Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:01:05 (5851)

2002-03-08 15:01:05# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ræða var mjög ómálefnaleg --- ég verð að segja það --- vegna þess að hv. þm. þandi sig mjög en aðallega út af málefnum sem ekki tengjast þessu frv. Ég heyri það reyndar að hann er á móti hlutafélögum almennt. Ég vissi það áður að hann er á móti samvinnufélögum. Hann styður ríkisrekstur og það er þessi gamli áætlunarbúskapur Stalíns sem er stefnan og ríkið á að eiga atvinnulífið og reka það. Þetta er hugmyndafræðin á bak við ræðuna sem hv. þm. hélt hér. Í sjálfu sér kemur það mér ekkert á óvart. En rökin gegn því að þetta mikilvæga fyrirtæki, Rarik, verði rekið í hlutafélagaformi voru engin. Það er ekki eins og það sé verið að gjörbreyta þessu fyrirtæki og það er ekki eins og verið sé að hætta þjónustu við landsbyggðina. Það mátti helst skilja hv. þm. þannig að það ætti bara að hætta að veita rafmagn um landsbyggðina vegna þess að það væri dýrt. Hv. þm. hlýtur að vita að það tengist ekki þessu máli. Ég hef margsinnis látið koma fram að sá kostnaður, þær óarðbæru einingar sem eru til staðar og Rarik hefur þurft að bera, þ.e. að það mál verður leyst vegna þess að í hinu nýja umhverfi raforkumála verður óheimilt að ákveðin fyrirtæki þurfi að bera slíkan kostnað vegna þess að þetta verður í samkeppni.

Vitnandi í Ameríku og guð má vita hvað, Kaliforníu --- hann er óskaplega vel að sér í því öllu saman --- í tengslum við að breyta Rarik í hlutafélag er bara fáránlegt.