Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:33:19 (5903)

2002-03-11 16:33:19# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að ýja að því að hv. þm. hefði ekki lesið grg. Ég var hins vegar í mikilli auðmýkt, sem kannski hefur farið mér illa, að ráðleggja honum að ef mér hefði mistekist að gera grein fyrir forsendunum væri honum hollast að fara nákvæmlega yfir grg., þar væru rökin a.m.k. mjög vel sett fram. Ég talaði um að hugsanlega hefði mér ekki tekist nægilega vel að koma röksemdum til skila en ég tók fram að í grg. væru þær ákaflega vel settar fram og ráðlagði hv. þm. að styðjast frekar við hana en það sem ég væri að reyna að segja málinu til skýringar. Ég var ekki að gefa í skyn að hann hefði ekki lesið grg. Hún er þess eðlis að jafnvel þótt við séum lögfræðimenntaðir, við tveir hv. þm., þurfum við að rýna töluvert í hana og liggja yfir henni, ekki bara hlaupa yfir hana einu sinni, heldur rýna töluvert í hana enda hefur verið lögð í hana mikil vinna og mikil pæling, eins og það er kallað.

Varðandi hitt atriðið, að ég hefði sagt að dómstólunum hefðu ekki þótt lögin nægilega skýr. Þetta er ekki orðalagið sem ég notaði. Ég hamraði á því að svo virtist vera sem dómstóllinn hefði ekki talið þau stjórnsýslulög nægilega skýr sem við byggðum skilning okkar á, sem við töldum í samræmi við lögin og að ættu að liggja þessum dómi til grundvallar. Ef sú hugsun sem við vildum orða þar hefði komið fram með nægilega skýrum hætti hefði dómurinn fallið á annan veg. Þess vegna er í þessu frv. leitast við að tryggja að lögin séu klár og skýr þannig að dómur af þessu tagi geti ekki fallið á nýjan leik.