Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:13:49 (5857)

2002-03-08 15:13:49# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svarar ekki þeirri fyrirspurn minni hvernig hann hyggist þá vilja fara þá leið sem hann boðaði í ræðu sinni um að Rarik rynni inn í landshlutaveitur. Því var ekki svarað hér.

Ég er allsendis ósammála hv. þm. um að þetta frv. hafi eitthvað með stóriðju að gera. Hér er ekki um það að ræða að leggja niður Rarik. Hér er einungis verið að ræða um breytt rektrarform á Rarik. Hvers vegna? Það er rétt enn og aftur að vísa í framsöguræðu hæstv. ráðherra og í greinargerðina, þ.e. til þess að styrkja Rarik í þeirri hörðu samkeppni sem nú þegar ríkir á raforkumarkaðnum og mun ugglaust eflast enn frekar ef og þegar ný raforkulög verða samþykkt.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að Rarik hefur verið að reyna að hasla sér völl í þessari hörðu samkeppni með því að taka þátt í byggingu virkjana fyrir norðan og á Suðurlandi og á fleiri stöðum. Þetta form auðveldar Rarik einmitt slíka stöðu.

Ég ítreka fyrri spurningu mína: Hvernig sér hv. þm. að Rarik geti runnið inn til nýrra eigenda, þ.e. þeirra orkufyrirtækja sem þegar eru til í einstökum landsfjórðungum, og náð þannig fram samlegðaráhrifum ef ekki með því að breyta Rarik í hlutafélag? Því er ósvarað frá fyrri fyrirspurn minni.