Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:09:32 (5855)

2002-03-08 15:09:32# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki vil ég kalla ræðu hv. þm. ómálefnalega en verð þó að segja að mér fannst hvað reka sig á annars horn í henni, enda komu fyrir í ræðu hans orðin stóriðjustefna, einkavæðing og hlutafélög. Hleypur hv. þm. stundum kapp í kinn þegar þessi hugtök eru nefnd.

Þetta frv. sem hér er til umræðu um breytingu á Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag, snýr ekki að stóriðjustefnu. Það snýr ekki að einkavæðingu. Það hefur hvergi komið fram eins og kom fram bæði í greinargerð og ræðu hæstv. iðnrh.

Mér fannst hv. þm. vera á gráu svæði svo ekki sé fastar að orði kveðið þegar hann dregur fram þau mistök sem hafa orðið við stjórn Landssímans og alhæfir út frá því að þar með sé hlutafélagaformið búið að afsanna sig í eitt skipti fyrir öll.

Hins vegar langar mig til að spyrja hv. þm. og biðja hann um að svara því afdráttarlaust, hvort hann leggist almennt og afdráttarlaust gegn breytingu á ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Ég spyr svo hv. þm. í framhaldi af því að hann lýsti einum möguleikanum í framtíðarsýn sinni, þ.e. að stofna landshlutafélög um raforkuframleiðslu og dreifingu og get ég deilt þeirri hugsun með hv. þm. og hef gert það áður í ræðustóli. En hvernig ætlar hv. þm. að nálgast það því að í þessu frv., eins og skýrt kemur fram í greinargerð og kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra, er einmitt ein röksemdin fyrir því að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag sú að opna fyrir þennan möguleika, að einstakir hlutar Rariks geti runnið inn í landshlutaveitur?