Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:01:19 (5806)

2002-03-08 11:01:19# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Já, til hamingju með 8. mars, alþjóðlegan baráttudag kvenna. Þegar þingmenn koma til umræðu á þessum degi um jafnréttismál og stöðu kvenna er úr vöndu að ráða því að af mörgu er að taka. Um hvað ætti maður að fjalla? hugsaði í gærkvöldi sú sem hér stendur þegar til átti að taka. Ætlarðu að semja ræðu? Eigum við að fjalla um þá staðreynd að 97% kvenna í Afganistan eru ólæs, í kannski stríðshrjáðasta landi heims í dag? Eigum við að fjalla um stöðu kvenna í Afríku, um alnæmispláguna sem kemur skelfilega niður á afrískum konum og börnum? Eigum við að fjalla um misrétti sem konur verða fyrir vegna fjölþjóðlegra fyrirtækja í þriðja heiminum sem starfa undir merkjum alþjóðavæðingar? Eða eigum við að fjalla um réttindi vændiskvenna, réttleysi þeirra öllu heldur? Eigum við að fjalla um veruleika íslenskra vændiskvenna? Eigum við að fara að kröfu UNIFEM, fara í aðgerðir og ganga til þess að reyna að láta kröfur af þessu tagi hljóma hátt, berast víða og ná einhverjum árangri eða eigum við kannski að ganga út frá umræðunni sem er vakin í Morgunblaðinu í dag og lýst í grein á baksíðu þar sem fjallað er um mismunandi viðhorf drengja og stúlkna í íslensku samfélagi til kynlífs? Það er afar merkileg umfjöllun sem leiðir í ljós að ungar stúlkur verða fyrir sífellt meiri þrýstingi frá drengjum, körlum, samfélaginu um að láta undan, vera þokkafullar, hefja snemma kynlíf og taka þátt í þvinguðum kynlífsathöfnum.

Hér er afar merkilegum hlutum hreyft, herra forseti. En hér í okkar eigin ranni er nú mjög mikil umræða um launamun. Við þekkjum öll að umræðan um þann málaflokk hefur verið yfirgripsmikil og við höfum farið víða. Umræðan um jafnan rétt karla og kvenna á Íslandi hefur verið umfangsmikil og gripið hefur verið til margra aðgerða. Við þekkjum kenningar um límgólf og glerþök. Við vitum heilmargt um það hvernig samþætta á jafnréttismálin við aðra málaflokka. Við höfum gert stórátak í fæðingarorlofsmálum með því að koma á fæðingarorlofi fyrir feður. Við höfum sett lög um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna. Okkur hefur tekist að stytta biðlista eftir leikskólaplássum og skóladagar yngstu barnanna eru orðnir samfelldari en áður. Við höfum stofnað fjölskylduráð, við höfum Jafnréttisstofu, fjölda nefnda og ráða um jafnréttismál, bæði á vettvangi atvinnulífsins og opinberra aðila, og við þekkjum öll nefndina um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Við vitum að sveitarfélög og fyrirtæki hafa í auknum mæli sett sér framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum. Við tökum þátt í erlendu samstarfi á sviði jafnréttismála, eigum aðild að norrænum nefndum, t.d. nefndinni um samþættingu jafnréttissjónarmiða í fjárlagagerð. Við höfum haldið ótal námskeið og erum með enn fleira á prjónunum.

Nú í dag, 8. mars, á baráttudegi kvenna heyrum við hæstv. félmrh. Pál Pétursson segja að markmið stjórnvalda sé að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Hæstv. ráðherra segir þjóðinni að hann vonist til þess að okkar nýja og öfluga löggjöf stuðli að auknu jafnrétti kynjanna.

Ég minnist þess, herra forseti, að hafa lesið bók sem heitir ,,Þegar vonin ein er eftir``. Þessi titill kom mér í hug þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra og lái mér hver sem vill, herra forseti, að ég er ekkert sérlega vongóð. Hæstv. ráðherra tók svo til orða þegar hann fjallaði um fæðingarorlof feðra: ,,Flestir nýbakaðir feður tóku mánuðinn sinn á árinu 2001.`` Og hvað? Eru þeir lausir allra mála þegar þeir eru búnir að taka ,,mánuðinn sinn``? Þá getur konan haldið áfram að vera heima með barnið á meðan það þarf mest á umönnun foreldra sinna að halda, helst í tvö ár, a.m.k. eitt, og svo þegar hún getur aftur farið að huga að atvinnumöguleikum sínum blasir við henni blákaldur raunveruleikinn. Með því að ala barn í þennan heim og annast það á viðkvæmasta skeiði hafa möguleikar hennar til frekari starfsframa verið skertir verulega. Vinnukraftur hennar hefur verið gengisfelldur og allar tilraunir hennar til að ná því að vera jafngóð fyrirvinna og maðurinn hennar eru dæmdar til að mistakast. Svo heyrir þessi kona hæstv. félmrh. segja að stjórnin vilji eyða kynbundnum launamun. Hvað á þessi unga kona að gera? Kjósa Framsfl. í næstu kosningum?

Herra forseti. Á málþingi um launamun kynjanna sem haldið var á vegum félmrh., Vinnumálastofnunar, Jafnréttisráðs og Jafnréttisstofu fyrir rúmri viku var flutt ansi vekjandi erindi um rauðu strikin í fjölskyldulífinu. Valgerður Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskylduráðs, hélt þetta erindi og hún lýsti þar þeirri skoðun sinni að það ættu að vera til jafnskýrt skilgreind hættumörk á sviðum tengdum fjölskyldumálum og við höfum gagnvart verðbólgu og kjarasamningum. Það væri hollt fyrir ríkisstjórnina að lesa erindi Valgerðar sem er að finna á heimasíðu félmrn. Það hristir upp í manni að lesa um fólkið sem ,,þegir, þraukar og þolir``. Sérstaklega er athyglisverð umfjöllun hennar um goðsögnina um fjarvistir mæðra en það hefur sem sagt komið í ljós að frá árinu 1996 mælist enginn munur á fjarvistum mæðra og barnlausra kvenna eða karla, og segir Valgerður orðrétt í erindi sínu, með leyfi forseta:

,,Það þarf sem sagt ekki lengur að óttast að mæður séu meira frá vinnu en aðrir, móðurábyrgðin eða ábyrgðarkvöðin truflar ekki vinnuframlagið með fjarvistum, og þessi staðreynd hlýtur að kalla á leiðréttingu launa og auðveldari starfsframa fyrir mæður og aðrar konur en nú er.``

Já, herra forseti, það skyldi maður ætla. Enn eitt atriði þar sem við getum huggað okkur við vonina sem hæstv. félmrh. talaði um í ræðu sinni.

Herra forseti. Kannski fáum við aukna von um þetta allt með vorinu því að þá kemur fram skýrsla hæstv. ráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna. Vonandi kemur hún fram í vor og vonandi kemur jafnréttisáætlunin í haust. Svo fáum við vonandi þverfaglega samráðsnefnd einhvern tíma, vonandi sem fyrst. Já, herra forseti. Hvatning hæstv. ráðherra gengur út á að við höldum í vonina um að bráðum komi betri tíð með blóm í haga. En ég heiti á okkur hér í þessum sal og þá þingmenn sem á eftir okkur koma að tryggja það með aðferðum sem duga að ekki líði önnur 40 ár, hlaðin kynjamisrétti af því tagi sem við höfum búið við frá því að krafan um jafnan rétt karla og kvenna kom fyrst inn í íslensk lög.