Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:34:45 (5826)

2002-03-08 12:34:45# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að þegar maður gerir samninga þá þarf að vega og meta ávinninginn og eftirgjöfina. Ef eftirgjöfin hins vegar er fullveldi landsins, þá þurfum við að hyggja vel að því.

Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að við nýtum okkur alla þá fyrirvara sem við getum haft gagnvart Evrópusambandinu og innan EES-samningsins. Ég er ekki að mælast til að við segjum honum upp, síður en svo, vegna þess að samningsstaða okkar þar yrði með allt öðrum hætti en hún hefði verið ef við hefðum nálgast þetta utan frá.

Varðandi efnahagsáhrifin af EES-samningnum, þá hélt ég að það væri á margra vitorði að um allan heim hefur orðið uppsveifla í efnahagslífinu og ég held að ekki sé rétt að rekja það til þessa samnings með þeim hætti sem hv. þm. gerir.

Nú eru menn sem voru á sínum tíma hlynntir EES-samningnum farnir að tala um það á sama hátt og við gerðum sem höfðum efasemdir um að hann hefði þrengt að fullveldinu og leiðin væri þá hugsanlega að ganga inn. Þetta er mjög þekkt úr heimi alkóhólismans. Þegar menn eru búnir að taka einn sopa þá telja menn gjarnan að menn leysi allan vandann með því að tæma úr flöskunni. Ég held að það sé ekki góð lausn.