Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:24:06 (5899)

2002-03-11 16:24:06# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það er ekki tilgangurinn með þessu frv. að breyta meginþáttum sem gilt hafa í stjórnsýsluréttinum. Þvert á móti er verið að koma í veg fyrir að niðurstaða Hæstaréttar leiði framvegis til þeirrar niðurstöðu að þessum stjórnsýsluhætti verði breytt varanlega. Og það er algjörlega ljóst í mínum huga að það er rétt sem hv. þm. sagði, það getur skipt miklu máli hver aðkoma embættismanna að málum eru, og við erum að setja undir þann leka eins og hér segir. Ég hef áður útskýrt að menn verði ekki sjálfkrafa vanhæfir af þeirri ástæðu einni að undirmenn þeirra hafi með einhverjum hætti komið að málum. Við slíkt væri ekki búandi og ég hygg að það sé mjög vel undirbyggt og rökstutt í þeirri lögfræðilegu grg., fremur en venjulegri grg., sem með þessu máli fylgir. Ég held að þessi niðurstaða sé mjög vel undirbyggð þannig að við erum ekki að kollvarpa stjórnsýslu með þessu frv. Frekar má segja að við séum að koma í veg fyrir að henni verði kollvarpað í kjölfar þess dóms sem upp var kveðinn með því að hafa lögin skýr og láta ekki eingöngu við lögskýringargögnin sitja sem við töldum að hefðu verið mjög afgerandi með stjórnsýslulögunum, sá skilningur sem fylgdi lögunum í framsöguræðu í lögskýringargögnum komi glöggt fram í textanum sjálfum.

Eins og ég hygg að hv. þm. hafi sagt sjálfur í upphafi athugasemda sinna rekum við okkur á það í lífsins gangi að þótt við reynum að hafa texta sem héðan fara sem skýrasta --- þeir eru kannski ekki alltaf mjög skýrir en sem skýrasta --- getur þurft að laga eitt og annað í meðferðinni og er sjálfsagt að gera það og hafa á því glögga skoðun. Ég treysti nefndinni og þeim sem hér hafa talað um málið í þinginu til að eiga góðan atbeina að því.