Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 18:15:10 (5793)

2002-03-07 18:15:10# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. um að skólarnir komi inn í þau verkefni, þá rifjast það upp fyrir mér sem ég hef oft hugsað um í svefni og vöku að það er kannski eitt sem hvern Íslending dreymir um í dag, ekki síst ungan, að komast í meiri snertingu við náttúru landsins. Aðstæður hafa mjög breyst frá fyrri tíð því þá fóru börn þéttbýlisbúa gjarnan og dvöldu í sveit. Nú hafa í rauninni slík tengsl því miður verið rofin og eru breyttir tímar sem ég harma að mörgu leyti þó að borgin leggi nú rækt sína við Húsdýragarðinn sem er mjög myndarlegt fyrirtæki og fjölskyldurnar í höfuðborginni sækja dag hvern og um helgar og njóta samvista þar við að fylgjast með búskap og dýrum. En þá er það sem hv. þm. minntist á kannski umhugsunarefni fyrir Alþingi Íslendinga: Hvernig mótar það stefnu til að tryggja sem flestum Íslendingum það að hafa einhvern tímann starfað í náttúru landsins, farið nánast í nokkurs konar hernað til þess að kynnast náttúrunni og vinna þar einhvern smáhluta úr ævi sinni, fara í sveit, róa til fiskjar, stunda skógrækt eða landgræðslu eða landvörslu? Þetta væru verðug verkefni til að móta og koma til framkvæmda með einhverjum hætti því að ég er sannfærður um að margur mundi græða á þessu og hjálpa mörgum.

Til mín kom ágætur maður á dögunum sem ræddi það við mig í fullri alvöru að í okkar eftirsóttu náttúru gæti það meira að segja styrkt ferðaþjónustu í veröld sem núna hefur breyst, ekki síst eftir 11. september, því depurð og áhyggjur sækja að ungmennum margra þjóða. Ekki að það sé óregla, vímuefni eða vín heldur einhver óhamingja. Víða er staðan sú að fólk, foreldrar, hjón eiga bara eitt barn og kannski er barnið leitt á foreldrum sínum og foreldrarnir á barninu og hjónin hvort á öðru. En það gæti verið verðugt verkefni að fara í samstarf við skóla, þess vegna erlendis, um að hingað kæmi fólk sem íslensk ferðaþjónusta tæki þátt í að efla samstarf við, t.d. erlenda skóla, um að fá hingað fólk sem kæmi í slík verkefni að kynnast þessu undarlega landi okkar og dvelja hér um hríð. Það er margt sem hægt er að gera þegar maður hugsar til þess, t.d. að efla hér atvinnu og þarf margt að gera til að ræktun lýðs og lands sé með þeim hætti sem hún þarf að vera.

Hin gamla, stóra hugsjón ungmennafélaganna, ræktun lýðs og lands, á enn fullt erindi og ég finn það á ræðum hv. þingmanna að þannig er það enn að þingið er meðvitað um þetta stóra hlutverk sitt.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gagnrýndi í dag þá fallegu tillögu sem ég tala fyrir og sagði að hún væri ekki ,,smart``. En það rifjar upp fyrir manni að það er svo óskaplega misjafnt hvað fólki finnst smart. Það sem einum finnst smart finnst öðrum ekki. Mér finnst tillagan dálítið smart. Og þegar ég fletti henni finnst mér --- ja, það má kannski segja sem menn hafa velt hér fyrir sér: þarf meira fjármagn til þess að ná árangri? Aðalatriðið er kannski að fara vel með það fjármagn og ná árangri með það fjármagn sem við höfum. En mér finnst að hér sé verið að setja fram dálítið smart þingsályktunartillögu sem lýsir langt fram á veginn, sem keyrir á háum ljósum langt fram á veginn, en beitir síðan lágu ljósunum á brýnustu verkefni fram undan. Það er vissulega gert með aðgerðaráætlunum í öllum landsfjórðungum þegar maður flettir tillögunni. Ekki það að ég ætli að fara í háværar deilur um þetta. Það er svo misjafnt hvað fólki finnst. Það sem einum finnst gott finnst öðrum vont og það verður bara að sæta því. En alltaf má betur gera og sjálfsagt hefði þessi þáltill. getað litið þess vegna enn betur út og verið hægt að leggja í hana meiri vinnu, en þingið tekur við henni og gerir hana kannski enn þá ,,smartari`` þannig að ég verð að binda vonir við það.

Hv. þm. minntist hér á þann ágæta mann Ólaf Arnalds, starfsmann Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þekktan doktor og mikinn vísindamann á þessu sviði, og taldi að hér væru of fá úrræði til margra hluta og spurði eftir því hvort kæmi til greina að aðgreina auðnir og rofsvæði, t.d. á afréttum. Nú er ekki allt sett í lög. Ég vil segja fyrir mig að bændur landsins gera sér mjög góða grein fyrir hvað mikilvægt er að fara vel með land í dag og hvað almenningur er meðvitaður um það. Þeir hafa verið ræktunarmenn Íslands í gegnum aldirnar. Þeir vilja halda því forustuhlutverki sínu. Þess vegna minni ég á nýjan búvörusamning sem sauðfjárbændur gerðu árið 2000 og nú er mjög deilt um. Þar var tekin inn í gæðastýring á mörgum sviðum til að efla ræktunina og búskapinn. Á öðrum sviðum var skrifað undir landnotaþátt og Landgræðslan kemur mjög að þeim búvörusamningi og samstarfi við bændur um hann. Til þess að þeir geti verið með í gæðastýringu mega þeir ekki beita land, þ.e. ekki sé verið að níðast á því, annaðhvort standi það í stað eða sé í framför. Þarna mun Landgræðslan vinna á næstu árum í samráði við bændur alls konar úrbótaáætlanir. Það kemur mjög til greina á mörgum afréttum að leysa þetta mál með einföldum hætti.

Ég minnti á það við setningu búnaðarþings á dögunum að fyrir rúmum tuttugu árum --- eða þegar ég var barn, við skulum bara fara þangað fyrst, þar sem ég var barn að alast upp, þá þótti það t.d. alveg sérstök hamingja hvers manns sem átti svo fótfráa og fríska á að hún sækti inn í Þjórsárverin fögru og vildi bíta þar sumarlangt. Þegar nýir bændur komu í sveitina voru þeim gjarnan gefnar gimbrar undan þessum ám sem gengu í Þjórsárverum eða Arnarfelli hinu mikla. Það var heiður hvers bónda að eiga slíkar kindur.

Fjallkóngur Gnúpverja, Sveinn heitinn Eiríksson í Steinsholti, sá að þetta var ekki rétt stefna, þótt hann væri fjallkóngurinn og elskaði þetta svæði eins og menn gera sem himnaríki á jörð, þá sá hann að ekki var rétt að beita þetta land við nútímaaðstæður og þá breytingu sem var að verða. Hann lagði því til við bændurna og þeir hlýddu kalli foringja síns að það fé sem þarna gengi yrði skorið niður. Og menn tóku síðan upp á því að skera niður og gáfu engum nýjum bónda gimbrar af þeim stofni sem þangað sótti. Nú er svo komið að telja má þær kindur sem finnast þarna innfrá á fingrum annarrar handar, áður skiptu þær hundruðum. Þetta sýnir að bændur eru verndunarmenn náttúrunnar og svona eiga þeir að vinna. Og svona er hægt að vinna á mörgum afréttum og á að gera því það er hagur bóndans að kindurnar eða skepnurnar séu ekki á landi sem ekki þolir það og er vont að láta þær meira að segja sjást þar.

Þarna hefur því orðið mikil breyting og ég sé og trúi því að gæðastýringin og þessi sáttmáli um landnot muni skila því að nú hefjist langtímastefnumörkun og samvinna á milli bændanna í landinu og Landgræðslunar um hvernig með þessi landsvæði verður farið og hvernig staðið verður að vernd þeirra og staðið að því að forðast að skepnur séu ekki að bíta land sem ekki þolir það eða auðnir landsins.

Í gegnum þennan sauðfjársamning sé ég að mikil breyting er fram undan og bændurnir búa nú við sáttmála sem ég held að geti skilað þeim miklu við landgræðsluna og aukið samstarf um hana skiptir þá miklu máli. Það skiptir þá miklu máli að hafa hina öruggu hönd Landgræðslunnar sér við hlið til ráðgjafar og hjálpar í stefnumótun og hvernig að þessum málum verður staðið. Ég vil koma þessu á framfæri. Þetta er eitt af því sem ég vil kalla smart í dag til viðbótar.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson vill sjá svarta sanda verða græna. Við verðum líka að fara varlega í því. Svartur sandur er gríðarlega fallegur líka. Ég man eftir því þegar ég var með einum fremsta vísindamanni Íslendinga á akstri um línuveginn. Landsvirkjun hefur byggt upp marga fallega vegi til þess að geta notið hálendisins. Norðan Skjaldbreiðar námum við staðar og hann gekk út og sagði: Hér sjáum við þennan svarta sand. Þetta er ævintýraland í dag. Það er hvergi til svona land í Evrópu. Það er mikill gróður hér í melunum. Hingað megum við aldrei koma með lúpínu eða vinna nein spjöll á þessu landi.

Það er því svo margt í náttúru okkar sem er sérstætt og við eigum að varðveita, eins og hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna. Varðmenn þessa lands, hvort sem það eru alþingismenn, Landgræðslan eða bændurnir, verða að gæta hófs og gá að því að náttúran er dýrmætust með sínum séreinkennum. Þess vegna getur svartur sandur í sjálfu sér verið auðlegð sem okkur ber að varðveita. En auðvitað ber okkur að hefta að sandurinn fjúki yfir og eyðileggi annað land.

Þetta kann Landgræðslan allt saman betur en ég, alveg eins og hún kann betur en sá er hér stendur um varnir gegn landbroti sjávar. Vestfirðingar hafa aldrei verið hræddir menn, en ætli það séu ekki einhver erfiðustu stríðandi öfl sem maður fæst við, þ.e. brimið, boðarnir og aldan sem lemur hina ísköldu strönd, náttúran vinnur sitt verk og verður ekki alltaf hamin. En hins vegar bið ég hv. þm. að ræða þetta í næstu för hans með landbn. í Gunnarsholt við landgræðslustjóra og fara yfir það.

Við höfum í sjálfu sér lagt mesta áherslu á, eins og kemur fram í þáltill., að glíma við stóru fljótin. Það er ekki auðveld glíma heldur. Þau bylta sér á allar hliðar, færa sig á 50--100 ára tímabili á milli bakkanna og brjóta. Og þó að menn setji garða á einum stað bregst náttúran kannski með ólíkindum við því alveg eins og var sagt í dag um erlenda jurt sem hér væri sett, að hún getur brugðist öðruvísi við við íslenskar aðstæður. Náttúran er vandlesin, en þeir kunna best á hana sem með henni hafa lifað og þekkja þessi náttúruöfl.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag um landgræðsluáætlunina og frv. til landgræðslulaga. Þetta mál hefur komið áður fyrir þingið og verið fjallað um það, en ég vona sannarlega að þessi tvö mál verði afgreidd hér í vor.