Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:44:50 (5815)

2002-03-08 11:44:50# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HGJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Helga Guðrún Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með daginn langar mig til að benda á að séð með augum samtímans eru jöfn réttindi kynjanna að margra mati sjálfsögð, og staðreynd í hugum enn fleiri. Því máli til stuðnings er iðulega bent á að lagalega séð halli hvergi á réttindi karla og kvenna. Árangur fer á hinn bóginn ætíð eftir þeirri mælistiku sem notuð er hverju sinni. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna hljótum við því að staldra við til að meta hinn áþreifanlega árangur jafnréttisbaráttunnar.

[11:45]

Mannréttindi mynda frá fornu fari grunn þessarar áratuga og aldalöngu baráttu. Um það er vart deilt að þessi nálgun hefur skilað gífurlegum árangri á síðustu áratugum, a.m.k. hvað löggjöf varðar. Þegar litið er til mælikvarða af hagrænum toga blasir því miður við allt annar veruleiki. Hér er að sjálfsögðu átt við þá mynd sem blasir við þegar hinum almenna lagaramma sleppir og sjónir okkar beinast að afmörkuðum sviðum þjóðfélagsins. Má þar nefna sem dæmi atvinnu- og launamarkaðinn, stjórnkerfið og valdahlutföll innan þjóðfélagsins, eins og þessar óáþreifanlegu stærðir birtast þegar þær hafa verið kannaðar með aðstoð kyngreindrar tölfræði. Konur reynast þannig hálfdrættingar á við karla í meðallaunum. Kynbundinn launamunur hefur á undanförnum árum mælst á bilinu 11--18% körlum í vil og hlutur kvenna í æðstu stjórnlögum er hvarvetna grátlega lítill. Þá gín hin hefðbundna kynhlutverkaskipting við nánast hvert sem litið er. Má þar nefna sem dæmi verkaskiptingu heimilanna, námsval ungs fólks og skiptingu vinnumarkaðarins í annars vegar karlagreinar og hins vegar kvennagreinar.

Virðulegi forseti. Markmið mitt með þessari upptalningu, sem getur vart talist ný af nálinni, er að vekja athygli á þeim gildu rökum sem færa má fyrir því að grunnur jafnréttisbaráttunnar, sjálfur kjarni hennar, hefur tekið breytingum. Sá þáttur sem hvílir á mannréttindum er ekki lengur sú þungamiðja sem hann var. Lykillinn að varanlegum árangri á þessu sviði er að við beinum sjónum okkar í ríkari mæli að hinni huglægu birtingarmynd misréttisins sem endurspeglast hvað skýrast í hefðbundnu kynhlutverkaskiptingunni. Svo sem kunnugt er sprettur hún fram af viðhorfum sem frá alda öðli hafa gegnsýrt þjóðfélagið og tileinkað konum og körlum ólíka eiginleika og getu. Þessi viðhorf mynda þannig það bráðlifandi afl sem beinir konum og körlum í jafnaðskilda farvegi og raun ber vitni, hvort heldur litið er til starfslauna, framamöguleika eða fjölskylduábyrgðar.

Fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki við að halda lífinu í þessum kynhlutverkum horfinna tíma eins og nefnd um konur og fjölmiðla hefur fjallað ítarlega um. Nefndin, sem skipuð var af hv. þm. Birni Bjarnasyni, þáv. menntmrn. og skrifstofu jafnréttismála, innihaldsgreindi á árinu 1998--2001 helstu fjölmiðla hér á landi með tilliti til hluts kynjanna. Skemmst er frá því að segja að kannanir leiddu í ljós mynstur sem á í stórum dráttum mjög skýra hliðstæðu í hefðbundnu kynhlutverkaskiptingunni. Rétt er jafnframt að geta þess að þessar niðurstöður eru mjög í takt við sambærilegar kannanir sem Evrópusambandið lét gera á sínum vegum.

Hversu undarlegt sem það hljómar, herra forseti, leiða þær allar í ljós að hlutur kvenna í fjölmiðlum er gegnumgangandi þvert á landamæri um 30% á móti 70% hlut karla, nánast óháð fjölmiðli og efni. Því verður á hinn bóginn ekki á móti mælt að þótt rót tiltekins vanda sé fundin er ekki þar með sagt að hann verði auðveldur viðfangs. Hin nánu orsakatengsl á milli viðhorfa og kynbundins misréttis gera jafnréttisbaráttu samtímans að sérlega viðkvæmu viðfangsefni. Viðhorf geta auðveldalega myndað viðkvæman eldivið sem nærir loga pólitísks rétttrúnaðar. Af þessum sökum er að mínu mati sérlega mikilvægt að þau ytri mörk séu skýr sem stjórnvaldsaðgerðir eðlis síns vegna styðjast óhjákvæmilega við í þessum efnum.