Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 18:07:06 (5792)

2002-03-07 18:07:06# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér fjöllum við um till. til þál. um landgræðsluáætlun til ársins 2014 frá árinu 2003. Í þessari tillögu kennir margra grasa og í upplýsandi grg. með henni. Markmið koma þar einnig fram sem eru háleit og góð að mínu viti. Bæði koma þau úr okkar eigin ranni en einnig vegna alþjóðlegra sáttmála, m.a. er sáttmáli um varnir gegn myndun eyðimarka sem samþykktur var 1994 en tók að vísu ekki gildi á Íslandi fyrr en 1997. Þá er einnig rammasamningur um loftslagsbreytingar sem á að stuðla að því að halda styrk gróðurhúsalofttegunda innan hættumarka. Þá er einnig sáttmáli um líffræðilega fjölbreytni sem samþykktur var 1992 en tók gildi hér á landi 1994.

Í markmiðunum er talað um að hér þurfi fyrst að stöðva hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðingu og fyrirbyggja frekari eyðingu og landspjöll. Einnig er talað um að byggja upp gróður og jarðveg í samræmi við gróðurskilyrði og landnýtingarþörf og að öll landnýting verði sjálfbær.

Mörg eru markmiðin og háleit og góð eins og kemur fram hér. Í almennan rekstur er talað um að fari 615 millj. kr. á næstu þremur árum og í uppgræðsluverkefni 995 millj. En ég vil taka undir það sem fram hefur komið um verkefnið ,,Bændur græða landið``, miðað við allan þann fjölda sem tekur þátt í því er fjárhæðin heldur lág, og er ég ánægður með að heyra góðar undirtektir hæstv. landbrh. þegar hann tók í andsvörum tillit til þess sem nefnt var um það í umræðunni.

Þá má einnig spyrja um Landbótasjóðinn. Miðað við verkefni sem blasa við eru fjárhæðirnar frekar lágar. Spurningar vakna um hvort landbrh. sé í raun og veru ánægður með það fjármagn sem ætlað er til þeirra stórkostlegu verkefna sem gert er ráð fyrir að verði unnin. Við verðum að gæta okkur á því að ætla okkur ekki um of fyrir of litla peninga, að við reiknum ekki með því að við getum gert gífurlega mikið og sjáum í hillingum svarta sanda verða græna en þegar til á að taka segja menn allt í einu að ekki séu nægir peningar til verkefnanna. Ég vona að hæstv. ráðherra sé sannfærður um það og trúi því einlæglega að þessar fjárhæðir dugi. Samt gaf hann í skyn að framlögin í ,,Bændur græða landið`` mætti hækka, og ég spyr um Landbótasjóðinn, hvort ekki sé fulllítill peningur í hann settur, t.d. 5 millj. 2003. Í þessu sambandi vakna líka spurningar um varnir gegn landbroti --- þær hljóta að vera í landbótunum líka --- og hvort ekki sé gert ráð fyrir vörnum gegn landbroti sem eru ekki einungis af völdum fljóta, áa og vatna heldur líka sjávarins. Vissulega væri fróðlegt að heyra um það frá hæstv. landbrh., herra forseti, hvað Landgræðslan sér í framtíðinni um landbætur á sjávarjörðum því að þess eru dæmi að sjór gangi á jarðirnar til ógnunar þar sem gróður er. En þetta fer til umfjöllunar hv. landbn. og er ég viss um að þar verður fjallað mikið um þessi mál því að þau varða alla þjóðina, hvernig gróðurfar landsins er. Það er nauðsynlegt að við stöndum okkur vel í því að hindra að landið fjúki upp, ofbeit sé mikil og ágangur. Í þessu sambandi má t.d. tala um að við væntum aukningar í komum ferðafólks hingað á næstu árum. Þetta eru allt atriði sem skipta miklu máli í viðkvæmu gróðurríki Íslands, sérstaklega uppi á hálendinu og í efri stöðum, ekki síst þegar menn fara um landið á stórvirkum bílum og hugsa ekki af nægjanlega mikilli virðingu um landið.

Ég hlakka til, herra forseti, að taka þátt í umræðum um till. til þál. um landgræðsluáætlun. Ég vona að markmið hennar gangi eftir og jafnvel meira en það því að þau eru háleit og ekki veitir af að setja þau.

Síðan lýsi ég yfir ánægju minni að lokum, herra forseti, með að Landgræðslan auki fræðslu og miðli þekkingu til almennings. Mættu skólarnir jafnvel koma meira inn í með sérstök verkefni.