sem hafa verið höfð uppi varðandi þessa duglegu jurt, lúpínuna. En ég ætla að vitna í þessa skýrslu. Það vill svo til að ég er með grein sem vitnar í hana. Það er grein eftir fyrrv. hv. þm. Hjörleif Guttormsson þar sem hann er að vitna í þetta rannsóknarit, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hún getur einnig numið land og breiðst yfir algróin svæði með lágvöxnum mólendisgróðri þar sem hún gerbreytir gróðurfari.``

Ég hvet til þess að í slíkri umræðu sé notuð varúðarnálgun og tekið mið af þeim rannsóknum sem við eigum nú þegar í landinu og stefnan sé mörkuð með tilliti til þeirra niðurstaðna sem vísindamenn okkar hafa komið af stað.