Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:10:31 (5778)

2002-03-07 17:10:31# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:10]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að frv. til laga um landgræðslu skuli vera lagt fram. Mikil samstaða er í landinu um landgræðslumál og endurheimt landgæða og það er mjög nauðsynlegt að til séu um þau heildarlög.

Tengslin við landbúnaðinn eru afar mikilvæg og samstarf við bændur. Nefnt hefur verið hér fyrr í dag samstarfsverkefnið ,,Bændur græða landið`` og ég tel að 9. gr. taki alveg á því máli.

Varðandi 3. gr. um yfirstjórn landgræðslumála þykir mér sjálfsagt að landbn. skoði hvort það sé ekki heldur þröngt að landgræðslustjóri skuli hafa háskólamenntun í landgræðslu og hvort ekki þurfi að líta á það betur.

Ég mundi vilja spyrja hæstv. landbrh. um nokkur atriði. Þau eru í 10., 11. og 12. gr. frv. Þar eru samningar um friðun lands. Þá spyr ég: Ef landeigandi fer fram á það við Landgræðsluna að hefja uppgræðslu á landinu, missir hann þá eignarrétt sinn á landinu? Í 10. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Landgræðslunni er heimilt að taka landsvæði til uppgræðslu, friðunar eða annarra landgræðsluframkvæmda þegar það samrýmist tilgangi laga þessara.``

Síðar í greininni segir:

,,Samningar um friðun lands skulu ávallt vera skriflegir og þeim skal þinglýst. Í samningunum, sem kveða á um umráð Landgræðslunnar yfir viðkomandi svæði, skulu tilgreind skilyrði fyrir því að fyrri umráðahafi fái landið afhent að nýju.``

Í 11. gr. stendur:

,,Afhending og sala landgræðslusvæða.

Þegar land sem Landgræðslan hefur umráð yfir er svo vel gróið að mati stofnunarinnar að eigi er ástæða til frekari aðgerða af hendi Landgræðslunnar er heimilt að afhenda landið til nytja.``

Svo er getið um skilyrði um meðferð og nýtingu sem mér finnst alveg sjálfsögð.

Svo kemur í 12. gr.:

,,Eigandi jarðar á forkaupsrétt að landgræðslusvæði sem selt er hafi það svæði verið hluti af viðkomandi jörð áður en Landgræðslan fékk umráð yfir svæðinu.``

Er það virkilega þannig --- ég get ekki lesið annað út úr þessum frv. --- að í raun sé verið að taka land eignarnámi með því að hefja á því landgræðslu? Ef svo er þá þykir mér það ekki nógu gott.

Svo hef ég miklar efasemdir um IV. kaflann, Ýmis ákvæði, þ.e. hvað varðar dagsektir. Ég undrast dálítið hversu mikið er orðið um dagsektir, fangelsisvist og annað þess háttar í lagasmíði ef menn uppfylla ekki ákvæði í lögum. Það er spurning hvort þetta eigi ekki frekar að vera í almennum hegningarlögum en sérstökum lögum eins og um landgræðslu.

Í 26. gr. segir:

,,Landgræðslunni er heimilt að beita dagsektum í því skyni að knýja umráðahafa lands til að gera ráðstafanir sem honum ber skylda til að mati Landgræðslunnar samkvæmt lögum þessum eða til að láta af atferli sem Landgræðslan telur andstætt lögunum. Dagsektir geta numið frá 5.000--25.000 kr. á dag. Dagsektir samkvæmt þessari grein má innheimta með aðför, sbr. lög um aðför, nr. 90/1989, án undangengins dóms eða sáttar. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.``

27. gr. er um eignarnám:

,,Landgræðslunni er heimilt að taka land eignarnámi ef stofnunin álítur það nauðsynlegt með hliðsjón af tilgangi laga þessara. Um framkvæmd eignarnámsins fer eftir lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.``

Ég hefði aðeins viljað fá viðbrögð frá hæstv. ráðherra um þessar greinar.

Að lokum vil ég lýsa ánægju minni með framlagningu þessa frv. Eins og ég sagði áðan tel ég mjög nauðsynlegt að til séu góð heildarlög um landgræðslu. Ég er mjög ánægð með að nú er það fastsett í lögum að höfuðstöðvar Landgræðslunnar skuli vera í Gunnarsholti á Rangárvöllum þar sem hún hefur haft starfsemi sína í nokkra áratugi.