Reiknilíkan fyrir framhaldsskóla

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:33:42 (5884)

2002-03-11 15:33:42# 127. lþ. 94.1 fundur 393#B reiknilíkan fyrir framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hinn 11. júní árið 2000 skipaði menntmrh. starfshóp til þess að fara yfir svokallaðar reiknireglur sem notaðar hafa verið til þess að skipta og deila út fjármagni til framhaldsskólanna. Þessi starfshópur skilaði áliti að ég held sl. haust. Starfshópurinn lagði til að þessar reiknireglur yrðu endurskoðaðar með tilliti til ákveðinna þátta.

Á sl. hausti komu fram miklar og eindregnar óskir frá framhaldsskólum vítt og breitt um landið og stéttarfélögum kennara og skólastjóra sem starfa í framhaldsskólum um að þessar reiknireglur yrðu endurskoðaðar, og fjármagni til skólanna yrði ráðstafað á grundvelli endurskoðaðra reiknireglna. Það tókst því miður ekki á sl. hausti áður en fjárlög voru afgreidd. Þess vegna mættu allmargir framhaldsskólar þessu ári með skuld frá fyrri árum og auk þess í mikilli óvissu um rekstur sinn á þessu ári. Ég vil því beina þessum spurningum til hæstv. menntmrh.: Hvað líður þessari endurskoðun, hvenær er þess að vænta að nýjar reglur um deilingu fjár á framhaldsskólana sjái dagsins ljós og hvað verður gert nú, á þessu ári, bæði vegna skulda þeirra frá fyrri árum og eins líka til að tryggja þeim nýjan og öruggari rekstrargrundvöll fyrir næsta ár? Nú eru nemendur þegar byrjaðir að sækja um skólavist, og skólunum er afar brýnt að fá að vita stöðu sína til að meta hversu marga nemendur þeir geta tekið inn á næsta ári.

Ég ítreka: Hvað líður framkvæmd endurskoðunar á reiknireglu fyrir útdeilingu á fjármagni til framhaldsskólanna og hvenær er að vænta niðurstöðu í þeim efnum?