Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:03:12 (5852)

2002-03-08 15:03:12# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra byrjaði á því að gefa máli mínu einkunn og sagði að hér hefði verið flutt ómálefnaleg ræða. Síðan sagði hæstv. ráðherra að ræðumaður hefði þanið sig mjög. Það er mjög málefnalegt auðvitað að taka þannig til orða. Síðan sagði hæstv. ráðherra að ég hefði rætt allt annað en efni þessa frv. Síðan sagði hæstv. ráðherra að ég væri á móti hlutafélögum. Síðan sagði hæstv. ráðherra að ég væri á móti samvinnufélögum, að ég væri stuðningsmaður ríkisrekstrar í anda Stalíns. Þetta er allt ákaflega málefnalegt, herra forseti, er það ekki, hjá hæstv. ráðherra? Hún sagði að mig hefði mátt skilja þannig að það ætti að hætta að dreifa rafmagni úti á landsbyggðinni.

Nokkur fleiri gullkorn komust hér fyrir í stuttu andsvari hæstv. ráðherra og þau voru nú málefnaleg eða hitt þó heldur, var það ekki? Þetta kalla ég að fella sig á eigin bragði. Ég held að hæstv. ráðherra hefði ekki átt að bera sér í munn orðið málefnalegheit og koma svo með tuggur af því tagi sem hæstv. ráðherra gerði hér.

Því sem ég spurði um og er auðvitað fullgilt, herra forseti, svaraði hæstv. ráðherra hins vegar ekki einu orði. Hvenær kemur frv. til laga um nýskipan orkumála? Í hvaða samhengi verða Rafmagnsveitur ríkisins og önnur orkufyrirtæki hér eftir hálft ár, eitt ár, tvö ár? Er ekki verið að byrja þetta á öfugum enda?

Herra forseti. Þetta eru fullgildar spurningar. Er það stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar sem kemur í veg fyrir að ríkisstjórnin komi sér saman um og geti lagt fram frv. til laga um nýskipan orkumála? Það fást engin svör við því, kannski vegna þess að þau eru ekki til eða vegna þess að þau eru þannig að hæstv. ráðherra getur ekki flutt þau hérna. Það er fleinn í holdi hæstv. ríkisstjórnar því að trúaratriðið mikla, Kárahnjúkavirkjun, er auðvitað þannig að hún setur það allt úr skorðum. Landsvirkjun þolir ekki að gerðar verði ráðstafanir í lögum til þess að innleiða ákvæði orkutilskipunarinnar ef hún á að geta ráðist í Kárahnjúkavirkjun o.s.frv. Vill ekki hæstv. ráðherra upplýsa okkur aðeins um stöðu þessara mála?