Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 13:51:25 (5837)

2002-03-08 13:51:25# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umræðu útboð í heilbrigðisþjónustu með hliðsjón sérstaklega af uppbyggingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir góðan vilja hefur miðað of hægt. Í Reykjavík eru u.þ.b. 20.000 manns án heimilislæknis. Hið sama á við um 6.000 Kópavogsbúa og nokkurn fjölda Hafnfirðinga. Ákvörðun um byggingu heilsugæslustöðvar í Voga-, Heima- og Sundahverfi liggur ekki fyrir og er orðið afar brýnt að taka á því máli. Til að anna þörf er talið að á milli 20 og 30 lækna vanti til starfa til viðbótar þeim um 100 sem nú eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu og öllum er kunnugt um langan biðtíma eftir viðtali hjá lækni.

Því er ánægjuefni að nýtt húsnæði heilsugæslustöðvarinnar í Grafarvogi var opnað fyrir stuttu og í þessari viku var tilkynnt um útboð á byggingu og rekstri heilsugæslustöðvar í Salahverfi í Kópavogi. Hér er tekinn upp þráðurinn frá því samið var um rekstur heilsugæslustöðvarinnar í Lágmúla við einkaaðila fyrir nokkuð löngu síðan. Hæstv. heilbrrh. er hlynntur ýmsum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu eins og hann hefur margoft sagt. Þessi ákvörðun er svar við ítrekuðum óskum fagaðila um aukið sjálfræði í störfum. Meginatriðið er að heilsugæsluþjónusta sé til staðar, að hún sé góð, aðgengileg, á viðráðanlegu verði og að jafnræði sé milli þeirra sem leita þjónustu sem kostuð er af opinberu fé. Þá má einu gilda fyrir þann sem sækir þjónustuna hvort ríkisstarfsmaður eða einkaaðili veiti hana.

Í því sambandi langar mig að benda á að R-listinn í Reykjavík hefur ákveðið að bjóða út læknisþjónustu við öldrunarstofnanir borgarinnar. Á þeirri ákvörðun og ákvörðun hæstv. heilbrrh. nú er enginn eðlismunur. Í báðum tilvikum eru yfirvöld að semja við einkaaðila um ábyrgð á rekstri sem þau samkvæmt lögum eiga að sjá um að standi fólki til boða.