Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 18:37:34 (5798)

2002-03-07 18:37:34# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra virðist hafa skilið orð mín svo að ég vildi græða alla svarta sanda upp. Það sem ég átti við var að taka undir þáltill. um að stöðva gróðureyðingu. Ég var í raun að vísa til orða í kvæði eftir Jóhann Sigurjónsson sem hæstv. landbrh. þekkir og hefst svo ,,Sofðu unga ástin mín,`` þar sem Halla segir: ,,Oft ég svartan sandinn leit, svíða grænan engireit.`` Hún harmaði það og var að lýsa ákveðnu ástandi, sjálfsagt bæði mannlífi og gróðurfari landsins. Þetta kemur þá inn á þann skilning að það átti sér stað gróðureyðing þegar svartur sandur þaut yfir grænan engireit. Þetta er úr kvæði Jóhanns Sigurjónssonar, Sofðu unga ástin mín, sem er ákaflega fagurt kvæði.