Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:39:27 (5906)

2002-03-11 16:39:27# 127. lþ. 94.6 fundur 581. mál: #A fjárreiður ríkisins# (Fjársýsla) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir, um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins, er í sjálfu sér ekki stórt í sniðum í eðli sínu en þó er með því verið að opna þennan lagabálk, lögin um fjárreiður ríkisins.

Ég vildi aðeins spyrja hæstv. ráðherra um eitt sem ég er sjálfur ekki alveg klár á, um stöðu ríkisfjárhirslunnar. Það getur hafa farið fram hjá mér en ég hélt að við værum enn þá með starfsheitið ,,ríkisféhirðir``. Við höfum verið með það til skamms tíma og ég hélt að starfsheitið ríkisféhirðir hefði ekki verið lagt niður, a.m.k. hugnast mér það starfsheiti ágætlega í umfjöllun um ábyrgð á fjármálum ríkisins hvað þetta varðar, eða á ríkiskassanum. Þetta orð sem er komið þarna inn, ,,fjársýslustjóri``, sem mér skilst að eigi að sameina bæði starfsheiti ríkisbókara og ríkisféhirðis --- hæstv. fjmrh. leiðréttir mig þá ef svo er ekki --- finnst mér að hefði þurft nánari skoðunar við. Ég hef enga athugasemd við það þótt verið sé að sameina þessi verkefni sem eru eiginlega orðin á margan hátt sameiginleg nú þegar en ég velti fyrir mér hvort starfsheitið ríkisféhirðir sé horfið út úr þessu stjórnsýslusviði.

Síðan var annað sem ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra út í. Það varðar 47. gr. laganna þar sem lögð er til sú breyting að í stað orðsins ,,ríkisbókari`` komi ,,fjársýslustjóri``, þ.e. í ríkisreikningsnefnd. Í 46. gr. laganna um fjárreiður ríkisins er kveðið á um hlutverk hennar og, með leyfi forseta, vil ég vitna til hlutverks hennar eins og stendur þar:

,,Fjármálaráðherra skipar ríkisreikningsnefnd er skal vera honum til ráðuneytis um framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings og annars er þýðingu hefur fyrir það reikningslega kerfi er lögum þessum er ætlað að tryggja. ``

Ríkisreikningsnefnd er fjmrh. til ráðuneytis um framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings og annað varðandi reikningsleg kerfi. Samkvæmt 47. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisreikningsnefnd skal skipuð sex mönnum. Í henni skulu sitja ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, ríkisbókari`` --- sem yrði þá fjársýslustjóri --- ,,ríkisendurskoðandi og hagstofustjóri, auk tveggja fulltrúa sem fjármálaráðherra skipar eftir tilnefningu Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar. Ráðherra skipar formann nefndarinnar úr hópi nefndarmanna.``

Það sem ég set spurningarmerki við og teldi rétt að skoða úr því að þessi grein er opnuð er hvort eðlilegt sé að ríkisendurskoðandi, sem er jafnframt hlutlaus aðili gagnvart þinginu við meðferð og skoðun á framkvæmdarvaldinu, veiti því eftirlit og sé eins konar trúnaðaraðili þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Er þá eðlilegt að ríkisendurskoðandi sé jafnframt í ríkisreikningsnefnd, sem er fjmrh. til ráðuneytis um framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings og annars er þýðingu hefur fyrir það reikningslega kerfi er lögum þessum er ætlað að tryggja? Væri ekki eðlilegra að hann væri bara hreinn og beinn hlutlaus aðili og kæmi ekki að því að vera ráðgjafi í nefnd sem hann verður síðan hugsanlega að fara yfir eða taka út einstök framkvæmdaratriði sem byggja á tillögum og vinnulagi sem ríkisreikningsnefnd leggur til? Mér finnst athugandi að það sé hreinlega skoðað að ríkisendurskoðandi sé gerður fullkomlega hlutlaus gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað viðvíkur meðferð og framkvæmd fjárlaga og reikningsskil hvað það varðar.

[16:45]

Ég vil víkja aðeins örstutt að lögum um fjárreiður ríkisins. Þau taka á fleiri atriðum en hér eru tilgreind og vil ég inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort ekki hefði verið ástæða til af hálfu ráðuneytisins að beita sér fyrir því að taka upp fleiri ákvæði þessara laga, og þar á ég t.d. við ákvæði um þær greinar sem lúta að gerð fjáraukalaga, þar sem í lögunum er kveðið á um að ef veittar eru fjárheimildir á milli fjárlagaafgreiðslna, þ.e. ef fjárlög eru afgreidd að hausti fyrir næstkomandi ár og síðan kemur fjáraukalagafrv. haustið eftir, eins og það hefur tíðkast til þessa, en innan ársins er framkvæmdarvaldið að gera breytingar á fjárlögunum, bæði á gjaldahlið og jafnvel stundum á tekjuhliðinni ef tekjuhliðin breytist það verulega að hún þarf gagngerrar uppstokkunar við.

Ég hef lagt til í frv. til laga um breytingar á sömu lögum, um fjárreiður ríkisins, að leggja skuli fram frv. til fjáraukalaga oftar en nú er gert og það skuli vera skylt að leggja slíkt frv. fram að vori í lok vorþings þannig að þingið geti þá tekið ákvarðanir og afgreitt þær breytingar sem orðið hafa eða komið upp á vorþinginu. Einnig geta verið breyttar forsendur bæði varðandi tekjur og gjöld ríkisins sem ástæða er til að taka upp með formlegum hætti af þingsins hálfu eins og reyndar lög kveða á um. Ég nefni dæmi eins og umræðuna í dag um brýna fjárþörf Greiningarstöðvar ríkisins sem hefði kannski verið ástæða til að Alþingi gæti komið beint að, ef vilji hefði verið til, með beinum fjárframlögum í fjáraukalögum. Ég tel að úr því að þessi lög eru opnuð, þá eigi að fara ofan í þau og gera á þeim fleiri breytingar en hér er lagt til.

Ég vil einnig minnast á 30. gr. í lögunum, með leyfi forseta:

,,Einstökum ráðherrum er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir ráðuneytið heyra, til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila, enda sé áætlað fyrir verkefninu í fjárlögum. Með rekstrarverkefni er átt við afmarkaða rekstrarþætti eða rekstur ríkisstofnunar í heild sinni vegna viðfangsefna eða þjónustu sem ýmist er kveðið á um í lögum að ríkið skuli veita og standa undir kostnaði af eða eru liðir í því að ríkisaðili geti rækt hlutverk sitt.``

Þessi grein hefur verið túlkuð æ víðar og víðtækar með hverju árinu og síðasti samningur sem gerður hefur verið samkvæmt þessari grein --- eða ég hef ekki séð annars staðar lagaforsendur fyrir honum sem eru reyndar ekki fyrir samningnum við Sóltúnsheimilið um rekstur á því þar sem gerður er rekstrarsamningur til nærri 30 ára, sem er að mati Ríkisendurskoðunar hæpið að standist þessi fjárreiðulög. Ég tel því að hæstv. fjmrh. hefði átt að beina sjónum sínum að enn fleiri greinum í frv. sem greinilega eru ekki í takt í fyrsta lagi við þennan veruleika eins og hann er í reynd og í öðru lagi væri þá hreinlega rétt að þingið taki á þeirri þróun sem þarna er að eiga sér stað.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. varðandi 30. gr. laganna um fjárreiður ríkisins: Var samningurinn við Sóltún gerður á grundvelli hennar? Eða á hvaða heimild í lögum um fjárreiður ríkisins var sá samningur gerður? Fyrir mér er það enn þá stærra mál úr því að þessi lög eru opnuð heldur en að breyta nafni á forstöðumanni í stofnuninni, þó að eðlilega þurfi að gera það samkvæmt lögum.

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á að það eru fleiri atriði í þessum lögum sem þarf að taka upp heldur en hér er gert og vil hvetja til þess að ráðherra hafi frumkvæði að því að þau séu tekin upp, annars að beina því þá til fjárln. sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að skoða fleiri greinar frv. og ekki síst í tilefni þess að hér hefur hæstv. ráðherra opnað lagabálkinn með því sem hér er lagt fram.

Að endingu vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið hægt að finna eitthvert fallegra eða penna orð en fjársýslustjóri þó það sé svo sem ágætt, en þó hugnaðist mér betur ef hægt hefði verið að nota orðið ríkisféhirðir áfram. Við tölum um sýslumenn en ekki sýslustjóra. Í sjálfu sér er ástæða til þess, þegar framkvæmdarvaldið er að búa til eða reyna að laða fram nýyrði sem nauðsynlegt er að það geri, að þá sé jafnframt leitað til Íslenskrar málnefndar sem að ég best veit hefur einmitt það hlutverk að samræma nýyrðasmíð, bæði í þeirri meiningu sem ætlunin er að það hafi og einnig þá að öðrum orðum sem í notkun eru.

Virðulegi forseti. Ég varpa þessum spurningum til hæstv. fjmrh. og einnig varðandi stöðu ríkisendurskoðanda í þessari nefnd sem er fjmrh. til ráðuneytis um fjárlagagerð og fleiri hluti og einnig hvort hann telji ekki eðlilegt að fjárln. taki upp fleiri greinar frv. eins og ég hef verið að rekja hér.