Reiknilíkan fyrir framhaldsskóla

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:37:39 (5886)

2002-03-11 15:37:39# 127. lþ. 94.1 fundur 393#B reiknilíkan fyrir framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti sem hæstv. menntmrh. Tómas Ingi Olrich tekur til máls sem ráðherra og ég vil óska honum farsældar í starfi.

Ég vil áfram ítreka það að allmargir framhaldsskólar, sérstaklega þeir sem eru með verklegt nám og þeir sem eru með heimavistir, bera mjög skarðan hlut frá borði í reiknilíkaninu eins og sakir standa, og bitnar nú þegar orðið á kennslu þeirra og námsframboði. Auk þess sem þessir skólar bera skuldir frá fyrri árum eru þeir jafnframt með mjög veikan rekstrargrunn til starfans. Ég get nefnt dæmi úr Menntaskólanum í Kópavogi sem er með hótel- og veitinganám, og honum er ætlaður sami hlutur í matvælakaup eins og um almennan skóla væri að ræða. Hver og einn sem ber hag menntunar fyrir brjósti sér að þetta ráðslag gengur ekki upp og verður að leiðréttast.