Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:37:54 (5785)

2002-03-07 17:37:54# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Gott og vel. Ég andmæli ekki þeirri skoðun hæstv. ráðherra í sjálfu sér, en það er mjög vandmeðfarið að hafa ráð sem eiga að vera stjórnendum stofnunarinnar til halds og trausts. En það gleður mig þó að heyra hæstv. ráðherra segja að eðlilegt sé að vel sé staðið að sambandi og tengslum Alþingis og þessara stofnana. Í því sambandi vil ég einungis nefna, svo ég hafi sagt það, að það er sjálfsagt mál að nefndir Alþingis fylgist grannt og reglulega með störfum þeirra stofnana sem undir þær heyra og það er ágæt brýning til okkar alþingismanna að sjá til þess að sá farvegur sé einlægt opinn og verið sé að stunda skapandi samstarf á sviði þeirra málaflokka sem viðkomandi nefnd á að starfa á.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að hv. þm. skal ávallt víkja ræðu sinni til forseta.)