Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:32:02 (5812)

2002-03-08 11:32:02# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í skýrslu þeirri sem hæstv. félmrh. flutti okkur í upphafi umræðunnar vék hann m.a. að sveitarstjórnum og sagði að þær þyrftu að leggja aukna áherslu á jafnréttismál. Ég tek undir það heils hugar, virkileg þörf er á því að í sveitarstjórnunum verði hlutur kvenna efldur.

Launamunur milli karla og kvenna er meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Hann er undir 50% af launum karla eins og fram hefur komið í umræðunum. Búsetubundinn launamunur fer vaxandi eins og hæstv. félmrh. vék að í skýrslu sinni, og samkvæmt upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd fer kynbundinn launamunur minnkandi en búsetubundinn launamunur eykst sem sagt mjög ört. Er athyglisvert að í upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd er þessi munur á öllum viðmiðunarhópum nema sérfræðingum, en hann fer að auki vaxandi og núna eru laun 10--20% lægri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi þróun er að mínu viti afar hættuleg og gæti aukið á fólksflutninga frá landsbyggðinni, gæti ýtt undir búferlaflutninga til höfuðborgarsvæðisins, og er ekki á bætandi varðandi stöðu landsbyggðar almennt.

Í skýrslu sinni sagði hæstv. félmrh., með leyfi forseta: ,,Í flestum tilfellum mun þó hlutastarfið vera eigið val konunnar.`` Á landsbyggðinni búa hlutfallslega fleiri eiginkonur sjómanna en á höfuðborgarsvæðinu. Ég lít svo á að eiginkonur sjómanna eigi ekki það val --- þótt þær vilji --- að taka þátt í atvinnulífinu. Auðvitað getur margt komið til, starf eiginmannsins úti á sjó vikum og mánuðum saman og einnig það hvernig fjölskylda sjómanns og eiginkonunnar er saman sett, þ.e. á hvaða aldri börnin eru. Það fer samt ekki á milli mála að sjómannskonur eiga almennt erfiðara með að taka þátt í atvinnulífinu en eiginkonur þeirra sem í landi starfa. Það er mun auðveldara fyrir hjón ef bæði vinna landvinnu --- ég tala nú ekki um ef vinnutíminn er reglulegur, frá átta til fjögur eða níu til fimm --- að taka þátt í uppeldi barnanna og skipuleggja málin með þeim hætti að eiginkonan hafi það val að vinna á vinnumarkaði ef hún svo kýs. Þar sem fiskurinn leggur til stóran hluta af tekjum á landsbyggðinni og oft sinna fiskveiðunum menn í hátekjustörfum er það sjálfsagt að hluta til skýringin á þeim launamun sem er meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vek svo athygli á því í lok ræðu minnar að í þeim málum sem hafa verið í umræðunni um sérstakan forgang manna til launa í þjóðfélaginu hafa konur ekki verið þátttakendur, t.d. í símamálunum og öðru slíku. Þar hafa karlar leikið aðalhlutverkið.