Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:36:55 (5860)

2002-03-08 15:36:55# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er rætt um frv. um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, um að einkavæða Rafmagnsveiturnar. Herra forseti. Sannast sagna hélt ég að menn hefðu ekki ímyndunarafl til að setja á blað þær röksemdir sem tilgreindar eru í athugasemdum með frv. fyrir þessum kerfisbreytingum. Ég hélt að menn hefðu ekki ímyndunarafl til þess. Alla vega hlýtur þetta að hafa verið skrifað, alla vega hljóta þessar athugasemdir að hafa verið settar á blað áður en fjármálaóreiðan hjá Landssímanum hf. var upplýst því að í athugasemdum við frv. segir, með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,Röksemdirnar fyrir því að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins eru margvíslegar:

1. Meginröksemdin er sú að hlutafélagsformið er mun hentugra rekstrarform fyrir rekstur sem þennan en það rekstrarform sem nú er notast við, jafnvel þó að ríkissjóður sé einn eigandi að hlutafélaginu. Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt.`` --- Það er nú svo. --- ,,Í löggjöf sem um það hefur verið sett er vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda (þ.e. eigenda), stjórnar og framkvæmdastjórnar. Þá eru reglur um endurskoðun og ársreikningsgerð, bæði rekstrarreikning og efnahagsreikning, mjög fastmótaðar og skýrar.

2. Ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins takmarkast við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst.``

Herra forseti. Hér heyrði ég að hæstv. iðnrh. tók undir. Hún mælti held ég á enskri tungu.

,,3. Með því að reka Rafmagnsveiturnar í hlutafélagsformi verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárfestingar og nýjungar í rekstri verða auðveldari í framkvæmd`` --- verður manni nú hugsað til Landssímans hf. --- ,,og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri.

4. Vilji ríkissjóður ekki leggja fram aukið hlutafé til að halda eiginfjárhlutfallinu í horfinu þegar kemur til þess að fjármagna þarf nýja fjárfestingu er unnt að leita eftir nýjum hluthöfum sem færa með sér nýtt hlutafé. Með því móti verður komist hjá því að ríkissjóður taki í sífellu á sig skuldbindingar, t.d. í formi ríkisábyrgðar, er fyrirtæki í eigu hans þurfa að ráðast í framkvæmdir.

5. Með því að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er jafnframt opnað fyrir þann möguleika að aðrar orkuveitur geti gengið inn í hlutafélagið og orðið hluthafar í því. Með því gæti náðst aukin hagræðing í orkudreifingu. Í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minni hluta eigenda. Ef ríkið gengur til samstarfs við aðra aðila um atvinnurekstur er hlutafélagsformið því sérstaklega viðeigandi.``

Herra forseti. Hér hef ég lesið upp í fimm liðum meginástæðurnar sem ríkisstjórnin tilgreinir fyrir því að umbylta rekstrarformi á Rafmagnsveitum ríkisins og gera þær að hlutafélagi. Ég ætla að víkja að þessum þáttum sem hér eru tilgreindir.

Ég ætla að byrja aftan frá á fimmta liðnum:

,,Með því að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er jafnframt opnað fyrir þann möguleika að aðrar orkuveitur geti gengið inn í hlutafélagið og orðið hluthafar í því.``

Til þess að auðvelda þetta eru til ýmsar leiðir, t.d. byggðasamlag. Það er leið sem hefur verið farin og er reynd. Þess má geta t.d. að slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu er rekið í því formi. Þar hafa bæjarfélögin sammælst um samrekstur á slökkviliðinu, Reykjavík, Hafnarfjörður og Kópavogur, að því er ég hygg, þannig að þarna eru ýmsir möguleikar fyrir hendi um sveigjanleika. Reyndar er einnig hægt að gera slíka samstarfssamninga þótt við búum við núverandi rekstrarform.

Í fjórða liðnum, af því að ég er að telja mig upp eftir röksemdunum sem svo eiga að heita, er talað um möguleika á að fá aukið fé inn í fyrirtækið og að sérstaklega sé slæmt að sitja uppi með ríkisábyrgðir. En hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að fara að gera á Austurlandi í tengslum við Kárahnjúka? Ætlar ekki ríkið að koma þar eitthvað við sögu? Ég hefði haldið það þannig að hér eru menn að ganga í gagnstæða átt hvað það snertir.

Í þriðja liðnum segir:

,,Með því að reka Rafmagnsveiturnar í hlutafélagsformi verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárfestingar og nýjungar í rekstri verða auðveldari í framkvæmd og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri.``

Þessu höfum við fengið að kynnast svolítið í tengslum við Landssímann. Ég minnist þess þegar umræða fór fram á Alþingi um hlutafélagavæðingu Landssímans að menn sögðu að hún væri minni háttar mál til þess að ná fram meiri háttar markmiðum og þar á meðal þessum, þ.e. að auðvelda fyrirtækinu að bregðast við á fjármálamarkaði, að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum og að starfsemin yrði öll opnari fyrir nýjungum í rekstri eins og það hét og þetta er aftur tilgreint hérna.

Staðreyndin er sú að ef litið er til Símans, alla þá öld sem hann hefur verið við lýði og í ríkiseign undir almannastjórn, þá hefur þetta verið mjög framsækin stofnun sem hefur tryggt landsmönnum lægstu símgjöld innan lands sem fyrir finnast á byggðu bóli. Þessi stanslausi áróður sem hefur verið rekinn gegn Símanum og er núna greinilega hafinn gegn rafmagnsgeiranum um að hann sé ófær um að takast á við nýjungar og framfarir nema í breyttu rekstrarfyrirkomulagi er gersamlega út í hött og við höfum fengið að kynnast því núna að undanförnu hvernig þessi sveigjanleiki hefur verið notaður og þessi mikla fjárfestingagleði. Eru menn búnir að gleyma því að Landssíminn hf. er undir forsjá ríkisstjórnarinnar, einkavæðingarnefndarinnar sem hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir á sæti í --- og það er kominn tími til að fara að ræða þá hlið málanna, hina pólitísku ábyrgð í einkavæðingunni, og það er kominn tími til að hæstv. ráðherra og Framsfl. horfist þar í augu við eigin verk og axli sína pólitísku ábyrgð því að sjálfsögðu er það sem við höfum orðið vitni að í Landssímanum, fjárreiðuóráðsían öll, á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega einkavæðingarnefndarinnar en þar eiga sæti fjórir ráðherrar, tveir frá Sjálfstfl. og tveir frá Framsfl. Það eru formenn beggja flokka. Það eru hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson. Svo situr hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir í einkavæðingarnefnd ásamt hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde.

[15:45]

Það er sú nefnd sem hefur lagt á ráðin um einkavæðingu Landssímans og nú eru menn að hefja þá göngu með Rafmagnsveitur ríkisins.

Landssíminn hf., þetta afsprengi einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar, Sjálfstfl. og Framsfl., tók 5 milljarða kr. lán, útlent lán og fjárfesti að auki aðra milljarða. Fjárfestir voru 11 milljarðar. Þegar fyrrv. framkvæmdastjóri fyrirtækisins var spurður um 400 millj. sem höfðu glatast, fjárfestingu sem hafði glatast, þá sagði hann: Þetta eru svo litlir peningar í samanburði við allar fjárfestingarnar, 11 milljarða. Þetta er ekki neitt, 400 millj. Hvað eru menn að hafa áhyggjur af slíkum smáaurum? Síðan á að bjóða manni upp á röksemdir af þessu tagi að með því að einkavæða, og hér hræða dæmin, þá sé auðveldara að fjárfesta og á ábyrgari hátt vegna þess að öll stjórnsýslan verður ábyrgari. Það segir í 2. lið, með leyfi forseta:

,,Ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins takmarkast við hlutafjáreign og ábyrgð stjórn enda eykst.``

Það er enginn reiðubúinn að axla ábyrgð. Það var enginn reiðubúinn að axla ábyrgð í Landssímanum hf. Ríkisstjórnin hefur ekki verið reiðubúin til að axla ábyrgð. Hæstv. samgrh. var ekki reiðubúinn að axla ábyrgð. Hæstv. forsrh. var ekki reiðubúinn að axla ábyrgð. Einkavæðingarnefndin var ekki reiðubúin að axla ábyrgð. Þeir stjórnmálaflokkar sem standa að þessu, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa ekki verið reiðubúnir að axla ábyrgð. Nú á að bjóða manni upp á þetta. Nú á að halda með orkugeirann út á þessa braut líka. Og allt til þess að stuðla að aukinni ábyrgð, aukinni ábyrgð í stjórnsýslunni. Hvers konar rugl er þetta eiginlega?

Hér segja menn, með leyfi forseta:

,,Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt.``

Það er alveg rétt, það er þrautreynt. (JóhS: Þrautlokað.) Það er þrautreynt hlutafélagsform með einu hlutabréfi. Það er það sem ríkisstjórnin segist ætla að gera, er það ekki, a.m.k. fyrst um sinn? Síðan vitum við náttúrlega að það verður selt. En það er verið að taka þessa stofnun, þá starfsemi undan almannastjórn og færa alla starfsemina bak við lokuð tjöld og niður í læstar skúffur. Það er reynsla okkar af hlutafélagavæðingunni. Þegar spurt hefur verið um innviðina, um hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað, um launakjörin hjá forstjóraveldinu, þá skýlir ríkisstjórnin sér jafnan á bak við hlutafélagalögin. Þetta er reynslan. Það er margoft búið að reyna þetta. Er það þetta sem menn eiga við kannski þegar talað er um hið þrautreynda form? Já. Í að fela staðreyndir.

Síðan er hitt náttúrlega, hvað blasir við okkur þegar er búið að einkavæða þessa starfsemi? Þegar einkavæðingin hófst fyrir fáeinum árum, fyrir um tíu árum fyrir alvöru, þá var byrjað á að einkavæða ýmsa atvinnustarfsemi. Við einkavæðingu sumra fyrirtækja hafði enginn neitt að athuga. Menn töldu það eðlilegt. Ég man ekki eftir nokkurri gagnrýni t.d. þegar Ferðaskrifstofa ríkisins var sett á markað eða Gutenberg. Þessu var ekki mótmælt. Síðan þegar SR-mjöl var markaðsvætt, þá var það gagnrýnt fyrst og fremst á þeim forsendum að salan hefði verið á gjafaprís. Gagnrýnin var fyrst og fremst í þá veru. En þegar kemur að stoðþjónustunni, rafmagninu, vatninu og öðru af því tagi, þá vilja menn staldra við. Þetta eru þættir sem eiga að vera í almannaeign og sama gildir um velferðarþjónustuna. Fyrr í dag var utandagskrárumræða um heilsugæsluna sem ríkisstjórnin ætlar að byrja að bjóða út og vikið var að því í ræðustól að tvær leiðir væru farnar í því efni, annars vegar hin hreinræktaða markaðslausn að brjóta niður tryggingakerfið og fara inn á markað með það, að einkavæða tryggingarnar. Tryggingafélögin eru núna að reyna að þrengja sér inn í það kerfi með þeim hætti og Læknalindin er af þessum meiði.

Og síðan er hin leiðin sem ríkisstjórnin hefur valið, það er einkaframkvæmdin. Hún er líka þrautreynd svo notað sé orðfæri ríkisstjórnarinnar. Hún er þrautreynd í Bretlandi og hefur alls staðar gefið mjög slæma reynslu. Fyrir hverja? Fyrir notandann og fyrir skattgreiðandann vegna þess að þetta er miklu dýrara, þetta er kostnaðarsamara. (Iðnrh.: Nei.) Nei, segir hæstv. ráðherra. Þá vil ég að hún komi með rök. Ég vil að hæstv. ráðherra komi með rök. Ég hef nefnilega kynnt mér þetta nokkuð vel. Það er stofnun við University College London sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á þessu sviði. Ég heimsótti þessa stofnun og ég hef mikil gögn um þetta efni. Sama gildir um háskólana í Greenwich og Manchester. Þetta eru stofnanir sem hafa sérhæft sig í rannsóknum á þessu og niðurstaða þeirra er sú að einkaframkvæmdin er miklu dýrari, hún er dýrari fyrir skattborgarann, enda benti Ríkisendurskoðun á það á sínum tíma þegar Sóltúns-samningurinn var gerður. Það væri eðlilegt að hann væri dýrari vegna þess að það þyrfti að reikna með arðgreiðslu til nýrra eigenda. Menn eru að fara með þessa starfsemi út á markað til þess að fá fjármagn frá fjárfestum, ekki satt? Það er hugmyndin. Halda menn að fjárfestar vilji ekki fá eitthvað fyrir sinn snúð? Ég hefði haldið það, enda er reynslan þessi að sjálfsögðu. Menn verða að ganga með opin augu að þessu. Það gera verkalýðssamtökin líka. Þau ganga alveg með opin augu að þessu.

Verkalýðssamtökin í Evrópu hafa núna verið að rannsaka afleiðingar af markaðsvæðingu á rafmagni. Verið er að rannsaka það. Hér er ég með fréttatilkynningu frá Unison, bresku verkalýðssamtökunum sem hafa verið að rannsaka einkavæðingu í orkugeiranum. Þeir segja að búast megi við því að innan fárra ára megi reikna með því að um sex fyrirtæki, ,,half a dozen`` segja þeir, fjölþjóðleg risafyrirtæki muni hafa skipt raforkumarkaðnum í Evrópu á milli sín. Síðan eru þeir að horfa til reynslunnar í Bretlandi og þeir segja að í Bretlandi hafi það nú gerst að fátækari hluti þjóðarinnar greiði meira fyrir rafmagn sitt en hinir rafmagnsfreku og ríku. Þetta er bara staðreynd. Þeir segja að þetta hafi komið í bakið á þjóðinni --- ég á nú eftir að skoða þetta nánar. Hér eru ýmsar aðrar upplýsingar sem að sjálfsögðu verður farið mjög rækilega í þegar kemur að því að ræða þetta mál við 2. og 3. umr. ef ríkisstjórnin ætlar virkilega að reyna að þröngva þessu í gegnum þingið í vetur. Ég á sannast sagna eftir að trúa því að það verði gert. Og ég á eftir að trúa því að það verði meiri hluti fyrir þessu á Alþingi. Getur það bara verið að allir þingmenn Framsfl. muni styðja einkavæðingu raforkugeirans? Ég er ansi hræddur um að kjósendur flokksins muni ekki gera það. Mér finnst mikilvægt að Framsfl. tali mjög skýrt í þessum efnum.

Í dag er hann búinn að tala fyrir einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og sannast sagna fannst mér það vera slæmt vegna þess að þar er á ferð ráðherra sem er andvígur slíkri þróun og hefur staðið vel í fæturna, það verður að segjast eins og er, gagnvart þeim öflum sem þrýsta á og ég vil fyrir mitt leyti styðja hann í þeirri viðleitni vegna þess að ég tel að hann vilji ekki fara inn á þessa braut. En getur verið að þessi armur í Framsfl. sem hæstv. iðnrh. fer fyrir, Valgerður Sverrisdóttir, og náttúrlega formaður flokksins og hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, félagarnir í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, ætli að þröngva þessu í gegnum þingið og er það þá í samræmi við vilja flokksmanna og þingmanna almennt? Ég bara spyr.