Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:07:45 (5821)

2002-03-08 12:07:45# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki ítarlega ræða þessa miklu bók sem er till. til þál. um fullgildingu stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, heldur fyrst og fremst bera ákveðnar spurningar fram við utanrrh. Þar sem ég er fulltrúi Samfylkingarinnar í utanrmn. mun ég fá tækifæri til þess að fara yfir hvað tillagan þýðir og hvaða breytingar verða gerðar á lögum í kjölfar þess að við samþykkjum tillöguna. Hins vegar vakna nokkrar spurningar við stuttan inngang utanrrh. um málið.

Í fyrsta lagi að þegar stofnsamningur EFTA-samtakanna er gerður gildir hann aðeins um fríverslun með vörur og aðra samvinnu milli aðildarríkjanna, segir hér. Síðan segir á öðrum stað í inngangi að greinargerðinni að þrátt fyrir hin nýju efnissvið Vaduz-samningsins ber að hafa í huga að Ísland, Liechtenstein og Noregur höfðu sem aðilar að EES-samningnum þegar komið á sín í millum þeim reglum sem samningurinn geymir. Sviss og Evrópusambandið höfðu einnig samið um sömu reglur. Þá getur maður skilið þetta þannig að af því að Sviss er ekki aðili að EES og þar sem Sviss og Evrópusambandið höfðu sérreglur og við hins vegar tekið reglur inn í EES-samninginn, þá hafi núna þótt eðlilegt að taka reglur inn í þessa Vaduz-samþykkt sem og breytingar vegna þeirra fríverslunarsamninga sem taldir eru hér upp og í kjölfar samninga um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. En sú spurning vaknar hjá mér hvort við hefðum, ef Sviss hefði verið aðili að EES-samningnum, samt sem áður þurft að fara í þessa uppstokkun og gera þessa samþykkt eða er í raun og veru farið í að vinna þessa Vaduz-samþykkt vegna þess að EFTA-ríkin hafa ólíka aðkomu að málum sem tengjast Evrópu?

Hér kemur fram að nokkrar nýjungar verði. Í máli hæstv. utanrrh. kom fram að við munum þurfa að breyta einhverjum lögum. Er það gagngert vegna þess stofnsamnings sem við erum hér með tillögu um eða er það kannski að einhverju leyti vegna þess að við höfum átt eftir að taka inn einhver ákvæði sem tengjast þeim þremur atriðum sem eru lögð til grundvallar stofnsamningsins? Þetta er hugsun og spurningar sem vakna hjá mér.

Í öðru lagi langar mig að koma með ákveðna ábendingu. Í mörgum samningum okkar er talað um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina. Gagnkvæm viðurkenning prófskírteina er í norrænum samningum. Gagnkvæm viðurkenning prófskírteina hefur fengist með EES-samningnum. Undir kaflanum ,,Frjáls för fólks -- almannatryggingar og gagnkvæm viðurkenning prófskírteina`` er enn á ný komið að þessu máli. Staðreyndin er hins vegar sú að það reynist mjög sjaldan vera gagnkvæm viðurkenning prófskírteina. Ég hef sjálf komið að málum fólks á Norðurlöndum þar sem próf á Íslandi er ekki viðurkennt í Danmörku af því námsefnið er með einhverjum tilteknum hætti lagt öðruvísi upp á Íslandi og þrátt fyrir að það gefi fulla viðurkenningu hér, þá er það ekki viðurkennt í Danmörku. Ég hef líka kynnst því að á Norðurlöndum eru ákvæði um viðurkenningu prófskírteina oft og tíðum sterkari ef þau hafa fengist með EES-samningnum heldur en með norræna samningnum. Það svíður nokkuð undan því, því að grunnhugsunin í norræna samstarfinu er að gagnkvæmur réttur sé á öllum sviðum. Hvergi höfum við jafnmikil réttindi og á Norðurlöndunum, það að búa í öðru norrænu landi sé eiginlega það sama og að búa á einhverjum tilteknum stað í sínu eigin landi, en staðreyndin er sú að varðandi prófskírteini er EES-rétturinn í raun og veru sterkari og hefur gefið fólki meiri rétt á Norðurlöndunum en hinn norræni réttur.

Þá vaknar sú spurning, þegar maður hefur á mörgum ólíkum stöðum fjallað um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina, hvort þetta sé nægilega grundað, hvort þetta sé fyrst og fremst góður vilji en þegar á reyni hengi löndin sig í ýmis smáatriði sem hljóta að koma upp á borðið hverju sinni vegna þess að nám er á ólíkan hátt uppbyggt á Íslandi, á Norðurlöndum, í ólíkum löndum Evrópu og ef samanburður er ævinlega hafður uppi gildir ekki þessi gagnkvæmni.

Ég ætlast ekki til að hæstv. utanrrh. fari í djúpa umræðu við mig undir þessari tillögu um viðurkenningu prófskírteina, en það er orðið mjög mikilvægt að þeir ráðherrar sem fara með samningagerð fyrir Íslands hönd á þessu sviði fari nægilega vel ofan í það hvort í raun sé verið að skapa gagnkvæman rétt vegna þess að vonbrigðin eru svo gífurlega mikil þegar fólk telur að hér gildi réttindi sem reynast engin vera.

Herra forseti. Ég hef borið fram ákveðnar spurningar til hæstv. utanrrh. og komið að athugasemdum um viðurkenningu prófskírteina. Að öðru leyti hef ég hugsað mér að fara í utanrmn. vel yfir þetta mál, en var að velta því fyrir mér þegar ég opnaði þessa stóru og miklu bók --- auðvitað vitum við sem höfum unnið við þessi mál á Alþingi að ekki er ætlast til að við lesum hana, það er bara ákveðinn kafli hennar sem er þess eðlis að við förum ítarlega yfir hann. Þannig er með svona mál að eingöngu er farið ofan í þau af fulltrúum utanrmn. Ég var að velta því fyrir mér þegar ég hlustaði á framsögu hæstv. ráðherra að það gæti verið afskaplega þýðingarmikið fyrir aðra hv. þm. ef við með slíkum þingsályktunum fengjum eins og eina síðu sem greindi frá hver meginatriði breytinga yrðu í íslenskum lögum með staðfestingu eða samþykkt slíkrar tillögu. Ég velti því fyrir mér þegar ég las inngangskaflann að tillögunni.