Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:18:04 (5896)

2002-03-11 16:18:04# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki nákvæmlega á öllu því sem hér á sér núna stað. Í 14. gr. stjórnarskrárinnar segir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, og eins og segir í niðurstöðu Héraðsdóms ,,... þar með ákvörðunum sem teknar eru af einstökum starfsmönnum ráðuneyta í umboði hans.``

Samkvæmt þessari skýringu hæstv. ráðherra virðist sem hann komist að þeirri niðurstöðu að hann beri þá ekki ábyrgð á öllum starfsmönnunum, þ.e. ekki lágtsettum starfsmönnum, því að hæstv. ráðherra heldur því fram að þessir tilteknu starfsmenn geti ekki gert ráðherrann vanhæfan. Í því ljósi held ég að þetta þurfi að skýra örlítið betur því að ég held að ekki sé hægt að gera þannig greinarmun á starfsmönnum ráðuneyta að ráðherra beri ábyrgð á sumum þeirra en öðrum ekki, þ.e. á aðgerðum eða ákvörðunum sumra þeirra en annarra ekki. Ég verð því að segja, virðulegi forseti, að eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram og eftir þær skýringar sem hæstv. forsrh. hefur gefið er það enn skoðun mín að hér sé um einhvers konar misskilning að ræða eða þá að hér sé ætlunin að breyta frá þeirri stjórnarframkvæmd sem hefur verið stunduð lengi. A.m.k. óttast ég niðurstöðuna ef borgararnir geta ekki treyst því að niðurstaða ráðuneytis sem er rituð í umboði ráðherra sé meining ráðherrans eða ráðuneytisins sem þar kemur fram. Ef svo er geta menn ekki treyst að fullu þeim erindum sem frá ráðuneytinu koma.