Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:15:13 (5808)

2002-03-08 11:15:13# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), MS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Í upphafi máls míns óska ég öllum til hamingju á alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er í dag. Það er viðeigandi að fá tækifæri til að ræða hér á Alþingi stöðu jafnréttismála almennt og ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þá skýrslu sem hann flutti hér.

Til marks um áherslur ríkisstjórnarinnar og hæstv. félmrh. í jafnréttismálum hafa á þessu kjörtímabili verið samþykkt nokkur lög sem miða að því að auka jafnrétti kynjanna í samfélagi okkar. Sem dæmi um það eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna og síðast en ekki síst lög um fæðingar- og foreldraorlof. Öll þessi lög miða að jafnrétti kynjanna og því ber að fagna. En fleira mætti auðvitað telja.

Eins og fram kom í skýrslu hæstv. félmrh. er mikið starf í gangi í stjórnkerfinu sem miðar að því að ná fram jafnrétti kynjanna og byggir það m.a. á nýju jafnréttislögunum. Ég tel ástæðu til að vekja sérstaka athygli á því að verið er að koma upp atvinnu- og jafnréttisfulltrúum á landsbyggðinni, m.a. til að vinna að bættri stöðu kvenna á vinnumarkaði á landsbyggðinni. Þó svo áratugir séu síðan íslensk lög kváðu fyrst á um launajafnrétti kynjanna viðgengst enn þá launamisrétti hér á landi. Það liggur fyrir að við þurfum að taka okkur verulega á til að ná þeim sjálfsögðu markmiðum sem felast í launajafnrétti kynjanna. Þar verða allir að leggjast á eitt. Það sem veldur ekki síður áhyggjum er sá búsetubundni launamunur sem fram er kominn hér á landi. Samhliða því að kynbundinn launamunur hefur þrátt fyrir allt minnkað er ljóst að búsetubundinn launamunur hefur aukist mjög að undanförnu. Það er því full ástæða til að beina sjónum sérstaklega að þeirri þróun í umfjölluninni um kynbundinn launamun.

Nýleg lög um fæðingar- og foreldraorlof munu valda ákveðnum þáttaskilum varðandi jafnrétti kynjanna og stöðu fjölskyldna í samfélagi okkar. Meðal þess sem felst í þeirri löggjöf er að jafnframt því að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði mun foreldraábyrgð jafnast. Það er mikið framfaraspor og er mikilvægt innlegg til að bæta stöðu fjölskyldna og mun það án efa leiða til fjölskylduvænna samfélags þegar fram líður.

Herra forseti. Umræða og vinna okkar að jafnrétti kynjanna er ekki og á ekki að vera bundin eingöngu við Ísland. Í skýrslu hæstv. félmrh. kom m.a. fram að á alþjóðlegum vettvangi hefur íslenskum stjórnvöldum verið hrósað fyrir að margt hafi áunnist í jafnréttisátt hjá okkur á síðustu árum. Í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði fáum við nauðsynlegan samanburð við aðrar þjóðir og jafnframt nauðsynlegt aðhald til þess að halda áfram á okkar braut. Á alþjóðavettvangi verður að halda uppi umræðu og aðgerðum til þess að berjast gegn ofbeldi gegn konum og börnum. Við Íslendingar eigum að gera okkur gildandi í þeirri umræðu hvar sem við komum því við í alþjóðlegu samstarfi.

Í þessu sambandi vek ég athygli á þeirri áherslu sem þingmannanefnd ÖSE leggur og mun leggja á málefni kvenna og barna. Á vettvangi ÖSE munum við leggja sérstaka áherslu á mannréttindi kvenna og barna og baráttu gegn mansali. Tengist það m.a. baráttunni gegn kynlífsiðnaðinum sem breiðist út nánast eins og eldur í sinu um okkar heimshluta og felur í sér ofbeldi og niðurlægingu kvenna og barna.

Hér á Íslandi höfum við orðið vör við þróun kynlífsiðnaðarins með beinum og óbeinum hætti. Því miður virðist mikil eftirspurn vera fyrir hendi og nægir þar að nefna nektardansstaðina sem sprottið hafa upp á síðustu árum. Þessu fylgja óæskilegar fyrirmyndir sem við viljum ekki að blasi við æsku landsins. Slíkt hefur vond áhrif á stöðu kvenna eins og reynsla annarra þjóða sýnir.

Ástæða er til að vekja athygli á þeirri yfirlýsingu sem fram kom hjá hæstv. félmrh. að hann muni beita sér fyrir stofnun samráðsnefndar ráðuneyta og sveitarfélaga með atbeina félagasamtaka til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Þau markmið sem fram koma í skýrslu hæstv. félmrh. og lúta að þessum málum fela í sér að íslensk stjórnvöld ætla sér að berjast gegn kynbundnu ofbeldi á markvissan hátt og því ber að fagna.