Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:30:36 (5824)

2002-03-08 12:30:36# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er fyrri umræða um þáltill. en eins og hér hefur komið í ljós er í rauninni um að ræða tæknilega útfærslu á samningi sem við þegar höfum gert og ekkert nema gott um það að segja.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson dásamaði mjög EFTA sem ég er honum sammála um að hefur gert marga góða hluti eða við höfum gert ýmislegt sem hér hefur horft til framfara á þeim vettvangi, þótt ég sé ekki sammála honum um að besti samningur í sögu íslenskrar þjóðar hafi verið samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég hef oft gagnrýnt það að sá samningur hafi á ýmsan hátt þrengt að fullveldi okkar. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að við höfum ekki nýtt okkur sem skyldi alla þá fyrirvara sem við hefðum getað og það var það sem ég var fyrst og fremst að vekja athygli á í umræðunni áðan og vísaði þar til þáltill. þar sem þingið samykkti án mikillar umræðu því miður, nema af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, tillögu þess efnis að við yrðum að gera grundvallarbreytingar á raforkukerfi okkar.

Ég á mjög erfitt með að sætta mig við að okkur sé þröngvað til að gera breytingar af slíku tagi sem stríða beinlínis gegn hagsmunum okkar. Þar tók ég sem dæmi Orkubú Vestfjarða, sem er gert að fara að dæmi risavaxinna orkuveitna á meginlandi Evrópu og aðgreina framleiðsluna, dreifinguna og söluna á raforku, þótt allir þar á bæ hafi verið því andvígir.