Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:04:44 (5776)

2002-03-07 17:04:44# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég var einmitt að leita eftir að það kæmi fram að við horfðum á þetta embætti með opnari huga en bara að þetta væri maður með háskólamenntun í landgræðslu.

Svo má líka segja að það gæti verið að einhverjir menn hafi aflað sér menntunar á þessu sviði og viðurkenningar þó að þeir hafi ekki endilega farið í háskóla. Til eru líka menntaðir skógfræðingar og má spyrja hvort þeir gætu ekki alveg eins passað í þetta. Eins og frv. kemur fyrir er nokkuð ljóst að landgræðslustjóri er meira embætti stjórnsýslu og umsýslu um allt land og ég á erfitt með að sjá fyrir mér að landgræðslustjóri muni sitja á sínum kontór og strika út í landakorti hvernig gróðurfar skuli vera á hinum og þessum stöðum. Það verða aðrir sem gera það og er það sjálfsagt svoleiðis í dag. (Gripið fram í.) Já, en ég held að það sé bara að sjá hvar plönturnar eigi að vera og svona. Ég er að segja að svo margt annað kemur inna á svið landgræðslustjórans. Ef það á svo að vera að landgræðslustjóri sé með þessa fagmenntun vaknar aftur spurningin um landgræðsluráð.

Að lokum vil ég taka fram að með orðum mínum hef ég alls ekki verið að kasta rýrð á núverandi landgræðslustjóra, alls ekki.