Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:28:27 (5901)

2002-03-11 16:28:27# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Kannski er ekki besti vettvangurinn til að fara í einstakar orðaskýringar, flóknar jafnvel á viðkvæmum lagatexta, hér í salnum heldur geyma þær til nefndarstarfs.

Vegna þess sem verið var að ræða almennt um lagasetningu áðan þykir mér mestur galli á mörgu sem frá okkur kemur miðað við það sem stundum áður var --- ég get alveg viðurkennt að sumt af því kemur frá ríkisstjórninni eins og verða vill --- að söguþráðinn vantar í lögin. Þau mættu rekja sig skýrar fram svo að menn væru ekki á stöðugum hlaupum milli ákvæða, 13. gr. skiljist ekki nema maður horfi á 4. gr. og fái ekki fullan botn í hana nema hlaupa í 26. gr. o.s.frv. En suma þá sem semja lög fyrir þingmenn, ríkisstjórn og aðra slíka skortir aðgengilegan sannfærandi söguþráð í lagafrv. Það hljómar kannski sérkennilega að ég sé farinn að blanda tómstundagamni mínu saman við veruleikann hér en engu að síður er nauðsynlegt að lögin séu sem einföldust, ekki eingöngu gerð í hendurnar á lögfræðingum. Og meira að segja lögfræðingar þurfa söguþráð til að skilja sum þeirra frv. sem að lögum verða hjá okkar ágæta hv. Alþingi.