Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:15:52 (5779)

2002-03-07 17:15:52# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um hið mikilvæga frv. sem hér er lagt fram til meðferðar þingsins. Auðvitað hafa ýmis atriði og athugasemdir komið upp í umræðunni. Mig langar að minnast á nokkur atriði.

Hv. þm. hafa velt dálítið fyrir sér stjórn yfir Landgræðslunni og menntun landgræðslustjórans. Ég er þeirrar skoðunar, og tek undir með Sigurði Þórðarsyni ríkisendurskoðanda og um leið með fyrrv. landbrh. sem hér talaði, Steingrími J. Sigfússyni, að yfir fyrirtæki eins og Landgræðslunni ætti ekki að vera stjórn. Sigurður Þórðarson fór rækilega yfir það í dag að ábyrgðin ætti að vera hjá stofnuninni og í ráðuneytinu og óljóst væri um hvað stjórn gerði í slíkum fyrirtækjum. Þetta á kannski við um Landgræðsluna, Skógræktina og Vegagerðina. Í sjálfu sér þarf ég ekki að bæta neinu við það. Ég tel þetta eðlilega stjórnsýsluhætti miðað við daginn í dag og fannst sem Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi staðfesti það í hádeginu.

Síðan er það spurningin um menntun landgræðslustjórans. Það kann vel að vera að það eigi að vera víðtækara hugtak. Ég tek líka undir með Steingrími J. Sigfússyni varðandi það að menntun á þessu sviði sé nauðsynleg þó hún gæti verið víðtækari. Maður sem engan skilning hefði á þessum málum, væri t.d. bissnissmaður og harður karl, valinn til að reka svona fyrirtæki, hefði heldur engan skilning á aðalhlutverki þessa mikilvæga fyrirtækis í landinu. Hann gæti skaðað starfsemi þess. Ég held að maður með þessa menntun sé miklu líklegri til að leiða það áfram í farsæld og friði. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að setja inn ákvæði um einhvers konar menntun á þessu sviði þó að vel megi, nefndin auðvitað skoðar það, orða það víðtækar. Það kann vel að vera.

Síðan hafa menn minnst á sameiningu við skógrækt og skógræktarverkefni. Auðvitað er það eitthvað sem menn verða að meta. Þessar gömlu góðu stofnanir okkar og fyrirtæki, Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins, eiga sér marga góða talsmenn í landinu og eru heilög fyrirtæki í hugum margra. Mönnum finnst að þessi fyrirtæki hafi staðið sig vel og eigi þess vegna að fá að vinna áfram sem nokkurs konar systkin í samfélagi samtímans, vinna mikið saman. En það er auðvitað mat þingsins hvernig það vill sjá þetta fyrir sér.

Auðvitað er það svo í þessu, eins og svo mörgu öðru, að menn vinna sams konar verkefni. Menn eru að vinna að gæðum og endurheimt landsins, að sá til trés eða grasfræi. Þetta eru sams konar verkefni og sams konar vísindamenn og ráðgjafar sem koma að þessu á öllum sviðum. Menn þurfa því að meta hvort þessar stofnanir eigi að vera svona áfram. Ég hef sjálfur ekki viljað leggja út í neinn hanaslag um það atriði heldur varðveita farsæl störf þessara fyrirtækja áfram með þessum hætti um hríð alla vega, í hvoru fyrirtækinu um sig.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon telur að hér skorti tengingu við landbúnaðinn og að þáttur bænda þurfi að vera betur tilgreindur. Í sjálfu sér tel ég að þetta sé fullnægjandi í frv. Ég bið þó hv. landbn. að fara yfir það atriði. Hins vegar finnt mér að starfsemi Landgræðslunnar nú um langa hríð sanna að hún vinnur gríðarlega mikið með bændum. Ætli það séu ekki um 550 bændur, verktakar í samstarfi við Landgræðsluna sem taka þátt í ,,Bændur græða landið``. Landgræðslan hefur haft það fyrir reglu að fela fleiri og fleiri bændum stór verkefni fyrir sig og gera þá að vaktmönnum í náttúru landsins. Fyrir því hefur vel verið séð í störfum Landgræðslunnar fram að þessu og betur og betur með hverju árinu að mér finnst. Hins vegar er sjálfsagt að fara yfir hvort slíkt vanti inn í þetta frv.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir ræðir um og gagnrýnir dagsektir. Ég held að þingheimur og þjóðin séu nokkuð sammála um að tæki verði að hafa til að taka á þeim sem níða land og fara illa með dýr. Næmasta líffæri mannsins er stundum sagt að sé veskið hans. Það er stundum eins og menn skilji ekki fyrr en þeir verða að borga fyrir afglöp sín. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að hægt sé að fylgja eftir, og ekki bara hlegið framan í menn, og heimilt að sekta menn með einhverjum hætti ef þeir brjóta lög landsins. Mér finnst það mjög heiðarlegt að það sjáist í þessum lögum --- þeir munu auðvitað skoða þessi lög sem fást við náttúruna o.s.frv. --- að löggjafinn geri ráð fyrir að sá sem brýtur þessi lög geti búist við að þurfa að borga fyrir mistök sín. Til að herða hann í að komast ekki upp með slíkt gagnast þessar sektir og geta verið dagsektir. Það væri óráð að taka þann kafla út úr þessu frv.

Mér fannst greinarnar sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir minntist á skýra sig nokkuð vel þegar menn lesa skilgreiningar á þeim, þ.e. á 9.--12. gr. Landgræðslan ætlar ekki að hirða eða stela af mönnum landi. En það getur vel verið að Landgræðslan, vinni hún fyrir einstaklinga, vilji fá umbun fyrir þau störf sín. Eða finnst mönnum það óeðlilegt? Segjum að ég væri bóndi og ætti land sem búið væri að níðast á og eyðileggja og Landgræðslan segði: Ég skal taka landið að mér í tíu ár og mundi skapa þar gríðarlegan gróður sem yrðu tekjur fyrir mig. Ætti ég ekki að borga eitthvað fyrir þann árangur þegar frá liði? Enda segir í 11. gr. að þegar landgræðslu er lokið af hálfu Landgræðslunnar sé almennt ekki ástæða til að stofnunin hafi lengur umráð yfir landgræðslusvæðinu.

Í greininni er heimilað að afhenda slík svæði til nytja, t.d. með leigu eða sölu. Tekið er fram að í þess konar samningum skuli ávallt kveðið á um endurgjald, leigu, uppsetningu og viðhald girðinga, meðferð og nýtingu lands. Þetta er m.a. nauðsynlegt til að unnt sé að rifta leigusamningi ef leigutakinn spillir landinu með ofnýtingu og illri meðferð. Þinglýsa skal samningum um afhendingu lands.

Til að fyrirbyggja að gróðri taki aftur að hnigna á því landsvæði sem Landgræðslan hefur haft umráð yfir en selur er heimilt að ráðstafa landinu með kvöðum um meðferð þess eða nýtingu. Landgræðslan skal mæla fyrir um slíkar kvaðir. Að sjálfsögðu skulu þær samrýmast tilgangi laganna.

Í ágætum ræðum hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur var síðan komið inn á alls konar sáttmála sem við höfum undirritað og umhvrn. kemur að að litlum hluta. Landgræðslan er auðvitað landbúnaðarmál þó að það sé viðurkennt að umhvrn. heldur þar um ákveðinn þátt. Ég mun ekki leggjast gegn því að landbn. sendi málin umhvn. og umhvn. fjalli um þann þátt sem snýr að henni. Það er bara þingsins að meta það o.s.frv.

Ég hef farið yfir þá kafla sem hér hefur verið minnst á. Ég get tekið undir þá hugsun sem komið hefur fram hjá mönnum að þeir þurfi að skilgreina hvernig þeir ætli að nýta þetta land og til hvers menn ætlast. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að endurheimta landgæði. Við eigum að fara mjög varlega með innfluttar plöntur í náttúru Íslands. Menn hafa minnst á lúpínuna og ég tek undir að er ekki sama hvar hún er nýtt. Ég vil ekki sjá hana inni á öræfum þegar ég er þar á ferð. Sumir hafa farið mjög óvarlega með þessa jurt og jafnvel trúað of heitt á hana að mínu mati. En hún hentar, eins og hefur verið rakið, við ákveðnar aðstæður.

Eins er mjög mikilvægt í endurheimt skóga að við gætum þess að þeim verði plantað þar sem það á við, að menn taki ekki dýrmætt gróðurlendi, akra og tún og noti frekar land sem hentar. Oft henta rýrir melar vel undir skóga og eru fallegir lundir í hlíðum. En þetta þarf allt saman að skipuleggja vel og fara varlega með náttúru þessa lands.

Menn vitna nú í ummæli mín um trén og hafa sjálfsagt í huga þjóðsöguna úr áramótaskaupinu og trúa því orðið að ég hafi sagt þetta sjálfur en auðvitað var það eftirherman góða sem sagði að þar sem fleiri en tvö tré komi saman, þar sé skógur. Ég hef aldrei sagt þessa setningu.

Hins vegar gladdi það hjarta mitt að hitta Kínverja sem voru gestir mínir á dögunum og heimsóttu mig hér. Kínverjarnir komu komu til að kynna sér skógræktarmálefni. Ég borðaði með þeim í einu hádegi, þeim ágætu mönnum. Ég vildi auðvitað fræðast um skóga og ég spurði: Getið þið sagt mér hvernig er tré á kínversku? Þeir sögðu: Það er su. Þá vildi ég fræðast áfram og spurði: Hvað er þá skógur? En skógur er þrjú su. Su, su, su. Þetta gladdi mitt hjarta.

Ég vil segja, af því að menn hafa rætt aðeins um náttúruna og fegrun hennar og hvernig menn fara með beitina, að sem betur fer eru menn ekki að ofbeita sauðfé mikið í þessu landi. Einstaka maður kann ekki að fara með hrossin og hefur of mikið af hrossum sem eru mjög landfrek. Ég sé það núna í gegnum hina bestu hrossabændur að þeir sem hafa undirgengist gæðastýringu á jörðum sínum og farið í samráð og samstarf við Landgræðsluna hafa náð gríðarlegum árangri á stuttum tíma.

Auðvitað þurfa bændur að átta sig á því að Landgræðslan, búnaðarsamböndin og ráðunautarnir þekkja vel til á þessu sviði. Þess vegna eiga menn að ganga til samstarfs við þessa aðila. Ég sá t.d. í Noregi, þar sem er afar fallega umgengið land, að þar eru bændurnir svo metnaðargjarnir t.d. í umhirðu býla sinna eða búanna að varla sést dráttarvél úti við eða drasl. Það er kannski inni í skógi, ég veit ekkert um það. En ég spurði hvernig þeir færu að þessu. Þeir sögðu: Ef einn maður ekki stendur sig hér þá leggjum við hann í einelti. Norskur landbúnaður hefur ekki efni á að líða illa umgenginn búgarð.

Íslenskur landbúnaður og íslensk náttúra hefur heldur ekki efni á slæmri umgengni. Þess vegna er gæðastýring á öllum sviðum landbúnaðarins mjög mikilvæg. Víða er skilningur á því mikill í sveitum þessa lands. Slíkur metnaður er að skila landbúnaðinum til nýrra tíma og í gegnum þetta ná bændurnir betra samstarfi og skilningi þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Ég hef minnst á einhver þau atriði sem þingmenn hafa komið inn á og vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu. Ég treysti hv. landbn. til að taka þetta mál í sínar hendur og fjalla um það í þinginu. Vonandi sjáum við ný landgræðslulög í vor.