Tryggingagjald o.fl.

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:15:12 (5914)

2002-03-11 17:15:12# 127. lþ. 94.7 fundur 582. mál: #A tryggingagjald o.fl.# (reiknað endurgjald, breyting ýmissa laga o.fl.) frv. 65/2002, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta mál er á þskj. 911.

Eins og rakið er í greinargerð með frv. snerta flestar þær breytingar sem hér eru lagðar til breytingar sem gerðar voru sl. haust á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, en þær miðuðu m.a. að því að styrkja þá framkvæmd að maður sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila, þar sem hann er sjálfur ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, skuli reikna sér endurgjald sem talið er til tekna.

Í þessu frv. er um þrenns konar breytingar að ræða: Í fyrsta lagi er lagt til að í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og í lögunum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, verði kveðið skýrar en áður á um að reiknað endurgjald manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er sjálfur ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, myndi stofn til tryggingagjalds, og lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

Eitt af markmiðunum með lögum nr. 133/2001, um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er samþykkt voru á Alþingi í desember sl., var að styrkja þá framkvæmd að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að yrði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í eigin rekstri. Reiknað endurgjald manns í eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi myndar samkvæmt lögum um tryggingagjald og lögum um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða stofn til tryggingagjalds og lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs. Hins vegar þykir ekki nægilega skýrt kveðið á um það í lögunum um tryggingagjald og í lögunum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að endurgjald sem lögaðila ber að reikna manni sem hjá honum starfar, ef sá er jafnframt ráðandi þar vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, myndi stofn til tryggingagjalds og lágmarksiðgjalds í lífeyrissjóði.

Í öðru lagi er lagt til að ákvörðun skattstjóra um fjárhæð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu verði kæranleg til ríkisskattstjóra. Ákvörðun reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu er bráðabirgðaákvörðun þar sem ákvörðun um fjárhæð reiknaðs endurgjalds verður ekki endanleg fyrr en við álagningu. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að kæra ákvörðun skattstjóra um fjárhæð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu til yfirskattanefndar. Málsmeðferð hjá yfirskattanefnd tekur hins vegar oft langan tíma og því er hagkvæmara fyrir gjaldandann að eiga kost á skjótvirkara réttarúrræði þar sem um tímabundna ákvörðun er að ræða.

Í þriðja lagi er í frv. þessu lögð til breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem leiðir af samningsskuldbindingum okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 36. gr. laga nr. 129/1997, er lífeyrissjóðum veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á skipulegum markaði innan aðildarríkja OECD sem og óskráðum verðbréfum sem gefin eru út af aðilum innan OECD. Sökum þess að Liechtenstein er ekki aðili að OECD nær heimild lífeyrissjóðanna ekki til verðbréfa sem skráð eru á skipulegum markaði í Liechtenstein né heldur til óskráðra bréfa sem gefin eru út af aðilum þar í landi. Það er í ósamræmi við samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og því er lagt til að 36. gr. laganna verði breytt þannig að lífeyrissjóðirnir hafi sömu heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á skipulegum markaði í Liechtenstein, eða eftir atvikum eru gefin út af aðilum í Liechtenstein, eins og ef þau væru skráð á skipulögðum markaði innan OECD eða gefin út af aðilum innan OECD.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að umræðu lokinni vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.