Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:19:33 (5809)

2002-03-08 11:19:33# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Með óbreyttum hraða munu 114 ár líða þar til tekjur karla og kvenna á Íslandi verða þær sömu, þ.e. sömu laun fyrir sambærilega vinnu, ef mið er tekið af þeim breytingum sem orðið hafa á þeim vettvangi á síðustu 20 árum. Ég minnist þess að í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 1995 var mikið rætt um skýrslu um kynbundinn launamun sem þá var ný. Nú, sjö árum síðar, virðist lítið hafa breyst til batnaðar í þeim efnum. Þá ræddu ráðamenn þjóðarinnar um viðhorfsbreytinguna svokölluðu sem væri nauðsynleg. Hvar er hún, herra forseti? Enn situr sama ríkisstjórnin, sami forsrh. og sami hæstv. félmrh. Enn hreyfist barátta kvenna fyrir sömu launum fyrir sömu störf með hraða snigilsins í íslensku samfélagi. Sporslurnar, bílastyrkirnir, óunnin yfirvinna o.þ.h. fer að stærstum hluta til karla. Launaleynd á vinnumarkaði kemur körlum helst til góða. Þeir hafa forskotið. Þeir bera sig saman. Laun þeirra eru ekki leyndarmál þeirra á milli. Niðurstaðan er þeim í hag.

Gamaldags viðhorf til kvenna á vinnumarkaði eru því miður enn ríkjandi og goðsagnirnar lifa góðu lífi, samanber þá að konur séu meira frá vinnu vegna veikinda barna. Vonir hafa verið bundnar við ný fæðingarorlofslög. Nú er það svo, herra forseti, að karlmenn eru að verða jafnóstabíll vinnukraftur, eins og það hefur stundum verið orðað, og konur og það verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni, herra forseti, þegar atvinnurekendur verða áreiðanlega áþreifanlega varir við þá staðreynd að karlmenn eru í barneign svo að segja allt sitt líf. Samfélagsgerðin er slík að enn raða konur sér í hlutastörf í stað þess að vinnuálagið, bæði á vinnumarkaði og inni á heimilum, sé jafnara.

Herra forseti. Það er fáar konur að finna í efstu lögum samfélagsins. Þær eru ekki forstjórar fyrirtækjanna. Þær eru ekki framkvæmdastjórar þeirra heldur. Þær eru ekki í stjórnum stóru fyrirtækjanna á Íslandi, nema í örfáum undantekningartilfellum.

Yfirlit tímaritsins Frjálsrar verslunar yfir tekjur 2.100 Íslendinga á síðasta ári er skyldulesning fyrir þá sem vilja gera sér grein fyrir stöðu kvenna í íslensku samfélagi árið 2002 með tilliti til launakjara. Í þessu yfirliti, þó að það sé unnið með handahófskenndum hætti, ég geri mér grein fyrir því, kemur skýrt fram að milljónkrónamennirnir á Íslandi eru karlmenn. Það er varla konu að finna í þeim hópi. Þær eru teljandi á fingrum annarrar handar, herra forseti. (ÖJ: Milljón á mánuði?) Já, ég er að tala um milljón á mánuði, herra forseti, það kemur skýrt fram í yfirlitinu.

Kynjagleraugna er þörf við allar ákvarðanir sem eru teknar á hinu háa Alþingi og við allar ákvarðanir framkvæmdarvaldsins, við fjárlagagerðina, við setningu skattalöggjafar, við vegáætlun, við ákvarðanir um umhverfis- og öryggismál og svo mætti lengi áfram telja. Það er nefnilega þannig að það er ekki nóg að vona, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir tók fram hér áðan. Það þarf skýra stefnu og stefnumörkunin er í höndum þeirra sem með valdið fara, höndum hins háa Alþingis, í höndum hæstv. ríkisstjórnar. Án kynjagleraugnanna, herra forseti, erum við í raun blind á það samfélag sem við búum í.