Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:50:44 (5891)

2002-03-11 15:50:44# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir athyglisverðu máli og það er kannski þörf áminning um það að menn sjá sjaldan alla hluti fyrir þegar þeir eru að vinna að lagasetningu. Nú er engin deila um, geri ég ráð fyrir, tilkomu stjórnsýslulaganna á sínum tíma 1993 og þar á meðal það að í fyrsta skipti komu í lög ein samræmd ákvæði um vanhæfi sem áður hafði ekki verið að finna í íslenska lagasafninu, nema einstök ákvæði á víð og dreif sem tóku þá yfirleitt til þeirra atvika hvenær einstakir aðilar gátu orðið vanhæfir eins og t.d. í fjármálastofnunum eða af öðrum ástæðum. En stjórnsýslulögin breyttu þessu og tóku ekki síst til þess sem lýtur að hæfi manna eða vanhæfi í hinni opinberu stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Nú er augljóst mál að ef fordæmisgildi þessa dóms, sem hæstv. ráðherra drap á og er meginástæða þess að þetta frv. er flutt, væri óumdeilt og verkaði þannig að aðkoma undirmanna t.d. í ráðuneytum eða opinberum stjórnsýslustofnunum gæti gert alla yfirmenn þeirra vanhæfa sjálfvirkt, þá væri það hið versta mál og þær aðstæður gætu orðið uppi að einhver afskipti af máli leiddu bara til þess að allt stjórnkerfið þar fyrir ofan væri vanhæft og yrði þá sjálfsagt mikið um að menn yrðu að víkja sæti og setja yrði inn menn til þess að úrskurða í viðkomandi málum. Ég er þess vegna alveg sammála því fljótt á litið að það sé alveg óumflýjanlegt að bregðast við. Væntanlega verður að gera það með einhverjum þeim hætti sem hér er lagt til, þ.e. að taka fram að vanhæfi undirmanns vegna aðkomu að meðferð máls leiði ekki sjálfkrafa til þess að yfirmenn hans verði vanhæfir. Hitt er svo spurningin hvort ekki verði jafnframt að taka fram að þær aðstæður geti þó stofnast að slíkt vanhæfi smiti upp á við eða gangi upp á við og það er eiginlega meginspurning mín í tengslum við meðferð þessa máls hvort búið sé að kemba það og hvort menn séu alveg vissir um að skynsamlegt sé að orða þetta nákvæmlega eins og gert er í síðasta málslið 1. gr. frv.:

,,Verði undirmaður vanhæfur til meðferðar máls verða næstu yfirmenn hans aftur á móti ekki vanhæfir til meðferðar þess af þeirri ástæðu einni.``

Spurningin er þá eiginlega þessi: Skiptir ekki máli hvað það er sem stofnar til vanhæfis undirmannsins? Geta ekki skapast þær aðstæður að draga megi í efa að rétt sé t.d. að ráðherra komi að máli. Segjum að ráðuneytisstjóri hans, næsti undirmaður hans, hafi farið með mál eða að háttsettur deildarstjóri eða annar slíkur í ráðuneytinu hafi átt aðkomu að máli, farið með það, það hafi verið á hans verksviði og hann hafi fjallað um það í umboði síns ráðherra. Er þá ekki hægt að hugsa sér þær aðstæður að þetta megi ekki vera of altækt?

Mér sýnist vandinn einfaldlega vera sá að þarna verði menn að gæta sín að fara ekki offari í hina áttina einnig. Það er spurning hvort það eigi þá kannski að taka það fram. Kannski er það einfaldlega lögskýring. En alla vega virðast þarna fljótt á litið vera aðstæður sem menn þurfa að huga mjög vel að.

Nú er það t.d. þannig að í sumum tilvikum geta ráðuneyti eða stjórnsýslustofnanir þurft að hafa afskipti af máli, hafa jafnvel lögbundnu hlutverki að gegna á einhverjum forstigum máls þar sem að endingu liggur endanlegt vald, úrskurðarvald, í afdrifaríkum hagsmunamálum hjá viðkomandi ráðherra. Það er kannski ekki tilviljun að þarna var á ferðinni mál sem varðaði umhvrn. vegna þess að t.d. lög um mat á umhverfisáhrifum hafa fært í hendur ráðherra þess málaflokks gríðarlega afdrifaríkt vald til að fella úrskurði sem geta skipt miklu máli og haft mikið hagsmunatengt gildi. Þá sýnist manni fljótt á litið að það hljóti að geta komið upp þær aðstæður að ástæða sé til að meta hvort aðkoma undirmanna vegna efnis máls geti mögulega leitt til slíks vanhæfis upp á við þó að að sjálfsögðu sé ljóst að það gengur tæpast upp í framkvæmdinni að það gerist sjálfkrafa, að það sé sjálfvirkt. Það verður, held ég, að aftengja og það er væntanlega meginhugsun þessa frv. að sjá um að svo sé, að ekki fari að skapast sú hefð hér í framhaldi af þessum dómi að menn líti svo á að allt stjórnkerfi ofan við einhverja undirmenn geti bara sjálfvirkt orðið vanhæft og verði að segja sig frá málum ef þeir hafa átt einhverja aðkomu að því á undirbúningsstigi.

Þetta eru svona hugleiðingar, herra forseti, sem ég hef svo sem ekki haft aðstöðu til að setja mig í einstökum smáatriðum ofan í. En mér þætti fróðlegt að heyra hvort hæstv. forsrh. treysti sér á þessu stigi málsins að hafa einhverjar hugleiðingar uppi um þennan þátt málsins, verandi löglærður maður og reyndur í stjórnsýslunni og sá sem bar ábyrgð á undirbúningi setningar stjórnsýslulaganna á sínum tíma. Því geri ég ráð fyrir því að ekki verði farið í geitarhús að leita ullar þó að lagðar séu spurningar fyrir hæstv. forsrh. um þetta efni.