Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:18:25 (5859)

2002-03-08 15:18:25# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Umræðan um þetta frv. hlýtur auðvitað að taka lit af því að það er hluti af miklu stærra máli sem er endurskipulagning á öllu raforkukerfinu í landinu gagnvart eignarhaldi þar sem hugmyndirnar eru að koma á einhvers konar samkeppnisumhverfi. Ég tel að stjórnvöld hafi staðið sig illa í undirbúningi þessara mála og það skortir sannarlega á að stefnumörkun hafi verið birt og rædd á opinberum vettvangi eins og hefði þurft að gera.

Hér kemur hæstv. iðnrh. með þetta frv., en raforkulagafrv. hefur ekki komið fram og stefna stjórnvalda í afar stórum og mikilvægum málum sem þetta varðar liggur alls ekki fyrir. Það vantar sem sagt þá heildarsýn og heildarstefnumörkun sem stjórnvöldum ber skylda til að gefa mönnum tækifæri til að ræða í tengslum við þetta mál allt saman.

Ég þarf t.d. á því að halda, hæstv. forseti, að fá að vita afstöðu hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnarinnar til þeirra hugmynda sem hafa komið fram hjá forráðamönnum sveitarfélaga í landinu um eignarhald á Rafmagnsveitum ríkisins eða þessu fyrirtæki sem verið er að tala um. Það hafa verið settar fram kröfur um það og þær hafa verið rökstuddar með gildum rökum að sveitarfélög í landinu ættu að eiga þetta fyrirtæki. Ég tel að ástæða sé til að fara yfir það og ekki bara það. Ég tel að full ástæða sé til þess að velta fyrir sér eignarhaldinu á Landsvirkjun í því samhengi og ég tel að mjög nauðsynlegt sé að menn horfi yfir þetta mál í heild og reyni að gera sér grein fyrir því hvernig sé hægt að mynda þetta samkeppnisumhverfi og hverjir það eru sem eðlilega eiga að eiga þessi fyrirtæki í upphafi þessarar samkeppni sem menn ætla að koma á. Mér finnst fráleitt að þurfa að horfa framan í þá stöðu sem nú er, að ríkið eigi hálfa Landsvirkjun, Reykjavíkurborg 45% og Akureyri 5%. Þær eignir sem hafa verið myndaðar í Landsvirkjun með því að gefa því fyrirtæki aðgang að orkulindum landsins fyrir ekki neitt og hafa þannig myndað eignarhald tveggja sveitarfélaga í landinu langt fram yfir aðra eru óhafandi. Ríkið verður að rétta þetta af í tengslum við þetta mál. Auðvitað er hægt að gera það. Að mínu viti á að taka umræðuna um Rarik inn í það mál líka og eignarhaldið á því fyrirtæki.

Það er vel hægt að hugsa sér að þeim hluta Landsvirkjunar sem er í eigu ríkisins verði að hluta til skipt upp til sveitarfélaga sem ekki hafa átt eignir þar inni. Það er hægt að líta á eignarhlut ríkisins í Rarik með sama hætti. Þannig þarf að meta hvað sé sanngjarnt og skynsamlegt að sveitarfélögin í landinu eigi í þessum orkufyrirtækjum og dreififyrirtækjum þegar það umhverfi kemst á sem verið er að tala um.

Mér finnst ekki þolandi að þessi umræða fylgi ekki umræðunni um þær breytingar sem hér er verið að tala um. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fjalli um þetta þegar hann fer yfir þetta mál á eftir því það hlýtur að vera að í ríkisstjórninni hafi verið fengist við þetta mál, svo stórt er það. Það getur ekki verið að menn hafi litið fram hjá stöðunni hvað þetta varðar, eignarhaldi á Landsvirkjun, eignarhaldi á Rarik, þeirri stöðu sem kemur upp ef menn breyta þessum fyrirtækjum í hlutafélög, hvernig menn ætla að skipta þessum markaði upp og hvaða stöðu Landsvirkjun á að fá á þeim markaði þegar hann verður til.

Það þarf líka að liggja fyrir hvernig menn ætla að sjá til þess að hægt verði að verðjafna raforku ef á þarf að halda og hvernig eigi að koma til móts við þau dreififyrirtæki sem koma til með að starfa á þessum markaði ef á þarf að halda í sambandi við verðjöfnun.

Þetta frv. snýst um að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag. Samt sem áður er sett þarna inn að gert sé ráð fyrir því að aðrir aðilar geti orðið eignaraðilar að þessu fyrirtæki. Hvernig á að vera hægt að taka afstöðu til þess öðruvísi en það liggi líka fyrir hvað menn ætla sér að gera með almennum hætti? Ég tel að til greina komi að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag en ég vil sjá það gerast í samhengi við það að Landsvirkjun verði breytt í hlutafélag og að eignarhlutunum verði skipt upp með sanngjörnum hætti í báðum þessum fyrirtækjum.

Ekkert bannar það síðan ef vel er að verki staðið og samstaða næst um að koma þessum hlutum í sanngjarnt horf að það geti ekki verið að hlutir sveitarfélaganna verði síðan venjulegir hlutir sem megi þá ganga kaupum og sölum ef þau kæra sig ekki um að eiga sinn hlut. En að byrja samkeppni á þessum markaði án þess að ganga þessa göngu til enda finnst mér fráleitt.

Síðan er það auðvitað umhugsunarefni sem hæstv. ráðherra hlýtur að þurfa að fara yfir hér á eftir hvort --- af því líka sérstaklega að hæstv. ráðherra er ekki bara iðnrh. Hún er líka viðskrh. Við höfum staðið frammi fyrir mjög alvarlegum málum í tengslum við hlutafélög, ríkisfyrirtæki sem nú eru orðin hlutafélög. Að undanförnu hafa menn verið að horfast í augu við að ýmislegt hefur komið þar upp. Upplýsingar eru um að ekki hafi verið vel staðið að málum, eftirlitskerfi hafi brugðist og það kemur í kjölfar þess að á Alþingi hefur mönnum verið neitað um upplýsingar frá þessum fyrirtækjum. Það getur ekki verið að hæstv. viðskrh. sé sátt við að til séu þrjár tegundir af fyrirtækjum, að til séu ríkisfyrirtæki sem verði að leggja allar upplýsingar á borðið, að til séu hlutafélög í almenningseigu undir almennum hlutafélagalögum þar sem hluthafarnir geta kallað fram þær upplýsingar sem þeim sýnist og að svo séu til hlutafélög í eigu ríkisins sem þurfa ekki að segja einum eða neinum neitt, þar eigi leyndin að vera skjól fyrir hvað sem er og menn þurfi að brjóta trúnað jafnvel til þess að koma upplýsingum á framfæri út úr slíkum fyrirtækjum og þurfi svo að taka pokann sinn á eftir. Það er auðvitað staða sem ég get ekki ímyndað mér að hæstv. viðskrh. sé sátt við, þ.e. að slík fyrirtæki séu undir slíkum reglum.

Ekki þarf að leita lengra en í svar hæstv. samgrh. við fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur um starfslokasamninga hjá Landssímanum o.s.frv. til að sjá varðandi þessi fyrirbrigði, þ.e. ríkisfyrirtæki sem hefur verið breytt í hlutafélög, að ráðherrann komst að þeirri niðurstöðu að hann mætti ekki segja nokkrum manni nokkurn skapaðan hlut af því sem þar færi fram. Þar skyldi leyndin hvíla yfir öllu.

Ég tel þess vegna að það sé alveg gild spurning hvort hæstv. viðskrh. ætli ekki að beita sér fyrir því að opnaður verði klár möguleiki, ekki bara möguleiki heldur réttur þingmanna til þess að fá algjörlega sambærilegar upplýsingar frá þessum fyrirtækjum sem breytt er í hlutafélög á meðan þau eru í eigu ríkisins að meiri hluta til, og ef þau væru ríkisstofnanir. Ég sé ekki hvað ætti að hamla því því að almennir hluthafar hafi rétt á upplýsingum í fyrirtækjum sínum. Ég sé ekki heldur að nein rök séu fyrir þessari leynd sem þarna hefur skapast.

Hæstv. forseti. Að mínu viti mætti ræða ýmislegt í tengslum við sjálft frv. Það verður auðvitað gert í nefndinni. Mig langar þó til að nefna það sem mér finnst umhugsunarefni og kemur fram í fylgiskjali frá fjmrn. Ef ég má, með leyfi forseta, vitna í það fylgiskjal þá stendur þar á einum stað:

,,Samkvæmt samningi milli fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og Rafmagnsveitna ríkisins frá janúar 1995 við yfirtöku lána skulu Rafmagnsveitur ríkisins greiða arð í ríkissjóð, sem nemur tveimur hundraðshlutum af bókfærðu eigin fé við næstliðin áramót. Vegna þessa ákvæðis mun arðgreiðsla til ríkissjóðs nema 214 millj. kr. árið 2002.``

Svo stendur á öðrum stað:

,,Rarik hefur verið rekið með tapi undanfarin ár og hefur því tvisvar á sl. fimmtán árum verið mætt með yfirtöku ríkissjóðs á hlut af skuldum fyrirtækisins. Í sjóðstreymis\-áætlun er gert ráð fyrir að taka þurfi 480 millj. kr. rekstrarlán árið 2002 og 415 millj. kr. lán árið 2003 vegna tapreksturs fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að í frumvarpi til raforkulaga verði lagt til að tapi vegna óarðbærs reksturs verði mætt með sérstöku gjaldi á raforkuvinnslu til almenningsnota.``

[15:30]

Mér finnst dálítið undarlegt að ákveða að hlutafélagi sem þarna er verið að stofna, þar sem gert er ráð fyrir að aðrir hluthafar geti komið inn líka með einhverjum tilteknum hætti, sé gert að greiða arð til ríkisins burt séð frá því þó að tap sé á fyrirtækinu. Ég velti því dálítið fyrir mér hvort menn hafi ekki verið einhvern veginn uppteknir af einhverju haltu mér, slepptu mér sjónarmiði þegar þeir voru að semja þessa hluti því að vitanlega lít ég þannig á að úr því að menn eru að ákveða hér að þeir vilji breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag þá þurfi þeir bara að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag og leggja því til þá fjármuni sem þarf ef það getur ekki staðið undir sér. En hér virðist hvort tveggja eiga að gera. Það á að breyta því í hlutafélag. Seinna á að taka ákvörðun um að veita því einhverja peninga til þess að standa undir taprekstri, en um leið er tekin ákvörðun um að fyrirtækið sem á að fara að reka með taprekstri eigi að borga arð til ríkisins. Þetta er svolítið skringileg leikfimi sem mér finnst vera í þessu. Gaman væri ef hæstv. ráðherra færi yfir það í ræðu sinni á eftir hvaða rök séu fyrir því að gera þetta eins og þarna er tekin ákvörðun um eða lagt til.

Ég verð að segja að aðalatriðið í þessu máli öllu saman er að þetta stóra mál fæst ekki rætt pólitískt. Menn fá ekki að tala um það. Hæstv. ráðherra hefur ekki fram að þessu treyst sér til þess að koma og segja hv. þingmönnum og landsmönnum hvaða stefnu ríkisstjórnin hafi í málinu, hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér. Hvað ætlar hún með eignarhaldið á Landsvirkjun? Hvað ætlar hún með eignarhaldið á Rarik? Hvernig á þessi framtíð að vera? Hverjir verða á þessum raforkumarkaði? Hvernig sér hæstv. ráðherra þá hluti alla saman fyrir sér? Það er auðvitað það sem við þurfum á að halda að tala um til þess að við getum tekið afstöðu til þessara mála. Ég verð að segja það alveg eins og er að ef slík umræða fylgir ekki raforkulagafrv. þegar það kemur hér til umræðu þá sé ég ekki hvernig ábyrgir stjórnmálamenn treysta sér til þess að standa að því að samþykkja þessi frv. því ef hætta er á öngþveiti á markaði eins og þessum þá hlýtur sú hætta að vera fyrir hendi ef menn taka ekki á þessum hlutum sem ég hef verið að nefna.

Ég minni bara á eignarhald Reykjavíkurborgar á orkufyrirtækjum hér og útþenslu á því eignarhaldi sem er á fullri ferð. Ég er ekkert að kvarta yfir því. En ætla menn virkilega ekki að taka á eignarhaldinu gagnvart Landsvirkjun þegar Reykjavíkurborg á 45% í því fyrirtæki, á svo annað stærsta orkufyrirtæki landsins og rekur það í þessu sama umhverfi? Það væri auðvitað fráleitt annað en að gera það. Ég er ekki að láta mér detta annað í hug en að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherrar hafi rætt þetta og velt þessu fyrir sér. En þeir fara vel með það. Þeir segja ekkert frá því hvað fer milli þeirra í þessu máli. Hvers vegna er það? Er það vegna þess að þeir hafi ekki náð samkomulagi um hvernig eigi að vinna að þessum málum? Ef það er þannig þá þarf það auðvitað að koma fram vegna þess að ekki er boðlegt að leggja af stað í þessa göngu nema menn viti hvert þeir ætla. Það þarf sannarlega að teikna þessa leið vel upp því gífurlegir hagsmunir eru í húfi og þeir hagsmunir eru hagsmunir allra Íslendinga því öll eigum við hlut í þessum fyrirtækjum sem hér er verið að tala um. Við eigum rétt á því að vita hvert menn ætla og hvaða umhverfi hæstv. ríkisstjórn sér fyrir sér í framtíðinni á þessum nýja markaði.

Það er því miður allt of margt óljóst í þessari framtíð og mér finnst hæstv. ráðherra eiga að skýra það mál allt miklu betur en gert hefur verið. Ég tel ekki boðlegt að menn ræði um þessi mikilvægu málefni á hv. Alþingi öðruvísi en að taka umræðuna um þau atriði sem ég hef verið að fara yfir í ræðu minni.