Þjóðgarður norðan Vatnajökuls

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:12:42 (5869)

2002-03-11 15:12:42# 127. lþ. 94.1 fundur 390#B þjóðgarður norðan Vatnajökuls# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég útiloka enga möguleika á þessu stigi en það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun varðandi Vatnajökulsþjóðgarð, að stefna að opnun hans. Ég tel því að fyrsta skrefið sé að fara í að koma þeim þjóðgarði í gagnið. Síðan tel ég eðlilegt að við skoðum hugsanlegar stækkanir á þeim þjóðgarði. Ég ímynda mér að það sé það skref sem blasir kannski helst við, að stækka síðan Vatnajökulsþjóðgarð þannig að hann nái yfir þessi svæði. En ég tel ekki eðlilegt að við klárum það mál hér og nú á þessu missiri eða neitt slíkt. Ég tel að mjög margir þurfi að koma að þessari stefnumótun og þar á meðal heimamenn eins og hv. þm. sérstaklega nefnir. Ég tel reyndar að heimamenn eigi að koma í auknum mæli að þjóðgörðum almennt á Íslandi. En hvort við gerum einhverjar breytingar á lögum skal ég ekki segja um hér og nú, en við höfum þegar breytt reglugerðum, m.a. um þjóðgarðinn Jökulsárgljúfur og þjóðgarðinn í Skaftafelli, þar sem við tökum fleiri heimamenn að samráði varðandi þá þjóðgarða.