Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:07:42 (5909)

2002-03-11 17:07:42# 127. lþ. 94.6 fundur 581. mál: #A fjárreiður ríkisins# (Fjársýsla) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að starfsheitið ríkisféhirðir skuli ekki lagt niður, heldur verði áfram við lýði. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína að ég tel að það hefði átt að skoða að yfirmannsstaðan yfir þessu verkefni öllu væri ríkisféhirðir því ríkisféhirðir og öll fjárhirsla byggir á traustu og góðu bókhaldi, ekki bara því að greiða út peninga og taka á móti, heldur á traustu og góðu bókhaldi. Því hefði verið mjög athugandi að æðsta yfirmannsstaðan fyrir þessu verkefni öllu hefði verið ríkisféhirðir og síðan hefðu verið deildarstjórar á bókhaldssviði og einhverjum öðrum slíkum sviðum. Ég vil bara varpa því fram að það verði skoðað.

Ég vil líka ítreka að ég tel að Íslensk málnefnd eða aðrir slíkir eigi að fara yfir nýyrðasmíð sem þessa, t.d. þetta orð, fjársýslustjóri sem hér er verið að taka upp. Mér hugnast það ekki, finnst það þunglamalegt og tel að það eigi a.m.k. að skoða hvort ekki séu möguleikar á öðru.

Varðandi orð hæstv. ráðherra um að þetta sé bandormur þá er það svo sem rétt. En meginbreytingin er á lögunum um fjárreiður ríkisins. Það er grunnurinn að breytingunni þó svo hún komi síðan inn í önnur afleidd lög. Ég tel því að það eigi að taka upp þessi lög öll.

Varðandi það að þetta fari til efh.- og viðskn. þá ræð ég því ekki í sjálfu sér. Ég minni bara á að eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá fóru hin nýju lög um fjárreiður ríkisins í gegnum fjárln. og þegar ég lagði fram frv. mitt um breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins þá var talið eðlilegt að það færi til fjárln. því þessi lagabálkur heyrði undir fjárln.