Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:32:53 (5781)

2002-03-07 17:32:53# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, kannski hef ég misskilið hv. þm. að hluta til. Ég er henni alveg hjartanlega sammála. Það hlýtur að vera skýrt og á að vera skýrt að Landgræðslan geti gert samninga við landeigendur um aðgerðir á landi þeirra og það er þess vegna þjóðfélagsins alveg eins og Landgræðslunnar sem fær heimild í lögum til að skipta sér af öllum eignum manna sem snúa að landi. Ég hef álitið að það væri alveg skýrt og óhjákvæmilegt í mörgum tilfellum þar sem gróðureyðing á sér stað og jörðin er einkaland að Landgræðslan geti þar komið til, auðvitað í samstarfi við eigandann.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er formaður landbn. og mun fara yfir þessi atriði. Við þekkjum það á Suðurlandi og víðar að eldgosin og hinn harði tími margra alda olli því að hér gerðust þau tíðindi að landið er grátt leikið, ekki síst á eldgosasvæðunum. Þetta verður auðvitað að vera alveg skýrt eins og mér finnst það vera. Landgræðslan er þjónustustofnun þjóðfélagsins, hún er þjónustustofnun við eigendur lands og ber að vera það.