Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:02:17 (5820)

2002-03-08 12:02:17# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. sem er að finna á þskj. 864 óskar ríkisstjórnin heimildar Alþingis til að fullgilda nýjan stofnsamning fyrir Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, sem var undirritaður í Vaduz í Liechtenstein 21. júní sl.

Eins og kunnugt er var EFTA stofnað með svokölluðum Stokkhólmssamningi árið 1960. Ljóst hefur verið um langt skeið að þörf er á að endurskoða Stokkhólmssamninginn til að aðlaga hann betur að nútímanum og þörfum aðildarríkjanna, enda mikið gerst síðan sá samningur var gerður. Það voru einkum þrír þættir sem knúðu á um endurskoðun Stokkhólmssamningsins. Hann er fyrst og fremst samningur um fríverslun með vörur. Nútímasamningar um fríverslun taka hins vegar einnig til annarra þátta, eins og þjónustu og verndar hugverkaréttinda.

Í öðru lagi eru öll aðildarríki EFTA einnig aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO og því var talin þörf á að EFTA-ríkin létu það endurspeglast í stofnsamningi sínum. Eftir að Sviss gekk frá tvíhliða samningi við Evrópusambandið voru gagnkvæm réttindi EFTA-ríkja og ESB-ríkja hvort hjá öðru orðin mun meiri en milli EFTA-ríkjanna sjálfra og því ástæða til að færa þau til samræmis við samningana við ESB. Samningaviðræðurnar stóðu í um tvö ár og var hinn endurskoðaði samningur undirritaður í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001 og er nú almennt farið að kenna samninginn við þá borg.

Eins og hv. þm. sjá á þáltill. er samningurinn ásamt viðaukum allmikill að vöxtum, en fæst þessara ákvæða hafa að geyma ný efnisákvæði fyrir íslenskan rétt. Breytingin er því helst sú að Vaduz-samningurinn veitir svissneskum aðilum svipuð réttindi í hinum EFTA-löndunum og EES-samningurinn veitir aðilum í EES/EFTA-ríkjunum. Íslendingar, Norðmenn og Liechtensteinar fá sams konar réttindi í Sviss.

Rétt er þó að taka fram að Sviss fær fimm ára aðlögunartíma gagnvart frjálsri för fólks frá öðrum EFTA-ríkjum. Fram að þeim tíma útdeilist kvóti til EFTA-ríkjanna um fjölda þeirra ríkisborgara sem árlega getur sest að í Sviss á grundvelli samningsins. Þeim kvóta má breyta með ákvörðun EFTA-ráðsins, en að liðnum fimm árum falla allar slíkar takmarkanir niður. Svissneskir ríkisborgarar öðlast hins vegar ótakmarkaðan rétt til frjálsrar farar til annarra EFTA-ríkja við gildistöku samningsins.

Með Vaduz-samningnum er starfsemi EFTA ekki lengur takmörkuð með fríverslun með vörur. Hún tekur nú einnig til þjónustu, þar með talið þjónustuviðskipti, frelsi fólks til flutninga og fjárfestingar, samkeppnismála, auk annarra sviða sem nauðsynleg eru til að markmið samningsins náist.

Stofnanaþáttur EFTA er óbreyttur með Vaduz-\-samn\-ing\-num. EFTA-ráðið er enn sem fyrr æðsta vald í málefnum stofnunarinnar. EFTA-ráðið fær hins vegar nú vald til að breyta vissum viðaukum samningsins. Ákvarðanir innan ráðsins eru teknar samhljóða þannig að ekki kemur til breytinga sé eitthvert aðildarríki andvígt breytingunni. Vaduz-samningurinn er samstarfsgrundvöllur EFTA-ríkjanna á þeim sviðum sem samningurinn tekur til. Það hefur verið EFTA fjötur um fót í viðræðum við þriðju ríki um viðskiptasamninga að geta ekki sýnt viðmælendum sínum að þau höfðu sameiginlegan grundvöll fram yfir fríverslun með vörur. Úr því er bætt með Vaduz-samningnum.

Fullgilding samningsins mun kalla á nokkrar breytingar á íslenskum lögum til þess að veita svissneskum borgurum jafnstöðu á við einstaklinga og lögaðila frá EES/EFTA-ríkjunum. Frumvarp þessa efnis, svokallaður bandormur vegna þess að hann kemur við allmikið af lögum, hefur verið undirbúið í samvinnu við önnur viðkomandi ráðuneyti og það verður væntanlega lagt fram innan skamms.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þáltill. verði vísað til hv. utanrmn. og síðari umræðu.