Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:14:14 (5894)

2002-03-11 16:14:14# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hlustun á ræðu hæstv. forsrh. vegna þessa máls komu ýmsar spurningar upp í hugann og þá kannski ekki síst sú að það gæti skipt máli ef ráðuneytið sendi frá sér eitthvert erindi, hvort sá er undir erindið ritar hafi ráðfært sig við ráðherrann eður ei að því er varðar úrlausn þess máls.

Í öðru lagi fannst mér líka eins og hæstv. ráðherra skautaði aðeins fram hjá því að það skipti máli hvers eðlis eða hvert efni þessara bréfa væri því að vissulega held ég að almenn fyrirmæli um eitthvað tiltekið geti ekki gert nokkurn mann vanhæfan, en hins vegar, eins og í þessu tilviki, var það metið svo að í bréfinu sem sent var heilbrn. fælist ákveðinn úrskurður.

Spurning mín til hæstv. forsrh. er þessi: Er hugsanlegt að þeir sem fá þessi bréf send geti ekki endilega treyst því að efni þeirra sé niðurstaða ráðuneytisins, þ.e. að hafi menn ekki haft samráð við tiltekinn ráðherra, borið sig upp við hann o.s.frv., þá geti menn ekki endilega treyst efni bréfsins, að það sé í raun og veru niðurstaða ráðuneytisins, niðurstaða ráðherrans? Ef svo er þá held ég að hér sé hugsanlega verið að búa til miklu meiri réttaróvissu en þá sem hér er verið að gera tilraun til þess að eyða, ef ég skil málið rétt.