Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:41:12 (5787)

2002-03-07 17:41:12# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um landgræðslu\-áætlun 2003--2014. Með áætluninni er verið að skapa umgjörð um þá þjónustu sem Landgræðsla ríkisins fyrir hönd landbrn. veitir landinu og þegnum þess fyrir almannafé.

Landgræðsla ríkisins hefur unnið árangursríkt landgræðslustarf í nær heila öld. En verkefnið við varðveislu þeirra auðlinda sem felast í gróðri og jarðvegi er það risavaxið að enn á sér stað mikið jarðvegsrof auk þess sem ástand gróðurs er víða í ósamræmi við möguleg gróðurskilyrði. Markmið þessarar landgræðsluáætlunar eru fjölþætt. Henni er ætlað að herða sóknina gegn eyðingu gróðurs og jarðvegs og jafnframt að styrkja byggðir og bæta landkosti með hag allrar þjóðarinnar að leiðarljósi.

Landgræðsluáætlunin mótar ramma um landbætur og verndun landkosta til ársins 2014. Hún markar áherslur í stöðvun jarðvegseyðingar og uppgræðslu ásamt öðrum nauðsynlegum verkefnum, svo sem eftirliti með ástandi gróðurs og jarðvegs, stjórn landnýtingar, fræðslu, ráðgjöf, rannsóknum og upplýsingamiðlun. Þessari tólf ára áætlun er skipt í þrjá áfanga og er gert ráð fyrir að hún verði endurskoðuð fyrir árslok 2005.

Meginmarkmið landgræðslustarfsins eru í aðalatriðum þessi:

1. Að stöðva hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðingu og fyrirbyggja frekari eyðingu og landspjöll.

2. Að byggja upp gróður og jarðveg í samræmi við gróðurskilyrði og landnýtingarþörf.

3. Að stuðla að því að öll landnýting verði sjálfbær.

Þessum verkefnum fylgir mikil binding kolefnis í gróðri og jarðvegi og því mun landgræðsluáætlunin hafa mikil áhrif til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi.

Til að ná þessum markmiðum er mikilvægt að auka þekkingu vegna þeirra verkefna sem fram undan eru og leita hagkvæmustu leiða við lausn þeirra. Enn fremur þarf að auka fræðslu og ráðgjöf til bænda og almennings um landgræðslustarfið til að efla verkþekkingu þeirra á leiðum til að bæta land og skilning á verndun landkosta og sjálfbærri landnýtingu. Þá þarf að auka þátttöku landnotenda og almennings í landgræðslustarfinu og sjá til þess að allir notendur og eigendur lands axli ábyrgð á meðferð gróðurs og jarðvegs.

Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að auka fjárveitingar til landgræðslu verulega frá því sem verið hefur. Forgangsröðun verkefna í landgræðsluáætluninni byggist m.a. á rannsóknum og kortlagningu á jarðvegsrofi og gróðri á landinu öllu og markmiðum um vistfræðilega, sjálfbæra landnýtingu. Gróðurskilyrði versna yfirleitt eftir því sem land hækkar og kostnaður við landgræðslu eykst að sama skapi. Því er gert ráð fyrir að landgræðsluverkefni til 2014 verði að mestu á láglendi og ekki er gert ráð fyrir uppgræðsluverkefnum ofan við 500 m hæð nema þar sem jarðvegsrof ógnar mannvirkjum eða náttúruminjum. Megináhersla verður lögð á eftirfarandi:

1. Stöðvun hraðfara jarðvegseyðingar, einkum þar sem rof er í grónu landi og þar sem sandur getur borist að byggð eða öðrum mannvirkjum.

[17:45]

2. Gróðurvernd og stjórn landnýtingar. Gerðar verði gróður- og jarðvegsverndaráætlanir fyrir verst förnu afréttina og unnið með bændum og sveitarstjórnum um framkvæmd þeirra. Einnig verður unnið að því að koma í veg fyrir ofnýtingu lands og stefnt að því að öll landnýting verði vistfræðilega sjálfbær.

3. Uppgræðslu lands. Meðal annars verði stuðlað að auknu frumkvæði og þátttöku heimamanna og stofnaður sérstakur sjóður, Landbótasjóður, í þessu skyni og samstarfsverkefnið Bændur græða landið verði eflt enn frekar. Samstarf við skógræktaraðila verður aukið þar eð víða þarf að undirbúa land til skógræktar með uppgræðslu.

4. Varnir gegn landbroti vegna ágangs fallvatna. Gerð verði heildarúttekt á þörfinni og verkefnum forgangsraðað.

5. Upplýsingaöflun. Haldið verði áfram kortlagningu landgræðslusvæða og uppbyggingu landupplýsingakerfis. Áhersla er lögð á náið samráð við aðra aðila sem vinna að sömu upplýsingaöflun sem komið getur að notum í landgræðslustarfinu.

6. Rannsóknir og þróun til að auka hagkvæmni og bæta árangur í landgræðslustarfinu. Stefnt er að því að fjölga úrræðum við landbætur, m.a. með aukinni notkun innlendra tegunda. Rannsókna- og þróunarstarf sem unnið verður að samkvæmt landgræðsluáætluninni tengist landgræðslustarfinu beint. Áhersla er lögð á náið samstarf við aðra rannsóknaraðila til að tryggja sem best þekkingu á undirstöðu landgræðslustarfsins.

7. Fræðslu og ráðgjöf. Unnið verður áfram að fræðslu um landgræðslustarfið og landnýtingu í sátt við landið svo og aukinni ráðgjöf fyrir bændur, hestamenn og aðra umsjónarmenn lands.

Sérstakur ávinningur við áætlunina er sú mikla binding kolefnis sem fylgir þessu nýja sóknarfæri í landbótum með landgræðslu. Hún er nauðsynleg fyrir verndun loftslags og hagkvæm leið til að mæta hluta af skuldbindingum Íslands vegna Kyoto-bókunarinnar. Hér á landi eru óvenjulega góðar aðstæður til að binda kolefni og árangur af átaksverkefni ríkisstjórnarinnar í bindingu koltvísýrings með landgræðslu og skógrækt var mjög góður. Það markmið, að auka árlega bindingu um 100 þúsund tonn af koltvísýringi, liðlega 27 þúsund tonn af kolefni, umfram það sem var árið 1990, náðist eins og stefnt var að. Þar af náðist að binda 17.500 tonn af koltvísýringi á nýjum landgræðslusvæðum sem er mun meira en vænst var. Þrátt fyrir að átaksverkefninu sé formlega lokið er lögð rík áhersla á að halda áfram aðgerðum til að auka bindingu kolefnis. Binding kolefnis í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og öðrum landbótum eykur frjósemi landsins til lengri tíma litið og styrkir búsetuskilyrði þjóðarinnar. Vegna alþjóðlegra skila í niðurstöðum er mikilvægt að halda gott bókhald um kolefnisbindingu og verður stuðlað að því.

Hæstv. forseti. Landgræðslustarfið er mjög fjölþætt og hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Fjölmörg verkefni hafa verið færð til bænda og annarra verktaka og verður stuðlað enn frekar að því að landgræðslustarfið veiti aukna atvinnu í sveitum landsins. Frá árinu 1907 hefur Landgræðsla ríkisins girt af alls um 160 svæði. Um 65 uppgrædd svæði hafa verið afhent eigendum á nýjan leik. Nú eru um 304.000 ha innan landgræðslugirðinga. Þá hafa fyrirhleðslur á undanförnum árum og áratugum ekki aðeins bjargað hundruðum eða jafnvel þúsundum hektara gróins lands heldur hafa einnig gróið upp þúsundir hektara af gróðurvana landi í skjóli þeirra varnargarða sem gerðir hafa verið, t.d. í Austur-Skaftafells- og Rangárvallasýslu.

Landgræðsluáætlun þessi byggir á því að græða og fegra ásýnd byggða og endurheimta frjósemi landsins. Sérstök áhersla er lögð á að efla sókn gegn hraðfara jarðvegseyðingu. Jarðvegur er hér óvenjuviðkvæmur vegna eldvirkninnar og náttúruöflin máttug eins og hv. þm. þekkja. Miklu skiptir því að byggja upp gróður sem veitir varanlega vörn gegn eyðingaröflunum.

Þá er einnig lögð áhersla á að virkja þjóðina til dáða í verndun landkosta og til landbóta og stytta boðleiðir milli stjórnvalda og almennings. Héraðssetrum Landgræðslunnar verður fjölgað og samstarf aukið við landnotendur. Reynt verður að tryggja að landnýting verði alls staðar vistfræðilega sjálfbær og stuðningur við alhliða landbætur efldur. Mjög góð reynsla hefur verið af slíku samstarfi, svo sem í verkefninu Bændur græða landið, en þar taka um 600 bændur þátt í að bæta jarðir sínar í góðu samstarfi við Landgræðsluna. Já, þeir eru fleiri en ég gat um í andsvari áðan þar sem ég talaði um 550. Þetta eru um 600 bændur. Áætlunin miðar að betri stjórn beitar í sátt við landið og gefur bændum aukið hlutverk í landbótum og sem vörslumenn landsins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. landbn.