Lánshæfi Íslands

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:18:50 (5873)

2002-03-11 15:18:50# 127. lþ. 94.1 fundur 391#B lánshæfi Íslands# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi eitt af þremur matsfyrirtækjum sem mest hafa um Ísland fjallað. Reyndar hefur það fyrirtæki sem hv. þm. nefndi til sögunnar minnst fjallað um Ísland og minnsta þekkingu haft á Íslandi. Hin tvö fyrirtækin sem þekktari eru hafa áfram mjög mikið álit á hinu íslenska hagkerfi, hinni íslensku efnahagslegu stöðu.

Ef það álit sem hv. þm. vitnaði til er lesið, þá er ljóst að það er byggt í veigamiklum atriðum á gömlum forsendum. Ef menn horfa til viðskiptahalla sem þar var talað um, þá hefur orðið á honum alger breyting frá því að þær spár lágu fyrir sem það fyrirtæki hlaut að leggja til grundvallar sínu tali þannig að ég hygg að þau fyrirtæki hafi miklu fremur heldur en þetta fyrirtæki sem hv. þm. nefndi til sögunnar meiri reynslu af því að meta lánshæfismat Íslands og meta það afar sterkt áfram. Ég hygg að við eigum að horfa meira til þeirra hluta.

Ég hef nýverið svarað skriflega fyrirspurn um áhrif framkvæmdanna fyrir austan, ef til koma sem við skulum svo sannarlega vona, á spennu í þjóðfélaginu á hverjum tíma fyrir utan skriflegt álit sem unnið var af Seðlabankanum, þá höfum við jafnframt átt umræður um málið í framhaldinu. Þar kemur fram að við munum auðvitað hafa nægan tíma þegar sú ákvörðun liggur fyrir til að huga að öllum þeim mótvægisaðgerðum sem Seðlabankinn bendir á að æskilegt sé að til komi. Ég hygg því að ekki sé nokkur ástæða fyrir þingmanninn né nokkra aðra að hafa áhyggjur af íslensku efnahagsástandi eins og við sjáum. Sá þátturinn sem menn hafa haft mestar áhyggjur af, viðskiptahallinn, er allur annar en hinir svartsýnustu menn höfðu haldið sem mest á lofti.