Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:34:57 (5783)

2002-03-07 17:34:57# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hæstv. landbrh. fyrir það að hann skuli hafa tekið svo vel í þá hugmynd mína að gróður- og jarðvegsverndarþáttur þessa máls fari til skoðunar í umhvn. Ég tel það mjög mikilvægt og tel það mikils virði að hæstv. ráðherra skuli hafa tekið undir það með þeim hætti sem hann gerði í ræðu sinni og óska þá eftir því hér um leið formlega við hæstv. forseta að það verði séð svo til að hv. landbn. óski umsagnar umhvn. um gróður- og jarðvegsverndarþáttinn því að auðvitað verður að segja sem svo að það er verndarþátturinn sem fyrst og fremst er sá þáttur sem skarast við störf umhvrn. og það eru kannski hin sértækari mál er varða beit og aðra landnýtingu sem eðli málsins samkvæmt eru þá á forræði landbn. og hæstv. landbrh.

Ég vil að fram komi varðandi stjórnarumræðuna sem hér fór fram áðan að ég mælti aldrei með því að sett yrði stjórn yfir stofnunina, en var í andsvari við hv. þm. Kjartan Ólafsson að ræða um þá tilhneigingu ríkisstjórnarinnar að leggja niður stjórnir stofnana. Ég er algerlega sátt við að Landgræðslan skuli ekki þurfa að búa við einhvers konar stjórn, en hæstv. ráðherra svaraði engu varðandi þær hugmyndir sem komu í framhaldinu um mögulegt fagráð sem ég held að sé hugsun sem hægt sé að skenkja öllum til sátta.