Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:31:01 (5780)

2002-03-07 17:31:01# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hæstv. landbrh. hafi e.t.v. misskilið spurningu mína. Hún gengur eiginlega út á jörð sem liggur við sandfoki en er ekki ofbeitt. Það var aðallega það sem ég hafði í huga. Það getur orðið einum bónda eða landeiganda ofviða að kosta uppgræðslu á landi þegar það er þó öllum til hagsbóta að sé grætt upp. Ef landnytjar liggja kannski við því að verða fyrir skaða, þá er það spurning mín, því mér finnst það ekki koma skýrt fram í frv., hvort bændur verði að kaupa landið til baka eftir uppgræðsluna og séu þá í rauninni búnir að missa eignarrétt sinn á landinu. Víða háttar þannig til á Suðurlandi að land er mjög illa farið, ekki af ofbeit heldur af ágangi sands og eldgosa, og sú saga á sér langan tíma, alveg frá því um 1700, að land fór eð eyðast, kannski fyrst af ofbeit en síðan meira og minna af eldgosum og sandfoki. Það þarf í rauninni ekki nema eitt ofsarok til þess að tæta upp landið. Það horfðum við á í miklu ofsaroki sem gerðist í febrúar upp úr 1990 þar sem heilu flygsurnar af jarðvegstorfum fuku í burtu.